Tvær þyrlur kallaðar út vegna veikinda og neyðarblyss

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hafði í nógu að snúast í gærkvöldi.

  • Hengifoss_bru_thyrla_agust22_0141

15.8.2022 Kl: 11:08

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út á ellefta tímanum í gær, annars vegar vegna bráðra veikinda um borð í skemmtiferðaskipi úti fyrir Eyjafirði og hins vegar vegna neyðarblyss sem sást yfir Blátindi í Vestmannaeyjum.

Seint í gærkvöldi hafði skipstjóri skemmtiferðaskipsins Aurora sem var þá statt um 25 sjómílur austnorðaustur af Grímsey samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vegna veikinda eins farþegans um borð í skipinu. Áhöfnin á TF-GNA var kölluð út til að koma farþeganum á sjúkrahús í landi en um svipað leyti barst stjórnstöðinni tilkynning um neyðarflugeld við Vestmannaeyjar.

Áhöfnin á TF-EIR var kölluð út á mesta forgangi ásamt Björgunarfélagi Vestmannaeyja. Áhöfnin á TF-GNA flaug því norður og áhöfn Eirar hélt til leitar við Vestmannaeyjar. Áhöfnin á TF-EIR hóf leitina við ströndina og klettana nálægt Blátindi og færði sig svo vestur ströndina eins og hún leggur sig. Eftir nokkra leit bárust upplýsingar um að blysinu hafi að öllum líkindum verið skotið af landi og var leitinni hætt í kjölfarið.

Rétt fyrir klukkan eitt í nótt var búið að hífa farþega skemmtiferðaskipsins um borð í TF-GNA og var haldið með hann á sjúkrahúsið á Akureyri.