Varaforstjóri Frontex heimsækir Landhelgisgæsluna

Berndt Körner, varaforstjóri Frontex, Landamærastofnunar Evrópu heimsótti Landhelgisgæsluna í dag. Körner er staddur hér á landi og kynnti sér meðal annars starfsemi Landhelgisgæslunnar og ræddi þátttöku hennar í landamæraeftirliti og leit og björgun á Miðjarðarhafi.

Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar tók á móti Körner ásamt fulltrúum Landhelgisgæslunnar en með varaforstjóranum í för voru fulltrúar frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum en lögregluembættið er tengiliður Íslands við Frontex.

Berndt Körner ræddi meðal annars um hve mikilvægt og umfangsmikið framlag Íslands væri til landamæraeftirlits á ytri landamærum með þátttöku tækja Landhelgisgæslunnar en Landhelgisgæslan hefur allt frá árinu 2010 tekið þátt í landamæragæslu á vegum Frontex á Miðjarðarhafi og við Afríku með flugvél og varðskip. Á þeim tíma hafa áhafnir Landhelgisgæslunnar komið með einum eða öðrum hætti að björgun ríflega 14.000 einstaklinga.  

 
 Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar býður Berndt Körner velkominn.