Skipin lögð af stað á æfingasvæðið

Leitar- og björgunaræfingin Arctic Guardian hófst í dag.

Alþjóðlega leitar- og björgunaræfingin Arctic Guardian 2017 hófst í dag en samtök strandgæslustofnana norðurslóðaríkjanna átta (Arctic Coast Guard Forum) standa fyrir æfingunni og er hún sú fyrsta sem haldin er undir merkjum þeirra. Í morgun komu þátttakendur í æfingunni saman til undirbúningsráðstefnu um borð í danska varðskipinu Vædderen í Reykjavíkurhöfn. 

Síðdegis notuðu margir þeirra svo tækifærið og skoðuðu hin skipin sem notuð verða á æfingunni: norska skipið Andenes, bandaríska Spencer, kanadíska ísbrjótinn Pierre Radisson og síðast en ekki síst varðskipið Þór. Á sjöunda tímanum lögðu svo skipin af stað að æfingasvæðinu vestur af landinu og var tilkomumikið að fylgjast með þeim sigla eitt af öðru úr höfninni.

IMG_4460

Í fyrramálið hefst æfingin svo fyrir alvöru þegar skipin, flugvélar og þyrlur þátttökustofnananna hefja leit af björgunarbátum sem varpað var út úr flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, fyrr í dag. Með þessu er líkt eftir því ef stórt farþegaskip lenti í sjávarháska á Norður-Atlantshafi. Aðgerðunum er stýrt úr sérstakri stjórnstöð í Skógarhlíð 14 þar sem höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar eru.

IMG_4467

Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður hjá Landhelgisgæslunni tók þessar myndir af skipunum í Reykjavíkurhöfn í dag en Sigurður Ásgrímsson yfirmaður sprengjueyðingarsveitar LHG tók myndina úr Óðni af Pierre Radisson. Báturinn var notaður til að ferja lóðsinn í Reykjavíkurhöfn á milli skipa.

IMG_0223

Kanadíski ísbrjóturinn Pierre Radisson


IMG_0205

Vædderen og Þór við Ægisgarð

IMG_0207_1504655179852

Bandaríska strandgæsluskipið Spencer og Pierre Radisson

IMG_0208
Norska varðskipið Andenes

IMG_0221

Varðskipið Þór