TF-LIF sótti sjúkling til Eyja

Mikil þoka í Eyjum svo ekki var hægt að koma við venjubundnu sjúkraflugi

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk síðdegis í gær beiðni frá Neyðarlínunni um að flytja veikan mann frá Vestmannaeyjum. Skyggni þar var afar slæmt og því ekki hægt að koma við venjubundnu sjúkraflugi. 

TF-LIF tók á loft frá Reykjavík upp úr klukkan hálffimm. Þyrlan lenti á Vestmannaeyjaflugvelli klukkan 17:19 þar sem bíða átti eftir sjúkrabíl en örskömmu síðar var þokan þar orðin svo þykk að hætta var talin á að lokast þar inni. Því fór þyrlan aftur í loftið og lenti í staðinn á gamla malarvellinum í bænum þar sem skyggnið var ákjósanlegra. 

TF-LIF lagði svo af stað frá Vestmannaeyjum með sjúklinginn um klukkan 17.40 og um hálftíma síðar lenti þyrlan á Reykjavíkurflugvelli. Þar beið sjúkrabíll sem flutti manninn á Landspítalann.