Framtíðarleiðtogar flughersins í heimsókn

Hópur úr Air War College og gestir af NATO-ráðstefnu heimsóttu Keflavíkurflugvöll

Venju samkvæmt hefur verið gestkvæmt á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Í gær kom þangað hópur nemenda og kennara úr Air War College, skóla sem bandaríski flugherinn rekur fyrir sína framtíðarleiðtoga. Hópurinn hefur verið á ferð um Þýskaland, Danmörku, Noreg og Ísland til að fræðast um varnar- og öryggismál í Evrópu og á Norður-Atlantshafi.

Hér á landi kynnti hópurinn sér framlag Íslands til Atlantshafsbandalagsins, samstarf Íslands og Bandaríkjanna á sviði varnar- og öryggismála og hvaða tækifæri eru til að efla þessa samvinnu, meðal annars á sviði viðbúnaðar og þjálfunar. Gestirnir skoðuðu meðal annars stjórnstöð íslenska loftvarnakerfisins og ýmis mannvirki á öryggissvæðinu.

Fyrr í vikunni heimsóttu þátttakendur á ráðstefnu Atlantshafsbandalagsins, sem haldin var í Reykjavík, öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli. Gestirnir kynntu sér starfsemina og skoðuðu mannvirkin á svæðinu. Á meðal gesta var Manfred Nielson, einn af æðstu yfirmönnum herafla Atlantshafsbandalagsins (Deputy Supreme Allied Commander Transformation).


Manfred Nielson hershöfðingi ásamt þeim Jóni B. Guðnasyni, yfirmanni LHG á Keflavíkurflugvelli, og Arnóri Sigurjónssyni skrifstofustjóra í utanríkisráðuneytinu. 

Landhelgisgæsla Íslands fer með framkvæmd varnartengdra verkefna hér á landi, samanber samning milli utanríkisráðherra og innanríkisráðherra. Varnarsamstarfið felur í sér samstarf við annars vegar Atlantshafsbandalagið, aðildarþjóðir bandalagsins, stofnanir bandalagsins og hins vegar Bandaríkin varðandi varnarsamstarfið sem byggir á varnarsamningnum.

  

Gestir af ráðstefnu Atlantshafsbandalagsins heimsóttu Keflavíkurflugvöll