Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar eyða sprengju við vestari flugbrautarendann í Borgarnesi

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst rúmlega þrjú í dag tilkynning um að torkennilegur hlutur hefði fundist rétt við vestari flugbrautarendann í Borgarnesi. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kallaði þegar út sprengjusérfræðinga úr sprengjusveit Landhelgisgæslunnar sem báru kennsl á hlutinn og staðfestu að um væri að ræða breska sprengjukúlu frá síðari heimsstyrjöldinni.

Fóru sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar á vettvang og eftir að hafa gengið úr skugga um að enginn væri nærri svæðinu var kúlan gerð óvirk. Var það gert með sprengjuhleðslu með það að markmiði að leysa ekki úr læðingi fulla virkni kúlunnar. Gekk aðgerðin mjög vel.

Sprengjukúlan sem um ræðir er af gerðinni Mortar og er tveggja tommu hásprengja. Þessar sprengjukúlur voru algengar í síðari heimsstyrjöldinni og hafa fundist víðar hér um land.

Meðfylgjandi er mynd af sprengjukúlunni sem fannst í dag.

 
Sprengjan sem fannst er bresk og af gerðinni Mortar, með tveggja tommu hásprengju.