TF-GNÁ í sjúkraflug til Vestmannaeyja - ekki fært sjúkraflugvél
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst klukkan 18.13 beiðni um þyrlu vegna sjúklings í Vestmannaeyjum sem koma þurfti til Reykjavíkur. Hafði þá sjúkraflugvél reynt að komast til Vestmannaeyja en þurfti frá að hverfa vegna veðuraðstæðna.
Áhöfnin á TF-GNÁ var á leið á nætursjónaukaæfingu með björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar þegar beiðnin kom og var hún stödd á flugvelli Landhelgisgæslunnar. Fór áhöfnin því fljótlega í loftið áleiðis til Vestmannaeyja. Afar blint var á leiðinni og um tíma var óvíst hvort unnt yrði að lenda á flugvellinum í Vestmannaeyjum en það tókst að lokum. Var sjúklingurinn fluttur þangað í sjúkrabíl og um borð í þyrluna sem flutti hann til Reykjavíkur þar sem lent var rúmlega hálfátta í kvöld.