Tundurduflinu eytt í Eyjafirði
Vel gekk að eyða Tundurduflinu sem kom í land í gær á Akureyri eftir að hafa komið í veiðarfæri fiskiskips.
8.1.2025 Kl: 14:05
Séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar eyddi tundurduflinu sem kom í land með fiskiskipi á Akureyri í gær. Duflinu var eytt í Eyjafirði um hádegisbil.
Tundurduflið var hátt í 150 kíló en því var komið fyrir á öruggu dýpi í Eyjafirði í gær eftir að hafa verið flutt af hafnarsvæðinu á Akureyri. Aðgerðir lögreglu og Landhelgisgæslunnar voru umfangsmiklar og loka þurfti hluta hafnarsvæðisins. Duflinu var komið fyrir á hafsbotni en ákveðið var að eyða því við birtingu.
Í morgun fór séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar með björgunarsveitinni Súlum að staðnum þar sem duflinu var komið fyrir í gærkvöld og undirbjó eyðingu þess. Kafað var að tundurduflinu og það svo sprengt laust fyrir klukkan eitt í dag.
Aðgerðin gekk afar vel og Landhelgisgæslan vill þakka lögreglu og björgunarsveitinni Súlum fyrir gott og árangursríkt samstarf.
Þá hvetur Landhelgisgæslan áhafnir skipa eða báta að hafa samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar ef þær verða varar við torkennilega hluti sem kunna að koma í veiðarfærin svo ganga megi úr skugga um að engin hætta sé til staðar.
Farið var með björgunarsveitinni súlum að staðnum.
Ásgeir Guðjónsson, sprengjusérfræðingur, kafaði að duflinu.
Frá aðgerðum björgunarsveitarinnar og Landhelgisgæslunnar.
Tundurduflið var hátt í 150 kíló.