Skrifborðsæfing undirbúin
Það þótti vel við hæfi að enda fundahöldin á því að bjóða sérfræðingunum upp á rammíslenskan þorramat sem rann ljúflega niður í flesta.
4.2.2020 Kl: 9:43
Landhelgisgæslan tók við formennsku í Arctic Coast Guard Forum fyrir tæpu ári til tveggja ára. Í apríl fer fram sérfræðingafundur þar sem forstjórar þeirra átta strandgæsla, sem aðild eiga að ráðinu, taka þátt. Á sama tíma fer fram svokölluð skrifborðsæfing hér á landi.
Á dögunum komu sérfræðingar hingað til lands til skrafs og ráðagerða fyrir æfinguna sem haldin verður í vor. Alls tóku rúmlega tuttugu manns þátt í fundinum sem fram fór í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð.
Það þótti vel við hæfi að enda fundahöldin á því að bjóða sérfræðingunum upp á rammíslenskan þorramat sem rann ljúflega niður í flesta. Á skrifborðsæfingunni í apríl verður enginn þorramatur en þar verður aftur á móti æfð leit- og björgun auk viðbragða við olíumengun í sjó.
Arctic Coast Guard Forum er samráðsvettvangur átta strandgæslustofnana sem stofnaður var árið 2015 og er mikilvægur fyrir leit, björgun og mengunarvarnir á norðurslóðum.
Á meðan Landhelgisgæslan gegnir formennsku í ACGF verður sértök áhersla lögð á að efla samstarf ríkjanna átta enn frekar þegar kemur að leit og björgun auk þess sem mengunarvarnir og umhverfismál verða sett á oddinn. Landhelgisgæslan kappkostar að kalla til sérfræðinga sem standa framarlega í þessum málaflokkum.
Rúmlega tuttugu sérfræðingar hittust og undirbjuggu skrifborðsæfingu sem fram fer í Reykjavík í apríl.Sérfræðingarnir virða íslenska þorramatinn fyrir sér.Þorramatur í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð.