Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit kölluð út vegna sprengikúlu í Hafnarfirði

4. júní, 2020

Sprengikúlan fannst við jarðvegsvinnu.

4.6.2020 Kl: 10:50

Séraðgerða- og sprengjueyðingardeild Landhelgisgæslunnar var
kölluð út að beiðni lögreglu að húsi í Hafnarfirði í gærdag vegna torkennilegs
hlutar sem fannst við jarðvinnu á lóð húss í miðbænum. Við athugun
sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar kom í ljós að um var að ræða 20mm
sprengikúlu úr seinna stríði sem var virk og nokkuð ryðguð, enda komin til ára
sinna. Sprengjusérfræðingarnir settu sprengjuna í sérstakt box ásamt sandi svo
hægt væri að flytja hana til eyðingar. Að auki var jarðvegurinn við húsið
grandskoðaður og skimaður með málmleitartæki til að ganga úr skugga um að þar
leyndust ekki fleiri sprengjur.

Þegar búið var að gera sprengikúluna örugga til flutnings
var ekið með hana að Stapafelli á Reykjanesskaga og henni eytt á svæði sem
notað er til sprengjueyðingar.

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar hafa sinnt óvenju
mörgum verkefnum þar sem hermunir úr seinna stríði finnast á víðavangi. Fyrir
rúmri viku fann vegfarandi í hressingargöngu virka fallbyssukúlu á hinu
svokallaða Patterson svæði í Reykjanesbæ sem var í góðu ástandi miðað við aldur
og var henni eytt af séraðgerðasveitinni.

Nú þegar búist er við því að landsmenn verði á faraldsfæti
innanlands í sumar eru líkur á að sprengjur úr seinna stríði finnist víða um
land. Landhelgisgæslan hvetur fólk til að vera á varðbergi og ekki hika við að
hafa samband við lögreglu ef torkennilegir hlutir finnast.

1Sprengikúlan fannst við jarðvegsvinnu.2_1591269144415Sprengjusérfræðingarnir leituðu jarðveginn með höndum og málmleitartæki.Sprengjuserfraedingur-a-aefinguSprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar á æfingu.Sprengjuserfraedingur-a-aefingu2Frá æfingu fyrr í vikunni.