Páskaegg á Bolafjallseggjum

Starfsmenn ratsjárstöðvarinnar á Bolafjalli fengu óvæntan glaðning í vikunni.

Dymbilvikan stendur nú sem hæst og páskarnir á næsta leiti. Það er auðvitað órjúfanlegur hluti páskahátíðarinnar að gæða sér á ljúffengum súkkulaðieggjum og lesa málshættina um leið og gildir þá einu hvort maður búi í Reykjavík eða starfi í ratsjárstöð á hjara veraldar.


Ratsjárstöðin á brún Bolafjalls.

Fyrr í vikunni fór þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNA, í hefðbundið eftirlitsflug vestur af landinu og tók svo eina æfingarlendingu á fjallseggjunum við ratsjárstöðina á Bolafjalli við Ísafjarðardjúp. Áhöfnin kom ekki tómhent á Bolafjall heldur hafði hún í farteskinu tvö dýrindis páskaegg handa starfsmönnum Landhelgisgæslunnar í ratsjárstöðinni, þeim Guðmundi Ragnarssyni staðarumsjónarmanni og Gareth Randall. 


Á bakaleiðinni flaug þyrlan þvert yfir Ísafjarðardjúp og þaðan suður með Ströndum og inn Hrútafjörðinn. Fáir bátar sáust á leiðinni enda flestir líklega farnir í páskafrí.


Hrannar Sigurðsson spilmaður afhendir Gareth Randall, starfsmanni á Bolafjalli páskaeggin.

Landhelgisgæslan óskar landsmönnum öllum ánægjulegra páska en hvetur þá um leið til að ganga hægt um gleðinnar dyr þegar páskaeggin eru annars vegar og muna að bursta tennurnar að súkkulaðiátinu loknu.