Viðey RE-50 á heimleið

TF-SIF flaug yfir nýjasta skipið í íslenska fiskiskipaflotanum á Miðjarðarhafi

Flugvélin TF-SIF sinnir þessa dagana verkefnum í Miðjarðarhafi fyrir Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu, Frontex. Hún var í hefðbundinni eftirlitsferð á laugardaginn þegar hún flaug yfir Viðey R-50 og að sjálfsögðu smellti áhöfn flugvélarinnar af nokkrum myndum – og skipverjarnir gerðu raunar slíkt hið sama. 

DSC_0124_1512991955714

TF-SIF flaug yfir Viðeyna á Miðjarðarhafi

Átta eru í áhöfninni sem sér um að sigla skipinu heim og er Jóhannes E. Eiríksson skipstjóri. Skipverjarnir kváðust mjög ánægðir með nýja togarann og voru hressir á heimleiðinni.

Á vefsíðu HB Granda, sem gerir Viðeyna út, kemur fram að skipið sé það síðasta í röð þriggja nýrra ísfisktogara sem Celiktrans-skipasmíðastöðin í Istanbúl smíðaði fyrir félagið en áður voru uppsjávarskipið Venus NS og Víkingur AK smíðuð fyrir fyrirtækið í sömu stöð. Gert er ráð fyrir að Viðey komi heim skömmu fyrir jól og verður efnt til formlegrar móttöku í Reykjavíkurhöfn 22. desember af því tilefni.


Viðey tók sig vel út á Miðjarðarhafinu um helgina. 

Fyrr á þessu ári flaug TF-SIF yfir annan íslenskan togara á leið heim úr skipasmíðastöðinni í Tyrklandi, Kaldbak EA-1. Myndir sem teknar voru við það tækifæri vöktu talsverða athygli enda Kaldbakur, rétt eins og Viðey, hið glæsilegasta skip sem gleður augað.