Ófært var til Eyja fram eftir degi vegna veðurs
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst fyrr í dag beiðni um aðstoð frá Heilbrigðisstofnuninni í Vestmannaeyjum vegna sjúklings sem þurfti að komast upp á land í aðgerð. Vegna veðurs var ófært til Eyja og því komst sjúkraflugvél frá Mýflugi ekki þangað.
Seinni partinn tók aðeins að lægja og komst TF-LÍF í loftið klukkan 16.34. Þyrlan lenti á Vestmannaeyjaflugvelli klukkan 17.16 og rétt rúmum stundarfjórðungi síðar hélt hún aftur af stað til Reykjavíkur.
TF-LÍF lenti á Reykjavíkurflugvelli nú á sjöunda tímanum, klukkan 18.05 nánar tiltekið. Sjúkrabíll flutti svo sjúklinginn á Landspítalann.