Varðskipið Þór við eftirlit á loðnumiðum

Varðskipið Þór hefur verið við eftirlit undan Norðausturlandi undanfarna viku, meðal annars í tengslum við loðnuvertíðina. Landhelgisgæslan hefur það hlutverk að fara um borð í erlend loðnuveiðiskip sem eru á leið frá landinu til þess að landa erlendis. Í þeim tilvikum kannar Landhelgisgæslan afla þeirra og ber hann saman við aflaskeyti skipanna sem send eru til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu til að kanna hvort misræmi sé þar á milli.

Eins og staðan er í dag er einungis eitt íslenskt loðnuveiðiskip að veiðum, eitt grænlenskt, eitt færeyskt og tíu norsk en þrjú önnur norsk loðnuveiðiskip hafa tilkynnt komu sína. Lítið hefur verið um aflatilkynningar og meðal annars hafa norsku skipin ekki tilkynnt um neinn afla utan eitt sem landaði nokkrum tugum tonna um síðustu helgi.

Á meðan takmörkuð loðnuveiði hefur verið, hafa varðskipsmenn á Þór nýtt tímann til hefðbundins fiskveiðieftirlits undan Norðausturlandi.