Þungir rafgeymar fluttir með þyrlu í Málmey

Áhöfnin á Freyju og TF-EIR unnu að viðhaldi á vitanum í Málmey.

  • IMG_2150

21.8.2023 Kl: 9:53

Árlega fara áhafnir varðskipa Landhelgisgæslunnar í sérstaka vitatúra þar sem unnið er að viðhaldi á vitum víða um land í samstarfi við Vegagerðina. Áratugum saman hafa varðskip siglt meðfram ströndum landsins vegna eftirlits með ljósvitum, skerjavitum, sjómerkjum og ljósduflum sem ekki er hægt að komast í frá landi.

Áhöfnin á varðskipinu Freyju og starfsmenn Vegagerðarinnar fóru í maí í vitatúrinn þar sem þessu árlega viðhaldi var sinnt. Alltaf eru einhverjir vitar sem ekki tekst að klára í þessum sérstöku ferðum og kemur það þá í hlut áhafna varðskipanna að fara í þá vita sem út af standa.

Á fimmtudag var farið í vitann í Málmey í Skagafirði sem ekki var hægt að klára fyrr í sumar. Nauðsynlegt var að fá þyrlu til aðstoðar því flytja þurfti tvo þunga rafgeyma sem skipta þurfti um. Rafgeymarnir vógu um 270 kíló hvor. Þeim var lyft með þyrlunni frá varðskipinu yfir í Málmey og ónýtu rafgeymarnir fluttir aftur í Freyju. Þá fór einnig fram hefðbundið eftirlit á ljósbúnaði vitans.

Á föstudag var svo farið í vitann í Háey.

Á næstunni verður farið í vitana í Hrolllaugseyjum og Melrakkanesi.

Vitavinna með þyrlu

Image00006_1692613272148Varðskipið Freyja við Málmey. Mynd: Guðmundur St. Valdimarsson

Image00007_1692613272144Freyja í Skagafirði.