Fréttayfirlit: apríl 2003

Fjörutíu og þrjú erlend skip að veiðum á úthafskarfamiðunum á Reykjaneshrygg

Föstudagur 25. apríl 2003. Landhelgisgæslan gerði í dag athugun á fjölda erlendra togara að úthafskarfaveiðum við lögsögumörkin á Reykjaneshrygg.  Alls voru 43 togarar að veiðum.  Þar af var 31 togari frá aðildarlöndum Norðuratlantshafs-fiskveiðinefndarinnar (NEAFC) eða 6 togarar frá Þýskalandi, 2 frá Spáni, 15 frá Rússlandi, 6 frá Noregi og 2 frá Færeyjum. Fleiri togarar voru á svæðinu frá löndum sem ekki eiga aðild að NEAFC eða svokallaðar utansamningsþjóðir (non contracting party).  Þar af var eitt skip frá Lettlandi, fimm frá Litháen, eitt frá Belize og fimm frá Dóminíska lýðveldinu.  Sjá nánari upplýsingar um NEAFC á vefsíðunni http://www.neafc.org/ Samkvæmt upplýsingum úr stjórnstöð Landhelgisgæslunnar er ekki vitað til þess að fiskiskip frá Dóminíska lýðveldinu hafi áður verið á úthafskarfamiðunum á Reykjaneshrygg.  Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

Línudans á lögsögumörkum Íslands

Miðvikudagur 16. apríl 2003. Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, fór í eftirlitsflug yfir úthafskarfamiðin á Reykjaneshrygg í dag.  Þar hefur erlendum skipum fjölgað talsvert frá því sl. föstudag er síðast var farið í eftirlitsflug yfir svæðið.  Í dag voru þar við veiðar alls 29 erlend skip og flest á línudansi á lögsögumörkum Íslands.  Þessu úthafsveiðisvæði er stjórnað af Norð-austur Atlantshafs fiskveiðinefndinni (NEAFC) en aðildarríki eru ásamt Íslendingum, Færeyingar, Grænlendingar, Norðmenn, Rússar, Pólverjar og Evrópusambandsþjóðirnar. Athygli vakti að af þeim 29 skipum sem voru við veiðar í dag voru 13 skip frá þjóðum sem ekki eiga aðild að fiskveiðinefndinni og taka þar af leiðandi enga ábyrgð á fiskveiðistjórnun á svæðinu.  M.a. voru þar skip frá Belise, Lettlandi, Litháen og Eistlandi. Fiskveiðinefndin hefur úthlutað þessum þjóðum 1200 tonna úthafskarfakvóta árlega en í fyrra fóru þau langt fram yfir þau mörk og er talið að þau hafi veitt alls 30.000 tonn. Nú sem stendur eru fjórir íslenskir togarar að veiðum á svæðinu en skv. samningum aðildarríkja Norðaustur Atlantshafsfiskveiðinefndinnar ber Íslendingum að senda eftirlitsskip þangað ef íslensk skip að veiðum verða fleiri en 10 talsins.  Íslendingar hafa heimild til að veiða alls 55 þúsund tonn af úthafskarfa á stjórnunarsvæði Fiskveiðinefndarinnar. Myndirnar tók Auðunn F. Kristinsson stýrimaður í flugdeild Landhelgisgæslunnar af erlendum karfaveiðiskipum 11. apríl sl. er farið var í eftirlitsflug yfir miðin á Reykjaneshrygg. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

Virk sprengja úr sprengjuvörpu fannst á fyrrum skotæfingasvæði Varnarliðsins

Mánudagur 14. apríl 2003.   Virka sprengjan sem fannst á Vogaheiði á Reykjanesi föstudaginn 11. apríl sl. var bandarísk M56 sprengja úr sprengjuvörpu og innihélt 1.75 kíló af TNT.    Samkvæmt upplýsingum sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar voru slíkar sprengjur gerðar til að springa í lofti eða með snertingu við hart yfirborð og var drægni þeirra allt að 850 metrar.  Slík vopn voru gjarnan notuð af bandarískum landgönguliðum á sjötta áratug síðustu aldar og á meðan Víetnamstríðið stóð yfir.  Vopn svipaðrar gerðar eru notuð enn þann dag í dag.    Varnarliðið notaði svæðið þar sem sprengjan fannst til skotæfinga frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar fram á miðjan sjötta áratug síðustu aldar og nær það yfir 15 ferkílómetra á milli Vogaheiði og Fagradalsfjalls.  Þar voru æfingar með mismunandi vopn, allt að 105 mm. sprengjukúlur.  Síðan svæðinu var lokað hefur Varnarliðið gert tilraunir til að hreinsa það.    Árið 1986 yfirborðsskoðaði og og hreinsaði Varnarliðið hluta svæðisins í samstarfi við sprengjudeild Landhelgisgæslunnar.  Þá fundust 600 virkar sprengjur.  Með stuðningi utanríkisráðuneytisins voru sett upp varúðarskilti en flest þeirra hafa því miður horfið og er mjög brýnt að endurnýja þau.   Síðan 1986 hefur sprengjudeild Landhelgisgæslunnar gert nokkrar rannsóknir á svæðinu og nýlega hófu sprengjusérfræðingar hreinsun við Snorrastaðatjarnir.  Sérstök tæki eru notuð við leit, bæði í jarðvegi og undir vatnsyfirborði tjarnanna.  Þetta ferli tekur tíma og þrátt fyrir að sprengjudeildin beiti bestu tækni og tækjum sem fáanleg eru til að leita og hreinsa svæðið er alltaf hætta á að virkar sprengjur leynist þar.   Mikilvægt er að setja upp skilti sem vara fólk við því að hættulegt er að snerta eða hreyfa við slíkum hlutum og vonir standa til að það verði gert fljótlega.   Sjá meðfylgjandi myndir af sprengjunni og gígnum sem myndaðist eftir að sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar höfðu eytt henni.     Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands      

Tvö sjúkraflug um helgina vegna slasaðra vélsleðamanna

Sunnudagur 13. apríl 2003. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, sótti í gær slasaðan mann sem hafði lent í vélsleðaslysi norður af Laugarvatni. Fór þyrlan í loftið kl. 16:12 og lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 17:15 þar sem sjúkrabifreið beið hins slasaða. Í morgun kl. 10:57 hafði Neyðarlínan samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vegna tveggja manna sem höfðu slasast á vélsleðum við Kirkjufellsvatn austan við Landmannalaugar.  Læknir á staðnum taldi að sækja þyrfti mennina með þyrlu þar sem erfitt væri að komast að þeim. Þeir voru ekki mikið slasaðir að mati læknisins.  TF-LÍF fór í loftið kl. 11:38 og kom aftur til Reykjavíkur  kl. 13:26.  Lent var á Reykjavíkurflugvelli þar sem sjúkrabifreið beið slösuðu vélsleðamannanna. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Forsætisráðherra Dana á ferð í TF-LÍF

Föstudagur 11. apríl 2003.   Áhöfn TF-LÍF flutti Anders Fogh Rasmussen og eiginkonu hans Anne-Mette Rasmussen til Vestmannaeyja í gær en hann var hér á landi í opinberri heimsókn.  Eftir Vestmannaeyjaferðina var fyrirhugað að fljúga til Þingvalla þar sem Davíð Oddsson forsætisráðherra hafði boðið þeim hjónum ásamt fylgdarliði til kvöldverðar.  Vegna þoku var ekki hægt að fljúga þangað.  Það fór því svo að lenda varð þyrlunni á Kjósarskarðsvegi á Mosfellsheiði en þangað kom rúta og sótti ráðherrann og fylgdarlið. Sjá meðfylgjandi myndir úr ferðinni.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands   Mynd: Landhelgisgæslan/Magnús Örn Einarsson stýrim./ Anders Fogh Rasmussen ásamt Þorsteini Pálssyni sendiherra Íslands í Danmörku.   Mynd: Landhelgisgæslan/Magnús Örn Einarsson stýrim./Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri Landhelgisgæslunnar, Þorsteinn Pálsson sendiherra, Anders Fogh Rasmussen og frú á tali við Björn Brekkan flugmann og danska sendiherrann á Íslandi, Flemming Mörch.   Mynd: Landhelgisgæslan/Magnús Örn Einarsson stýrim. Beðið eftir rútunni á Kjósarskarðsvegi.   Mynd: Landhelgisgæslan/Magnús Örn Einarsson stýrim. 

Vorboðarnir á miðunum

Föstudagur 11. apríl 2003. Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SYN fór í dag í eftirlitsflug út að 200. sml. lögsögumörkunum á Reykjaneshrygg.  Þrettán erlendir togarar voru þar að karfaveiðum. Það má því segja að vorboðarnir, karfaveiðiskipin, séu komnir.  Sjá meðfylgjandi myndir sem Auðunn F. Kristinsson stýrimaður í flugdeild Landhelgisgæslunnar tók í dag. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands      

Skipverji af norska selveiðiskipinu Polarfangst sóttur með þyrlu í nótt

Fimmtudagur 10. apríl 2003.Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LIF sótti fótbrotinn sjómann af norsku selveiðiskipi um borð í varðskip Landhelgisgæslunnar í nótt.  Sjómaðurinn er úr áhöfn norska selveiðiskipsins Polarfangst sem aðstoðaði samlanda sína á selveiðiskipinu Polarsyssel í gær við að komast út úr ís áður en varðskip kom á staðinn. Er varðskipið hafði tekið Polarsyssel í tog, hóf Polarfangst selveiðar að nýju og varð slysið er skipverjinn datt milli ísjaka. Um kl. 17:15 bárust þær upplýsingar frá varðskipinu að skipstjóri Polarfangst hefði óskað eftir aðstoð varðskipsins vegna skipverja sem hafði fótbrotnað. Þá var verið að undirbúa að taka skipverjann um borð í varðskipið.Eftir að skipverjinn var kominn um borð í varðskipið var læknir í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar í sambandi við áhöfn þess.  Þegar í ljós kom að nauðsynlegt var að sækja hinn slasaða með þyrlu var áhöfn TF-LÍF kölluð út.  Þyrlan fór í loftið kl. 21:19.  Þá var u.þ.b. 260 sjómílna leið að varðskipinu og varð þyrlan að lenda á Rifi til að taka eldsneyti áður en flogið var út á haf.Varðskipið hélt áfram ferð sinni til Íslands með Polarsyssel í drætti og hinn slasaða um borð. TF-LÍF lenti á Rifi kl. 21:45 og hélt aftur af stað í átt til varðskipsins kl. 22:20.  Það var svo kl. 24 ámiðnætti sem búið var að hífa hinn slasaða um borð í þyrluna.TF-LÍF lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 02:26 þar sem norska skipverjanum var komið undir læknis hendur.Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Kaldastríðstól rak á fjörur við Skjálfandafljótsós

Fimmtudagur 10. apríl 2003.   Í síðustu viku fékk sprengjudeild Landhelgisgæslunnar tilkynningu frá lögreglunni á Húsavík um að grunsamlegur hlutur hefði fundist í fjörunni vestan við Skjálfandafljótsós.  Hluturinn reyndist vera hlustunardufl frá fyrrum Sovétríkjunum.  Það var 3.2 metrar að lengd, 76 cm. í þvermál og 1200 kg. að þyngd.  Það er hluti úr keðju slíkra dufla sem notuð voru af Rússum til að nema hljóð frá kafbátum og skipum sem nálguðust strendur þeirra á kaldastríðsárunum.    Duflið  hefur líklega slitnað frá festingum sínum og hefur verið á reki mánuðum saman áður en það rak á fjöruna við Skjálfandafljótsós.  Það er ekki hættulegt að öðru leyti en því að það getur skapað siglingahættu fyrir minni skip og báta.   Fjölda slíkra dufla hefur áður rekið á fjörur hér á landi og þar á meðal á svipuðum slóðum t.d. á Tjörnesi fyrir tveimur árum.  Á síðustu 30 árum hafa slík dufl rekið á fjörur um allt land.   Þó svo að hlustunarduflið sem fannst við Skjálfandafljótsós sé einungis hættulegt vegna stærðar og þyngdar sinnar þá eru margir hlutir sem reka á fjörur stórhættulegir og má þar nefna tundurdufl, djúpsprengjur og jafnvel tundurskeyti ásamt fjölda annarra smærri hluta sem eru ekki síður hættulegir.  Þeir sem finna slíka hluti verða að hafa í huga að þeim er beinlínis ætlað að valda tjóni.    Ýmsir hlutir hafa þó ekki verið framleiddir með það í huga að valda hættu eða tjóni en innihalda samt sem áður sprengiefni sem notað er til að sökkva þeim þegar þeir hafa gegnt sínu hlutverki. Því má segja að ef slíkir hlutir finnast í fjöru og ef slíkur búnaður er í þeim, þá hefur hann af einhverjum orsökum ekki virkað.  Hvað þarf til að framkalla virkni er útilokað að segja en það gæti þess vegna verið næsta hreyfing á hlutnum.  Varast ber að snerta eða koma nálægt slíkum hlutum og nauðsynlegt er að tilkynna Landhelgisgæslunni eða lögreglu strax um fund á þeim og gefa eins greinargóðar upplýsingar um staðsetningu og útlit þeirra og unnt er.   Nánari upplýsingar um hættulega hluti er að finna á heimasíðu Landhelgisgæslunnar í dálkinum fræðsla/stríðstól.     Mynd: Lögreglan á Húsavík / Rússneskt hlustunardufl frá kaldastríðsárunum.

Myndir frá björgun Polarsyssel

Fimmtudagur 10. apríl 2003. Meðfylgjandi myndir voru að berast frá varðskipinu sem kom til bjargar norska selveiðiskipinu Polarfangst í gær.  Á fyrri myndinni má sjá þegar varðskipið tók Polarsyssel í tog við ísröndina, 36 sjómílur undan strönd Grænlands. Á seinni myndinni má sjá þegar varðskipsmenn fóru á léttbát með dælur yfir í Polarsyssel.  Skipið sem er nær er norska selveiðiskipið Polarfangst en TF-LÍF sótti fótbrotinn skipverja úr áhöfn þess um borð í varðskipið í nótt. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Varðskip á heimleið með Polarsyssel í drætti

Miðvikudagur 9. apríl 2003.    Varðskip er nú  á heimleið með norska selveiðiskipið Polarsyssel í drætti.    Er varðskipið kom á staðinn um kl. 14:30 hafði norska selveiðiskipinu Polarfangst tekist að draga Polarsyssel út úr ísnum.  Þá var hafist handa við að koma dælum frá varðskipinu um borð í Polarsyssel en Polarfangst tók olíu úr Polarsyssel og hélt strax af stað til veiða.      Um kl. 16 hafði varðskipsmönnum tekist að koma dælum um borð í Polarsyssel og höfðu þær vel undan lekanum.  Stuttu síðar var línu skotið yfir í Polarsyssel og var haldið af stað heim á leið kl. 16:30.       Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi  Landhelgisgæslu Íslands

Fundur um öryggismál sjómanna verður haldinn í Ólafsvík 15. apríl nk.

Miðvikudagur 9. apríl 2003. Eins og fram hefur komið á vefsíðu Landhelgisgæslunnar standa nokkrar stofnanir, ráðuneyti og félög fyrir málfundum um öryggismál sjómanna víða um land á þessu ári í tengslum við langtímaáætlun í öryggismálum sjómanna.  Fyrsti fundurinn var haldinn í Grindavík 31. mars sl. Næsti fundur verður haldinn í húsnæði björgunarsveitarinnar Sæbjargar í Ólafsvík þriðjudaginn 15. apríl nk.  Fundarstjóri verður Ásbjörn Óttarsson sjómaður.  Sjómenn, útgerðarmenn og aðrir sem láta sig varða öryggismál sjómanna eru hvattir til að mæta á fundinn. Sigurður Steinar Ketilsson yfirmaður gæsluframkvæmda flytur erindi fyrir hönd Landhelgisgæslunnar um framtíðarsýn stofnunarinnar varðandi fyrirkomulag leitar- og björgunarþjónustu við sjófarendur. Sjá dagskrá fundarins. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Varðskip Landhelgisgæslunnar á leið til bjargar norsku selveiðiskipi

Þriðjudagur 8. apríl 2003.   Varðskip Landhelgisgæslunnar er nú á leið til bjargar norska selveiðiskipinu Polarsyssel sem er fast í ís 160 sjómílur vestnorðvestur af Ísafjarðardjúpi.  Mikill leki er kominn að skipinu en dælur hafa undan.   Tillkynning barst frá loftskeytastöðinni í Reykjavík kl. 14:26 um að leki væri kominn að norska selveiðiskipinu Polarsyssel sem statt er tæpar 160 sjómílur vestnorðvestur af Ísafjarðardjúpi.  Skipið var þá fast í ís og óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar.  Annað norskt selveiðiskip, Polarfangst, var statt skammt undan.  Um borð í Polarsyssel er 15 manna áhöfn.  Loftskeytastöðin í Reykjavík sendi út tilkynningu til nærstaddra skipa um að aðstoðar væri þörf.    Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafði strax samband við skipstjóra Polarfangst sem var með dælur tilbúnar og gerði ráð fyrir að vera hjá Polarsyssel 25 mínútum síðar.  Taldi hann eftir samtal við skipstjóra Polarsyssel að um mikinn leka væri að ræða.    Um kl. 15:45 var skipið Polarfangst komið að Polarsyssel.  Dælur Polarsyssel ásamt aukadælum úr Polarfangst virtust þá hafa undan lekanum. Talið var að skipið ætti 500 metra ófarna af þykkum ís þar til komið væri á frían sjó.  Ætlaði áhöfn Polarfangst að gera tilraun til að draga Polarsyssel út úr ísnum.    Samkvæmt upplýsingum frá Polarsyssel kl. 17:50 er aftanverður skrokkur skipsins talsvert skemmdur.  Stýri er fast í bakborða og leki eykst verulega þegar skrúfu er kúplað inn.  Dælur ráða við lekann á meðan skrúfa snýst ekki.  Ekki er mikill sjór í aðalvélarrúmi og því virka dælur og rafalar.  Eins og staðan er nú telur áhöfn Polarsyssel sig ekki í verulegri hættu stadda og ætlar að vera áfram um borð.   Polarfangst á í vandræðum með aðalvél og getur því ekki aðstoðað Polarsyssel út úr ísnum.  Varðskip Landhelgisgæslunnar er á leið á staðinn og er reiknað með að það komi að Polarsyssel um þrjúleytið á morgun.  Verið er að kanna hvort önnur skip séu á svæðinu sem geti komið fyrr til bjargar.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands

Samræmdur gagnagrunnur um dýpi í lögsögu Íslands

Mánudagur 7. apríl 2003.   Dr. Guðrún Pétursdóttir forstöðumaður Sjávarútvegsstofnunar sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu sl. föstudag í tilefni þess að fréttamönnum var boðið til kynningar á samræmdum gagnagrunni um dýpi í lögsögu Íslands:   Að verkefninu standa Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands, Landhelgisgæsla Íslands og Radíómiðun ehf, en verkefnið hefur hlotið myndarlega styrki frá Rannís undanfarin 2 ár.   Um er að ræða að koma öllum upplýsingum, innlendum og erlendum, sem til eru um dýpi á Íslandsmiðum í einn tölvutækan gagnagrunn, samkeyra grunnana og sannreyna gæði gagnanna með samanburði. Þannig má nýta mun betur upplýsingar sem ýmsir aðilar hafa safnað til mismunandi nota, en hafa til þessa ekki nýst sjófarendum beint. Meðal þeirra eru opinberar mælingastofnanir af ýmsu tagi, en einnig skipstjórar á fiskiskipum sem samþykkt hafa að leggja dýpisgögn í grunninn og Síminn sem safnað hefur upplýsingum í tengslum við lagningu sæstrengja.   Ætlunin er ekki að standa að nýjum mælingum eða búa til vísindalega hárnákvæmar upplýsingar, þetta kemur því ekki í stað þess starfs sem unnið er hjá sjómælingasviði Landhelgisgæslu Íslands eða öðrum rannsóknaraðilum.  Heldur er verið að safna í einn grunn þeim gögnum sem til eru og gera þau aðgengileg og notendavæn fyrir sjófarendur, útgerðir, skipstjóra, fiskimenn, rannsóknarmenn og aðra þá sem þurfa á upplýsingum um hafdýpi að halda. Sérstök áhersla er lögð á að safna og tölvutaka upplýsingar um festur og flök, sem verið geta til trafala og skaðað veiðarfæri.   Staddur er hér á landi sérfræðingur, Mr. Pierre Gareau, frá hugbúnaðarfyrirtækinu Helical Systems í Kanada. Hann er að kenna starfsmönnum verkefnisins að nota Helical hugbúnað, sem er sérstaklega hannaður til að vinna með gífurlegt magn upplýsinga úr mismunandi grunnum. Hægt er að halda utan gögn úr hverjum grunni, sía út óeðlilegar mælingar, bera saman gögnin og sýna útkomuna í þrívídd frá öllum hliðum.   Nánari upplýsingar- Bakgrunnur   Upplýsingar um landgrunn Íslands er að finna á ýmsum stöðum hérlendis og erlendis, einkum hjá opinberum stofnunum, fyrst og fremst Landhelgisgæslu Íslands en einnig hjá Orkustofnun og Hafrannsóknastofnuninni, svo og hjá fyrirtækjum sem sérstaklega hafa safnað slíkum gögnum, eins og Radíómiðun ehf. Erlendir gagnagrunnar búa yfir miklum upplýsingum um hafsbotninn við Ísland, s.s. the General Bathymetric Chart of the Oceans í Mónakó, the National Geophysical Data Center ofl.     Framgangsmáti verkefnisins hefur verið:   1. Komist var að því hvar upplýsingar um íslenska landgrunnið er að finna, á hvaða formi og hvers eðlis þær eru á hverjum stað. 2. Lagðar hafa verið í einn gagnagrunn tölvutækar upplýsingar um hafdýpi sem eru í fórum umsækjenda (en það eru stærstu gagnasöfn um dýpi sem til eru hér á landi) og samið hefur verið eftir þörfum við aðra aðila um leyfi til að bæta þeirra upplýsingum við. 3.  Samhæfð voru gögn úr mismunandi grunnum m.t.t. mæliaðferða og gæða. 4.  Nú er verið að samkeyra og sannreyna gögnin með því að bera þau saman innbyrðis. 5.  Safnað hefur verið og bætt við grunninn upplýsingum um skipsflök og festur. 6.  Gengið verður frá aðgengilegum og notendavænum grunni, þar sem menn geta sótt upplýsingar um landgrunnið og unnið þær áfram eftir þörfum hvers og eins.   Hvað er nýnæmið?   Nýnæmið er í því fólgið að búinn hefur verið til gagnagrunnur, þar sem samankomnar eru á einum stað upplýsingar sem áður voru dreifðar í ýmsum gagnasöfnum. Þetta er því samnýting þekkingarauðlindar.   Með því að sameina og samræma landgrunnsupplýsingar frá  mismunandi innlendum aðilum s.s Landhelgisgæslunni, Siglingastofnun, Radíómiðun h.f., Orkustofnun, Hafrannsóknastofnuninni, Háskóla Íslands, ofl.) og mörgum erlendum aðilum verður til mjög öflugur gagnagrunnur sem nýta má í ýmsum tilgangi.   Meginávinningurinn liggur í því að nýta sameiginlega þau gögn sem nú eru dreifð, - með sameiningu vex styrkur þeirra margfalt. Þau verða sannreynd með samanburði, einn grunnur býr yfir upplýsingum sem annan vantar, fyllt verður upp í gloppur og göt og komist að því um hvaða svæði vantar enn upplýsingar, þegar þessi sameinaði grunnur er tilbúinn.  Þetta er skynsamlegt að kanna nú, í ljósi þess að nýja hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson er búið "multi-beam" skanna, sem ætlunin er að nýta m.a. til að kortleggja landslag á hafsbotni. Töluverðar upplýsingar eru til um staðsetningu skipsflaka og annarra "festa" á hafsbotni við Íslandsstrendur. Landhelgisgæslan er að safna slíkum upplýsingum og sannreyna staðsetningu margra skipsflaka. Þá hefur Radiomiðun ehf safnað upplýsingum um festur og flök frá skipstjórum sem hafa MaxSea skipstjórnarbúnað. Svona fyrirbrigði á hafsbotni koma ekki fram á hefðbundnum sjókortum sem gerð eru með dýptarmælingum. Flök og festur geta stórskaðað veiðarfæri og valdið miklu fjárhagstjóni. Það er því mikill ávinningur fólginn í því að safna og gera aðgengilegar upplýsingar um staðsetningu þeirra.   Í ljósi þessa má færa  rök fyrir því að ávinningur verði allt í senn þekkingarlegur, hagrænn og umhverfislegur. Þekkingarlegur því sameinuð vitneskja margra er sterkari en sundruð þekkingarbrot; Umhverfislegur því kortlagning hafsbotnsins er mikilvægur þáttur í að skilja samspil landslags og lífríkis, og getur stuðlað að betri nýtingu auðlinda hafsins; og Fjárhagslegur því betri þekking á náttúrulegum aðstæðum neðansjávar getur stuðlað að  markvissari vinnubrögðum við veiðar, sem getur sparað tíma og eldsneyti og bætt beitingu veiðarfæra. Loks getur vitneskja um flök og festur komið í veg fyrir kostnaðarsaman skaða á veiðarfærum.  

Samstarf um leitar- og björgunarmiðstöð

Mánudagur 7. apríl 2003. Landhelgisgæsla Íslands, Flugmálastjórn Íslands, Ríkislögreglustjórinn, Siglingastofnun Íslands, Slysavarnarfélagið Landsbjörg og Neyðarlínan hf. gerðu með sér samstarfssamning í dag um starfrækslu sameiginlegrar leitar- og björgunarmiðstöðvar sem staðsett verður í Skógarhlíð 14 í Reykjavík.  Með samningnum eru hlutverk aðila í björgunarmálum skilgreind.  Leitar- og björgunarmiðstöðin skal virkjuð þegar sá aðili, sem hefur forræði viðkomandi málaflokks, telur nauðsyn á samhæfingu aðgerða.  Samningurinn tekur gildi 31. maí næstkomandi en fyrirvari er gerður um þáttöku aðila vegna fjármögnunar á rekstrar- og stofnkostnaði.  Sjá samninginn í heild neðst á forsíðu heimasíðunnar. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands