Þyrlan í rjúpnaveiðieftirliti

Afskipti voru höfð af fólki sem var að veiðum innan þjóðgarðsins á Þingvöllum

Skotveiðimenn um land allt hafa undanfarnar tvær helgar freistað þess að ná sér í rjúpu í jólamatinn og hafa veiðar gengið vel eftir því sem næst verður komist. Landhelgisgæslan hefur undanfarin ár aðstoðað lögreglu við eftirlit með veiðunum og um laugardaginn var farið í eina slíka eftirlitsferð um Suðurland. 

Auk áhafnar TF-GNA var með í för lögreglumaður frá lögreglunni á Suðurlandi. Fyrst var skimað eftir mannaferðum á Hellisheiði og nágrenni en á þessum slóðum eru skotveiðar bannaðar. Engir veiðimenn sáust á svæðinu og því allt eins og það átti að vera.

Á tólfta tímanum lenti þyrlan á Uxahryggjaleið norðan við Ármannsfell þar sem menn voru að tygja sig til veiða. Þeir voru með allt sitt á hreinu, lögleg skotvopn auk gildra skotvopnaskírteina og veiðikorta.

Sömu sögu var ekki að segja af fólki sem afskipti voru höfð af suður undir Botnsúlum, innan marka þjóðgarðsins á Þingvöllum þar sem allar skotveiðar eru bannaðar. Auk þess að vera á bannsvæði var skráningu skotvopna ábótavant og leyfismál í ólagi. Lögregla lagði því hald á byssurnar. 

20171104_121412

Síðar um daginn var svo flogið yfir Skjaldbreið, Hlöðufell og Biskupstungnafjöllin, allt norður að Bláfelli en ekkert bar þar til tíðinda. Þyrlan lenti svo á Reykjavíkurflugvelli á þriðja tímanum. 

Tryggvi Steinn Helgason, flugmaður TF-GNA, tók þessar fallegu myndir austan gönguleiðarinnar upp Leggjabrjót, rétt sunnan við Myrkavatn.