Fréttayfirlit

Súrálsflutningaskipið Kiran Pacific náðist á flot í dag

Mánudagur 28. júní 2004. Súrálflutningaskipið Kiran Pacific sem strandaði á skeri 3.3 sjómílur norðvestur af Straumsvíkurhöfn sl. laugardagskvöld náðist á flot í dag. Að sögn Halldórs Nellett skipherra á varðskipinu Ægi losnaði Kiran Pacific af skerinu um kl. 14:20 en þá var háflóð og aðstæður því góðar.  Dælt hafði verið lofti inn í tanka skipsins og það var dráttarbáturinn Hamar frá Hafnarfirði sem dró það af skerinu.  Skipið liggur við akkeri út af Straumsvík og er verið að skoða hvort djúprista skipsins er of mikil til að sigla því inn í Straumsvíkurhöfn.  Ekki hefur orðið vart við olíuleka eða mengun frá skipinu. Sjá meðfylgjandi mynd sem áhöfnin á varðskipinu Ægi tók af skipinu á strandstað. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Mynd:  Rafn S. Sigurðsson háseti á varðskipinu Ægi. / Súrálsflutningaskipið Kiran Pacific.

Þjónustusamningur um vaktstöð siglinga undirritaður

Mánudagur 28. júní 2004. Þjónustusamningur um rekstur vaktstöðvar siglinga var undirritaður í dag við hátíðlega athöfn í Skógarhlíð 14.  Samkvæmt honum taka Landhelgisgæslan, Neyðarlínan og Slysavarnarfélagið Landsbjörg sameiginlega að sér að reka vaktstöð siglinga og er þjónustusamningurinn gerður við Siglingastofnun.  Dómsmálaráðherra og samgönguráðherra undirrituðu samninginn til staðfestingar. Eins og fram kemur í samningnum er markmið hans m.a. að tryggja öryggi siglinga í íslenskri efnahagslögsögu, öryggi skipa, farþega og áhafna og að bæta viðbrögð yfirvalda við atvikum, slysum eða hættum sem kunna að skapast á sjó, þ.m.t. leitar- og björgunarþjónustu.  Það er einnig markmið samningsins að samhæfa rekstur vaktstöðvarinnar annarri vaktþjónustu á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins með það fyrir augum að samlegðaráhrif leiði til hagræðingar sem m.a. má nýta til uppbyggingar tæknibúnaðar og endurnýjunar fjarskiptakerfa til að tryggja öryggi sjófarenda.   Landhelgisgæslan fer með faglega stjórn vaktstöðvarinnar.  Í því felst að stofnunin leggur til yfirmann vaktstöðvarinnar og starfsmenn stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar ganga þar vaktir sem faglegir stjórnendur. Landhelgisgæslan fer með yfirstjórn leitar- og björgunar á sjó og rekur stjórnstöð sína frá vaktstöðinni. Hún veitir stöðinni þannig hlutverk MRCC björgunaraðila á Íslandi. Landhelgisgæslan ákveður hvernig vaktstöðin er mönnuð frá degi til dags innan ramma sem stjórn vaktstöðvarinnar setur.  Landhelgisgæslan tilnefnir einn fulltrúa í stjórn vaktstöðvarinnar.   Neyðarlínan fer með fjármál vaktstöðvarinnar, húsnæðismál og annan rekstur. Þar á meðal leggur hún stöðinni til almenna starfsmenn og sér um að þörfum vaktstöðvarinnar fyrir fjarskiptaþjónustu og viðhald tæknivirkja sé fullnægt.  Í því sambandi tekur hún við, eftir nánara samkomulagi, starfsliði sjálfvirku tilkynningarskyldunnar  sem  verið hafa starfsmenn Slysavarnafélagsins Landsbjargar og einnig starfsmönnum strandstöðvaþjónustu Landssíma Íslands. Neyðarlínan tekur við fjárveitingum til rekstrar vaktstöðvarinnar  frá Siglingastofnun og dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Neyðarlínan tilnefnir einn fulltrúa í stjórn vaktstöðvarinnar.   Slysavarnafélagið Landsbjörg flytur með samningi þessum til vaktstöðvar siglinga alla þjónustu er tengist sjálfvirku tilkynningarskyldunni (STK) sem og þann búnað sem það hefur komið sér upp við rekstur hennar, þ.m.t. tölvuhugbúnað.  Starfsmenn Tilkynningarskyldunnar flytjast til Neyðarlínunnar, sem tekur við skyldum gagnvart starfsmönnum sem þeim flutningi fylgir. Slysavarnarfélagið Landsbjörg tilnefnir einn fulltrúa í stjórn vaktstöðvarinnar.   Siglingastofnun hefur eftirlit með framkvæmd samningsins og tilnefnir einn áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt í stjórn vaktstöðvarinnar. Landhelgisgæslan, Neyðarlínan og Slysavarnarfélagið Landsbjörg skipa sameiginlega stjórn vaktstöðvarinnar.  Hlutverk stjórnarinnar er að fjalla um mál er varða verklagsreglur vaktstöðvarinnar, þjálfun starfsmanna, gæðastýringu í rekstri, þróun verkefna, stefnumörkun og ágreiningsmál er upp kunna að koma í rekstrinum. Stjórnin skal einnig setja verklagsreglur um þátt vaktstöðvarinnar í viðbrögðum samhæfingarstöðvar leitar og björgunar í Skógarhlíð. Að jafnaði skulu ákvarðanir stjórnar vera teknar samhljóða. Dóms- og kirkjumálaráðherra, Björn Bjarnason sló á létta strengi í ræðu sem hann hélt af þessu tilefni en hún er birt í heild sinni á vef dómsmálaráðuneytisins.  Hann sagði m.a.: Vænn alþingismaður sagði einu sinni um flokksbróður sinn, sem hafist hafði til ráðherratignar, við kannski misjafnan orðstír, að ráðherrann væri seinn til allra ákvarðana, nema þeirra röngu. Slíkt verklag geta starfsmenn vaktstöðvarinnar ekki leyft sér. Þar geta rétt viðbrögð, skjót en þó fumlaus, skilið milli lífs og dauða sjófarandans sem treystir á vaktstöðina.Ég veit, að allir þeir sem að vaktstöðinni koma, vita vel af ábyrgð sinni og eru ráðnir í því að rísa undir henni. Það er okkur fagnaðar- og þakkarefni hversu vel hefur tekist til með alla skipulagningu vaktstöðvarinnar og það samkomulag sem náðst hefur. Ólíkir aðilar, hver um sig þrautreyndur á sínu sviði, Landhelgisgæslan, Neyðarlínan, og björgunarsveitirnar leggja hver um sig reynslu sína og færni til þessa starfs, og allir hafa kostað kapps um að útkoman verði þannig að sem bestur árangur geti náðst í hinu mikilvæga öryggisstarfi. Fyrir það færi ég þeim öllum þakkir mínar. Þegar svo mætir aðilar, sem svo vel hafa starfað, hver á sínu sviði, efna nú til samstarfs, af jafnræði og fullum heilindum, höfum öll fulla ástæðu til að gera okkur hinar bestu vonir. Ég óska ykkur öllum heilla í ykkar mikilvægu störfum og bið því blessunar. Samningurinn verður fljótlega birtur á heimasíðunni.  Sjá mynd sem Heimir Már Pétursson upplýsingafulltrúi Flugmálastjórnar tók þegar samningurinn var undirritaður og veitti Landhelgisgæslunni góðfúslegt leyfi til birtingar. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Súrálsflutningaskipið Kiran Pacific strandaði 3.3 sjómílur norðvestur af Straumsvíkurhöfn

Sunnudagur 27. júní 2004.   Tyrkneska súrálsflutningaskipið Kiran Pacific strandaði á skeri 3.3 sjómílur (6 km.) norðvestur af Straumsvíkurhöfn í gærkvöldi.  Alls er 21 maður um borð í skipinu, allir frá Tyrklandi. Skipið er talið nokkuð stöðugt á skerinu og því ekki óttast um að áhöfnin sé í hættu.  Varðskip kom  á vettvang í morgun og er áhöfn þess að kanna aðstæður og ástand skipsins.Kiran Pacific var að koma frá Bandaríkjunum með 45 þúsund tonn af súráli sem flytja átti til Straumsvíkur.  Í skipinu eru 456 rúmmetrar af svartolíu, 52 rúmmetrar af dísilolíu og 31 rúmmeter af smurolíu.  Skipið er 21968 brúttótonn og 193 metrar að lengd.  Talið er að 3 göt séu á sjótönkum framarlega í skipinu.  Ekki er vitað um göt á olíutönkum og ekki hefur orðið vart við mengun.  Skipið strandaði kl. 18 í gær og barst tilkynning frá Hafnarfjarðarhöfn um það til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar kl. 21.  Von er á fulltrúum frá útgerð skipsins, tryggingafélags þess og hollensks björgunarfyrirtækis seinna í dag.  Fulltrúar Landhelgisgæslunnar, Siglingastofnunar og Umhverfisstofnunar fylgjast grannt með framvindu mála og taka sameiginlega ákvörðun um aðgerðir.   Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Kafarar og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fjarlægja skotfæri úr flaki El Grillo

Fimmtudagur 24. júní 2004. Síðastliðna tvo daga hafa kafarar og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar ásamt áhöfn varðskips unnið að því að hreinsa skotfæri og önnur hættuleg sprengiefni úr flaki El Grillo á botni Seyðisfjarðar. Verkefnið hefur gengið vel fram að þessu. Rúmlega 500 skotfæri (20 mm. kúlur með sprengjuhleðslu) hafa fundist og er verið að undirbúa að fjarlægja þau og koma þeim til eyðingar. Að sögn Adrians King sprengjusérfræðings hjá Landhelgisgæslunni er markmiðið er að hreinsa aftari dekk skipsins þar sem fallbyssur og vélbyssur voru staðsettar. Skotfærin sem fundist hafa eru í mjög góðu ástandi. Þau voru á sínum tíma notuð í Oelikon loftvarnarbyssur en það voru fjórar slíkar á dekki El Grillo. Loftvarnarbyssurnar (vélbyssur) voru með 3.5 km. drægi og voru notaðar mikið í seinni heimsstyrjöldinni. Þær voru settar á flest bandarísk og bresk herskip, einnig vopnuð kaupskip eins og El Grillo. Eins og kunnugt er var El Grillo olíubirgðaskip bandamanna í seinni heimstyrjöldinni. Eftir árás þýskra orustuflugvéla á skipið í febrúar 1944 tóku Bretar ákvörðun um að sökkva því þrátt fyrir að enn væri mikið magn af olíu um borð. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Mynd: Kafari Landhelgisgæslunnar kemur upp úr sjónum eftir að hafa leitað að skotfærum í El Grillo. Mynd: Skotfæri úr El Grillo. 

Sjúkraflug í skoska togarann Norma Mary

Fimmtudagur 24. júní 2004.   Þyrla og flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-LIF og TF-SYN, flugu í dag 250 sjómílur út á haf til að sækja sjúkling um borð í skoska togarann Norma Mary.   Skipverjar á skoska togaranum Norma Mary höfðu samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar laust fyrir kl. sjö í gærkvöldi og óskuðu eftir ráðleggingum læknis vegna karlmanns um borð sem var með mikla brjóstverki.  Skipið var þá statt 450 sjómílur vestur af Íslandi.   Stjórnstöðin gaf samband við lækni í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar sem leiðbeindi skipverjum um meðferð og umönnun sjúklingsins.  Hann taldi nauðsynlegt að senda þyrlu til að sækja hann við fyrsta tækifæri.   Skipstjóri Norma Mary var beðinn um að halda þegar í átt til Reykjavíkur þar sem skipið var statt fyrir utan drægi þyrlunnar.  Sjúklingurinn var í stöðugu ástandi og var óskað eftir að stjórnstöð yrði látin vita um allar breytingar á líðan hans.   Þegar skipið var komið nógu nálægt landinu, kl. 12:30 í dag, fór TF-LIF í loftið. Nauðsynlegt var að koma við í Keflavík og taka eldsneyti til að fylla vélina fyrir svo langt flug.  Þaðan var haldið kl. 13:17.  Stuttu síðar fór Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, í loftið en henni var ætlað að fylgja þyrlunni af öryggisástæðum.   Þegar TF-LIF kom að skipinu kl. 15:11 var það statt 251 sjómílu vestur af Keflavík.  Það tók einungis um 10 mínútur að flytja sjúklinginn um borð í vélina og lenti hún kl. 18 við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli.  Þar beið sjúkrabíll sem flutti sjúklinginn á Landspítala Háskólasjúkrahús.  TF-SYN hafði lent á Reykjavíkurflugvelli hálftíma áður.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Sjúkur skipverji sóttur með þyrlu í portúgalskan togara á Reykjaneshrygg

Miðvikudagur 16. júní 2004.Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti í dag sjúkan skipverja af portúgalska togaranum Santa Isabel sem var við veiðar á Reykjaneshrygg.Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst símbréf frá björgunarstjórnstöðinni í Lissabon í Portúgal kl. 16:15 þar sem óskað var eftir að sjúklingur um borð í togaranum Santa Isabel yrði sóttur og fluttur á sjúkrahús.  Skipið var þá statt á djúpkarfaslóð á Reykjaneshrygg 238 sjómílur suðvestur af Reykjanesi.TF-LIF fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli kl. 16:46 og hélt til Keflavíkur þar sem nauðsynlegt reyndist að fylla þyrluna af eldsneyti fyrir svo langt flug. Af öryggisástæðum fylgdi flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, þyrlunni. TF-LIF fór frá Keflavíkurflugvelli kl. 17:07 og TF-SYN hélt frá Reykjavík kl. 17:20. Þyrlan var komin að skipinu kl. 19:02 og gekk vel að hífa sjúklinginn um borð.  Tíu mínútum síðar var haldið til baka til Reykjavíkur og lenti þyrlan við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 21:06.  Þá var TF-SYN nýlent við flugskýli Landhelgisgæslunnar.Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Sjúkraflug í togara á Reykjaneshrygg vegna hjartveiks sjómanns

Mánudagur 14. júní 2004.   Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF sótti í dag veikan mann um borð í togarann Venus HF-519 sem var við veiðar á Reykjaneshrygg og flutti hann til Reykjavíkur.   Um hálfellefuleytið fékk stjórnstöð Landhelgisgæslunnar upplýsingar um að skipverji á Venusi HF-519 væri veikur fyrir hjarta og nauðsynlegt væri að sækja hann með þyrlu.    Áhöfn stóru þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, var þegar kölluð út og sömuleiðis áhöfn flugvélar Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, en flugvélin fylgir þyrlunni til öryggis í lengri sjúkra- og björgunarflugum.   TF-LIF fór frá Reykjavíkurflugvelli kl. 11:40 og þurfti síðan að lenda í Keflavík til að taka eldsneyti.  Þaðan var haldið kl. 12:30.  Stuttu síðar fór TF-SYN í loftið frá Reykjavíkurflugvelli.   TF-LIF var komin að skipinu um kl. hálf þrjú og gekk vel að hífa sjúklinginn um borð.  Læknir í áhöfn þyrlunnar hafði þá verið í sambandi við áhöfn Venusar og leiðbeint við aðhlynningu hans.    Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 16:20 en flugvélin hafði lent skömmu áður.  Sjúkrabíll flutti skipverjann á Landspítala Háskólasjúkrahús.   Sjá meðfylgjandi myndir sem Friðrik Höskuldsson stýrimaður tók þegar TF-LIF var að athafna sig yfir togaranum.  Myndirnar eru teknar frá TF-SYN.  Einnig fylgir mynd af TF-SYN sem tekin var frá TF-LIF.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.          

Þáttaka Landhelgisgæslunnar í hátíðarhöldum á sjómannadaginn

Miðvikudagur 9. júní 2004. Landhelgisgæslan tók þátt í hátíðahöldum á sjómannadaginn með ýmsum hætti.  Um morguninn stóðu fulltrúar Landhelgisgæslunnar heiðursvörð við athöfn í Fossvogskirkjugarði við Minningaröldur sjómannadagsins.  Séra Jakob Ágúst Hjálmarsson fór með ritningarorð og bæn. Þar næst var sjómannaguðþjónusta í Dómkirkjunni þar sem Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands predikaði og minnst var drukknaðra sjómanna.  Séra Jakob þjónaði fyrir altari en Kristján Þ. Jónsson yfirmaður gæsluframkvæmda og Ásgrímur L. Ásgrímsson deildarstjóri hjá Landhelgisgæslunni lásu ritningarorð. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, heimsótti Norð-Austurland í tilefni dagsins.  Sýnd var björgun úr sjó á Þórshöfn, Raufarhöfn og Húsavík. Varðskipið Ægir lagðist að bryggju á Bolungarvík á sjómannadaginn og var bæjarbúum m.a. boðið upp á skemmtisiglingu.  Alls nýttu 284 manns sér það boð en það er rúmlega fjórðungur bæjarbúa.  Varðskipsmenn tóku einnig þátt í hátiðarhöldum bæjarins í tilefni dagsins, m.a. í kappróðri, koddaslag og tunnuhlaupi.  Varðskipið Týr og sjómælingabáturinn Baldur voru á Norðfirði á sjómannadaginn og tóku meðal annars þátt í siglingu um fjörðinn ásamt fleiri skipum.  Bæjarbúum var boðið upp á stutta ferð með varðskipinu og þáðu það alls 53 manns.  Á laugardeginum voru Halldór Gunnlaugsson skipherra á Tý og Thorben J. Lund yfirstýrimaður viðstaddir vígslu nýs björgunarskips Norðfirðinga en skipið hlaut nafnið Hafbjörg. Sjá meðfylgjandi myndir. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Mynd Sveinbjörg Guðmarsdóttir: Landhelgisgæslumenn standa heiðursvörð við Minningaröldur sjómannadagsins í Fossvogskirkjugarði. Mynd Sveinbjörg Guðmarsdóttir: Kristján Þ. Jónsson yfirmaður gæsluframkvæmda og Ásgrímur L. Ásgrímsson deildarstjóri lásu upp úr ritningunni við sjómannaguðþjónustu í Dómkirkjunni. Mynd Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á Ægi:  Varðskipið Ægir fánum prýtt við bryggju á Bolungarvík á sjómannadaginn. Mynd Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á Ægi: Lið Ægis í kappróðri - hægra megin á mynd.  Mynd LHG: Fjöldi skipa frá Norðfirði fór í siglingu um fjörðinn í tilefni dagsins.  Þar á meðal var varðskipið Týr og sjómælingabáturinn Baldur en áhafnir þeirra tóku þátt í hátíðarhöldunum á Norðfirði.  Myndin er tekin frá varðskipinu Tý.

Landhelgisgæslan skipuleggur fjölþjóðlega æfingu sprengjueyðingarsveita, Northern Challenge

Mánudagur 7. júní 2004. Landhelgisgæslan hefur undanfarin tvö ár skipulagt fjölþjóðlega æfingu sprengjueyðingarsveita hér á landi og hefur hún gengið undir heitinu ,,Northern Challenge” eða ,,Norræn áskorun”. Erlendir sprengjusérfræðingar sem hafa tekið þátt í æfingunni hafa verið ánægðir með þá fræðslu og þann árangur sem æfingarnar hafa skilað og verður æfingin haldin í þriðja sinn í ár, nánar tiltekið frá 30. ágúst – 3. september nk. Að þessu sinni mun æfingin snúast um að æfa viðbrögð við hryðjuverkasprengingum og skemmdarverkum. Þegar hafa sjö sveitir sprengjusérfræðinga frá Atlantshafsbandalaginu tilkynnt þáttöku.  Þær hafa meðferðis nýjustu tæki til sprengjueyðingar, þ.á.m. eitt af nýjustu vélmennum sem notuð eru í þessum tilgangi. Sumar þáttökusveitanna hafa nýlega starfað í Afganistan og Írak þar sem sprengjur hafa kostað marga saklausa borgara og sprengjusérfræðinga lífið. Æfingin verður haldin í samstarfi við utanríkisráðuneytið og Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli.  Sérstök áhersla verður lögð á það verkefni að tryggja hafnarsvæði gegn hugsanlegri vá sem stafar af sprengjum og hryðjuverkum.  Yfirmennn sprengjudeilda danska og norska sjóhersins munu sjá um þann þátt æfingarinnar. Sjá nýjar myndir á heimasíðunni af Adrian King og Jónasi Þorvaldssyni sprengjusérfræðingum hjá Landhelgisgæslunni er þeir voru við störf í Írak. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Fluttur með þyrlu eftir snjóbrettaslys á Snæfellsjökli

Sunnudagur 6. júní 2004.Í dag sótti þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, mann sem lent hafði í snjóbrettaslysi áSnæfellsjökli. Talið er að hann hafi orðið fyrir bakmeiðslum.Læknir á Ólafsvík hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 12:24 og óskaðieftir þyrlu í viðbragðsstöðu. Hann var sjálfur á leið á slysstað.Vegna meiðsla mannsins var ekki talið ráðlegt að flytja hann landleiðina á sjúkrahús. TF-LIF fór í loftið kl. 13:33 og var komin til Reykjavíkur með hinn slasaða kl. 14:35.Hann var fluttur á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Mannbjörg varð er fiskibáturinn Hrönn BA-70 sökk út af Vestfjörðum í morgun

Miðvikudagur 2. júní 2004.Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk upplýsingar kl. 7:21 í morgun um að gervihnettir næmu neyðarsendingar út af Vestfjörðum og skömmu síðar barst tilkynning frá flugvél um að heyrst hefði í neyðarsendi á svæðinu.  Það var síðan um kl. 7:41 að Tilkynningarskyldan hafði samband við stjórnstöðina og lét vita að fiskibáturinn Hrönn BA-70 væri dottinn út úr sjálfvirka tilkynningarskyldukerfinu.Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út og varðskip og skip á svæðinu látin vita.  Þegar þyrlan var að fara í loftið, kl. 8:26, var tilkynnt að fiskibáturinn Ríkey SH-405 hefði bjargað eina skipverjanum sem var um borð í Hrönn og að báturinn væri sokkinn.Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.