Tvö þyrluútköll um helgina

Óhapp nærri Landmannalaugum og vinnuslys í Rangárþingi ytra

Þyrla Landhelgisgæslunnar sinnti tveimur útköllum um helgina. Um hádegisbilið á laugardag óskaði lögregla á Suðurlandi eftir því við stjórnstöð LHG að þyrlan færi til aðstoðar vegna konu sem slasaðist þegar hún hrasaði á Bláhnjúki nærri Landmannalaugum. Þegar beiðnin barst var TF-GNA að sinna verkefni á Vestfjörðum og því flaug hún beint þaðan á vettvanginn. Þar höfðu björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg búið vel um sjúklinginn og undirbúið hann fyrir flutninginn. Þrátt fyrir óhagstætt veður, þoku og rigningarsudda, gekk vel að  lenda undir Bláhnjúki. Þyrlan flutti svo konuna á Landspítalann í Fossvogi.

Á laugardagskvöldið var svo þyrlan kölluð út vegna vinnuslyss í Rangárþingi ytra. Þar hafði maður orðið undir stóru kefli og slasast illa. TF-GNA fór í loftið um sjöleytið og um hálftíma lenti hún við slysstaðinn þar sem sjúkraflutningamenn höfðu undirbúið sjúklinginn fyrir flutninginn. Á leiðinni til Reykjavíkur hlúðu læknir þyrlunnar og aðrir úr áhöfninni að honum og veitu nauðsynlega meðferð. Rétt upp úr klukkan átta lenti svo þyrlan við Landspítalann í Fossvogi.

Auk þessara útkalla sinntu þyrluáhafnir hefðbundnu eftirliti og þjálfun. Á sunnudag æfði áhöfn TF-LIF fjallabjörgun að Fjallabaki. Mikill fjöldi ferðafólks er á þessum slóðum um þetta leyti árs og þannig mátti sjá úr þyrlunni tugi gönguhópa á Laugaveginum, gönguleiðinni úr Landmannalaugum í Þórsmörk.