Varðskipið Freyja verður gert út frá Siglufirði

Bindandi samkomulagi hefur verið komið á varðandi kaup á varðskipinu Freyju.

  • Freyja-teikning

21.9.2021 Kl: 16:20

Bindandi samkomulagi hefur verið komið á varðandi kaup á varðskipinu Freyju á milli United Offshore Support GmbH og Landhelgisgæslu Íslands. Ríkiskaup og Landhelgisgæsla Íslands efndu til útboðs fyrr á árinu og bárust fimm tilboð. Einungis tvö þeirra reyndust gild og var lægra tilboðinu tekið. Með kaupum á varðskipinu Freyju eykst björgunargeta Landhelgisgæslunnar á hafinu til muna en skipið er sérlega vel búið til björgunar- og löggæslustarfa.Skipið var smíðað árið 2010 og hefur undanfarin ár þjónustað olíuiðnaðinn.

Með tilkomu Freyju í flota Landhelgisgæslunnar mun Landhelgisgæslan hafa á að skipa tveimur afar öflugum varðskipum, sérútbúnum til að sinna löggæslu, leit og björgun á krefjandi hafsvæðum umhverfis Ísland. Varðskipið Freyja er að miklu leyti sambærilegt varðskipinu Þór hvað stærð og aðbúnað varðar en það býr til að mynda yfir mun meiri dráttar- og björgunargetu en Þór. Varðskipið Freyja verður 86 metra langt og 20 metra breitt. Skipið verður afhent í litum Landhelgisgæslunnar í október. Kaupverðið nemur rúmum 1,7 milljörðum króna.

Landhelgisgæslan og dómsmálaráðuneytið hafa í sameiningu tekið þá ákvörðun að heimahöfn varðskipsins Freyju verði Siglufjörður og njóti skipið þjónustu þar og á Akureyri eftir þörfum. Varðskipið Þór verður sem fyrr gert út frá Reykjavík. Þessari ráðstöfun er ætlað að tryggja öryggi sjófarenda, landsmanna og auðlinda í hafi á sem bestan máta. Með auknum skipaferðum um norðurslóðir fjölgar ferðum stórra flutninga- og olíuskipa með austur- og norðurströndum landsins. Útlit er fyrir að ferðum skemmtiferðaskipa fjölgi einnig og þarf ekki að fjölyrða um þær hættur sem lífríkinu er búin ef eitthvað hendir eitt af þessum skipum. Þá geta klukkustundir til eða frá skipt sköpum.

Með Þór í Reykjavík og Freyju á Siglufirði hefur viðbragðsgeta Landhelgisgæslunnar umhverfis landið verið aukin og hægara verður um vik að tryggja öryggi sjófarenda, landsmanna og auðlinda í hafi.