Þyrlur kallaðar út vegna slyss í Gullfossi

Tvær þyrlur LHG tóku þátt í leit af manni sem talið er að hafi fallið í fossinn

Tvær af þyrlum Landhelgisgæslunnar tóku í gær þátt í leit af manni sem talið er að hafi fallið í Gullfoss. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst laust fyrir klukkan fimm beiðni frá Neyðarlínu um þyrluaðstoð vegna málsins. TF-LIF fór í loftið klukkan 17:13 og var hún komin á vettvang rúmum tuttugu mínútum síðar. 

Ákveðið var að senda aðra þyrlu af stað með fjóra sérhæfða björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg ásamt búnaði. Fór TF-GNA í loftið klukkan 17.37. Báðar þyrlurnar flugu yfir fossinn og niður í gljúfrið með dyrnar opnar svo leitarmenn sæju sem best. Var flogið upp og niður með ánni í nokkur skipti. Þyrlurnar héldu til Reykjavíkur síðar um kvöldið til að taka eldsneyti. TF-GNA sneri svo aftur á vettvang og tók þátt í leitinni allt þar til tók að skyggja. Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli rétt upp úr miðnætti.


Mynd: Jóhannes Jóhannesson

Fyrr um daginn flaug TF-GNA norður á Hornstrandir til hefðbundins eftirlits meðfram ströndinni og æfinga. Þar greindu heimamenn frá því að deginum áður hefði erlendur ferðamaður ætla að ganga frá Aðalvík til Hesteyrar en ekki skilað sér. Ákveðið var að grennslast fyrir um konuna og fljúga yfir gönguleiðina. Þegar komið var til Hesteyrar upplýsti fólk þar að konan hefði fundist um hádegisbilið í neyðarskýli Aðalvík en þar hafði hún leitað skjóls vegna veðurs. 

Eftir eldsneytistöku á Ísafirði hélt svo þyrlan til Hólmavíkur að beiðni læknis hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands til að sækja aldraða konu sem hafði mjaðmargrindarbrotnað. TF-GNA lenti á Reykjavíkurflugvelli snemma á sjötta tímanum. Þar beið sjúkrabíll sem flutti konuna á spítala. 

TF-GNA hélt aftur til leitar við Gullfoss síðdegis í dag. Hún fór í loftið frá Reykjavík upp úr klukkan hálffjögur og flaug upp og niður með Hvítá nokkrum sinnum. 

Myndirnar sem fylgja þessari frétt tók Jóhannes Jóhannesson, flugmaður TF-GNA.


Mynd: Jóhannes Jóhannesson