Sjómælingabáturinn Baldur 25 ára

Nú eru liðin 25 ár síðan sjómælingabáturinn Baldur kom til Reykjavíkur. Báturinn hefur á þessum 25 árum reynst Landhelgisgæslunni afar vel til sjómælinga, eftirlits, löggæslu, æfinga og margvíslegra annarra verkefna enda fjölnota með meiru.

Baldur var smíðaður úr áli af Vélsmiðju Seyðisfjarðar sem eftirlits- og sjómælingabátur fyrir Landhelgisgæsluna og var hann sjósettur hinn 14. apríl 1991. Baldur kom svo til heimahafnar í Reykjavík 12. maí 1991. Baldur er 21,3 metrar að mestu lengd og mælist 72,56 brúttótonn. Djúprista bátsins er 1,8 metrar.

Báturinn er búinn tveimur aðalvélum og skrúfum og er því mjög lipur í stjórntökum sem gerir bátinn sérlega hentugan í hin ýmsu verkefni. Baldur er sérstaklega útbúinn til sjómælinga fyrir sjókortagerð og um borð er m.a. fjölgeislamælir og fullkominn staðsetningabúnaður til að uppfylla alþjóðlegar kröfur um sjókortagerð. Um borð í Baldri er einnig léttbátur sem búinn er dýptarmæli til mælinga á grynningum og allra næst ströndinni. Að öllu jöfnu er fjögurra manna áhöfn á Baldri en vistarverur eru fyrir átta manns.

Starfsfólk Landhelgisgæslunnar heiðraði afmælisbarnið af þessu tilefni með því að grilla pylsur á bryggju Landhelgisgæslunnar í blíðskaparveðri.

 
Starfsfólkið fékk sér grillaðar pylsur í tilefni dagsins.
 
Starfsfólk siglingaöryggissviðs Landhelgisgæslunnar og sérfræðingar í sjómælingum og sjókortagerð ásamt áhöfninni á Baldri.
Frá vinstri: Björn Haukur Pálsson, Bergvin Gíslason, Guðmundur Birkir Agnarsson, Snjólaug Guðjohnsen, Hilmar Helgason, Níels Bjarki Finsen, Ágúst Ómar Valtýsson og Þórður Gíslason.
 
Afmælisbarn dagsins sem ber aldurinn vel.