Í gær fann áhöfn vélarinnar um 300 manns á 17 bátum.
26.10.2018 Kl: 16:47
Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, flaug í byrjun mánaðar
til Malaga á Spáni til að sinna landamæraeftirliti á Miðjarðarhafi fyrir
Landamæra og strandgæslustofnun Evrópu, Frontex. Það má með sanni segja að
áhöfn vélarinnar hafi haft í nógu að snúast en það sem af er mánuði hefur vélin
fundið rúmlega 900 flóttamenn í eftirlitsflugum sínum. Það er svo í höndum spænskra yfirvalda að koma
flóttafólkinu í öruggt skjól og fara með málefni þess. Að auki eru bátarnir
færðir til hafnar og smyglararnir handteknir ef þeir finnast.
Gærdagurinn var óvenju annasamur hjá áhöfninni á TF-SIF en
þá fundust alls 17 bátar með um 300 manns innanborðs. Landhelgisgæslan er afar
stolt af því að vera hluti af þessu öfluga verkefni enda um mikilvægt
framlag Íslands til leitar- og björgunarstarfa á ytri landamærum Evrópu.
Jafnframt hafa verkefnin við Miðjarðarhaf sýnt hve öflug og vel búin TF-SIF er
til slíkra starfa við krefjandi aðstæður.
Samkvæmt Frontex komu þriðjungi færri flóttamenn til Evrópu
í september miðað við sama tíma í fyrra en komur flótta- og farandfólks til
Spánar hafa á sama tíma fjórfaldast.
Meðfylgjandi myndband er frá aðgerðum í gær.