Varðskipið Freyja kemur til Siglufjarðar í dag og áhöfnin skimuð af þyrlusveit
Freyja leggst að bryggju á Siglufirði í dag.
6.11.2021 Kl: 7:35
Fyrsta æfing þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar og
áhafnarinnar á varðskipinu Freyju fór fram í gær þegar skipið var austur af
landinu. Áhöfnin tók á móti sigmanni og lækni þyrlunnar á þilfari skipsins sem framkvæmdu PCR-próf á
áhöfninni fyrir komuna til Siglufjarðar. Samspil þyrlusveitar og áhafnar Freyju
gekk hratt og vel fyrir sig.
Varðskipið Freyja lagði af stað frá Rotterdam áleiðis til Íslands á þriðjudag. Skipið kom inn í efnahagslögsöguna um hádegi í gær og sigldi svo inn í íslenska landhelgi laust fyrir klukkan tíu í gærkvöld. Freyja mun leggjast að bryggju á Siglufirði klukkan 13:30 í dag í fylgd varðskipsins Týs, þyrlu Landhelgisgæslunnar og björgunarskipsins Sigurvins. Þá verður þremur púðurskotum skotið úr fallbyssu skipinu til heiðurs.
Forseti Íslands, dómsmálaráðherra, bæjarstjórinn í Fjallabyggð og forstjóri Landhelgisgæslunnar verða meðal þeirra sem taka á móti skipinu þegar það kemur til hafnar í dag.
Sigmaður Landhelgisgæslunnar kemur um borð í varðskipið Freyju.
Varðskipið Freyja.
Kolbeinn Guðmundsson, sigmaður og stýrimaður, tekur sýni af áhöfninni.
PCR próf voru framkvæmd á áhöfn Freyju.
Friðrik Höskuldsson, yfirstýrimaður, færir til bókar þegar Freyja siglir inn í íslenska landhelgi í gærkvöldi.
Um borð í TF-GNA.