Varðskipið Þór aðstoðaði vélarvana fiskibát
Áhöfnin á Þór aðstoðaði fiskibát með bilaða vél undan mynni Hvalfjarðar.
2.11.2020 Kl: 22:18
Áhöfnin á varðskipinu Þór aðstoðaði fiskibát með bilaða vél undan mynni Hvalfjarðar síðdegis í dag. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst tilkynning um bátinn á fjórða tímanum en hann var þá staddur um fimm sjómílur suðsuðvestur af Akranesi.
Varðskipið Þór var í grenndinni og fór hluti áhafnar varðskipsins til móts við fiskibátinn á léttbát Þórs. Laust fyrir klukkan fimm var kastlínu komið frá varðskipinu yfir í fiskibátinn sem var dreginn áleiðis til Reykjavíkur.
Undan Engey var hafist handa við að stytta rólega í dráttartauginni og voru léttbátar varðskipsins sjósettir. Á sjöunda tímanum var dráttartaug sleppt úr fiskibátnum og sáu léttbátar Þórs um að draga fiskibátinn til hafnar.
Aðgerðin gekk afar vel fyrir sig og báðir léttbátar varðskipsins voru aftur komnir um borð í Þór um kvöldmatarleytið.
Áhöfnin á varðskipinu Þór sjósetur léttbát.
Varðskipið tók fiskibátinn í tog.
Léttbátar varðskipsins tóku við og fylgdu fiskibátnum síðasta spölinn til hafnar.
Ljósmyndir: Anton Örn og Guðmundur St. Valdimarsson.