Þyrlan í eftirlisferð vegna lax- og silungsveiði

Afli og veiðarfæri gerð upptæk í eftirlitsflugi á laugardagskvöldið. 

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór síðastliðið laugardagskvöld í eftirlitsflug um norðan- og vestanvert landið. Tilgangur ferðarinnar var fyrst og fremst laxa- og silungaveiðieftirlit á þekktum stöðum. 

Í lögum nr. 61 frá árinu 2006 um lax- og silungsveiði er skýrt kveðið á um að ekki megi veiða lax í sjó og um göngusilung er sérstaklega tiltekið að hann skuli friðaður gegn allri veiði 84 klukkustundir í viku hverri og megi aldrei veiða í net frá klukkan 22:00 á föstudagskvöldi fram til klukkan 10:00 þriðjudagsmorgun.

TF-GNA fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli um klukkan hálfátta. Um borð voru auk áhafnar tveir veiðieftirlitsmenn frá Fiskistofu. Á fyrsta viðkomustaðnum norður í landi sáust úr þyrlunni mannaferðir í fjörunni og tvær línur út í sjó. Teknar voru afstöðumyndir þar sem sjá mátti fólk draga net. Þyrlunni var lent og fóru eftirlitsmennirnir og stýrimaður þyrlunnar til viðræðna við fólkið. Aflinn og veiðarfæri voru gerð upptæk. Fólkið á líklega yfir höfði sér kæru vegna ólöglegra veiða. 

Að þessu búnu hélt svo þyrlan áfram leið sinni. Voru fleiri staðir á Norðurlandi skoðaðir, svo og í Ísafjarðardjúpi, á Ströndum og við Breiðafjörð. Þyrlan lenti svo á Reykjavíkurflugvelli um klukkan hálfeitt.

Landhelgisgæslan og Fiskistofa, sem sinna eftirliti með lax- og silungsveiðum, hvetja fólk til að kynna sér vel þau lög og reglur sem gilda um þessar veiðar.