TF-LIF í viðbragðsstöðu vegna flugvélar í vanda

TF-LIF og færeyskt varðskip í viðbragðsstöðu

24.8.2018 Kl: 11:55

TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, var kölluð út á ellefta tímanum í morgun eftir að eins hreyfils bandarísk flugvél sendi frá sér neyðarkall vegna gangtruflana í hreyfli. Flugvélin var þá stödd um 150 sjómílur frá Færeyjum en flugmaður vélarinnar áætlaði að lenda á flugvellinum í Vogum. TF-LIF var send áleiðis til Hafnar í Hornafirði, til að vera þar í viðbragðsstöðu. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafði samband við björgunarmiðstöðina í Þórshöfn sem gerði færeyska varðskipinu Brimli viðvart auk þess sem flutningaskip í grenndinni var látið vita, ef á þyrfti að halda. Vélin lenti heilu og höldnu í Færeyjum klukkan 11:19 að íslenskum tíma en þá var TF-LIF snúið við.