Fréttayfirlit: janúar 2006

Sjórinn iðar af hval út af Vopnafirði - vísbending um loðnu

Mánudagur 30. janúar 2006 Sýn, flugvél Landhelgisgæslunnar, fór í eftirlitsflug yfir austur- og norðausturmið í dag. Er vélin var um 75 sjómílur austur af mynni Vopnafjarðar varð áhöfnin vör við að sjórinniðaði af hval á stóru svæði.  Skiptust hvalirnir í tvo stóra hópa.  Í fyrstu, er hvalirnirbirtust á ratsjá í um 5-10 sjómílna fjarlægð, taldi áhöfnin að um skip væri að ræða en svokom í ljós að þetta voru hvalir. Það er vísbending um að loðna sé á svæðinu þegar svo margir hvalir sjást samankomnir. Þessum upplýsingum var komið til rannsóknarskips Hafrannsóknastofnunar, ÁrnaFriðrikssonar, sem er við loðnuleit á Austfjarðamiðum. Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur/upplýsingaftr. 

Höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar flytjast í Skógarhlíð 14 í Reykjavík

Föstudagur 20. janúar 2006.Starfsmenn Landhelgisgæslunnar, sem hafa verið til húsa að Seljavegi 32 í Reykjavík, eru nú að koma sér fyrir í nýju húsnæði höfuðstöðva Landhelgisgæslunnar í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð í Skógarhlíð 14 í Reykjavík.  Það er starfsfólk skrifstofu Landhelgisgæslunnar og sjómælingasviðs.Flutningarnir klárast að mestu leyti nú um helgina og verður Landhelgisgæslan formlega flutt í Skógarhlíð 14 næstkomandi mánudag, 23. janúar.  Reyndar verður einhver bið enn á að lager og hluti af starfsemi sprengjudeildar fái húsnæði í Skógarhlíðinni.Í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð eru einnig til húsa Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, fjarskiptamiðstöð og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Neyðarlínan,Tölvumiðstöð dómsmálaráðuneytisins og fleiri.  Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar flutti á síðasta ári inn í vaktstöð siglinga sem staðsett er í húsinu og sér Landhelgisgæslan um faglega stjórnun stöðvarinnar. Þórarinn Ingi Ingason þyrluflugmaður tók meðfylgjandi myndir er björgunarþyrlan Líf flaug yfir Skógarhlíðina í dag.  Skrifstofuhúsnæði Landhelgisgæslunnar var byggt ofan á húsið lengst til hægri við aðalinnganginn og er því um alveg nýtt húsnæði að ræða. Einnig fylgir mynd af húsnæði Landhelgisgæslunnar að Seljavegi 32 sem Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður tók en Landhelgisgæslan hefur verið með höfuðstöðvar sínar þar síðan árið 1952 þegar Landhelgisgæslan var gerð að sjálfstæðri stofnun og Pétur Sigurðsson tók við forstjórastarfinu.  Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.Hérna sést nýja húsnæði Landhelgisgæslunnar við hornið á Skógarhlíð og Bústaðavegi.  Mynd ÞII. Mynd ÞII. Seljavegur 32. Mynd JPÁ., Á þessu korti sýnir örin leiðina frá Seljavegi að Skógarhlíð þar sem höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar eru nú til húsa.

Björgunarþyrlan Líf flutti veikan sjómann til Reykjavíkur

Fimmtudagur 19. janúar 2006.Læknir á Ólafsvík hafði samband við vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í gegnum Neyðarlínuna kl. 16:27 og óskaði eftir aðstoð vegna veiks skipverja um borð í bát sem staddur var 25 sjómílur vestur af Snæfellsnesi eða í um 2 og ½ tíma siglingu frá Ólafsvík.  Honum var gefið samband við lækni í áhöfn björgunarþyrlunnar Lífar og óskaði læknirinn á Ólafsvík eftir þyrlu til að sækja skipverjann í samráði við hann.  Líf fór frá Reykjavík kl. 16:49 og var búið að ná sjómanninum um borð í Líf kl. 17:54.  Þyrlan lenti síðan við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli kl. 18:22 og þaðan var veiki sjómaðurinn fluttur með sjúkrabíl á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut. Sjá meðfylgjandi mynd sem Þórarinn Ingi Ingason þyrluflugmaður tók í sjúkrafluginu.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Símkerfi Landhelgisgæslunnar komið í lag

Þriðjudagur 17. janúar 2006.Eins og fram kom í fréttatilkynningu í gær varð Landhelgisgæslan að mestu símasambandslaus seinnipart dagsins þar sem símastrengur inn á aðalskrifstofur á Seljavegi 32 slitnaði við vegaframkvæmdir í Holtsgötu. Strax var hafist handa við viðgerð og tókst að koma á símasambandi kl. 5 í morgun.Engin hætta var á ferðum þrátt fyrir sambandsleysið því Landhelgisgæslan var með aukanúmer virk sem Neyðarlínan og aðrir viðbragðsaðilar höfðu upplýsingar um auk þess sem samband við skip úti á sjó fara að mestu leyti fram með öðrum fjarskiptum.  Að sjálfsögðu var þó mjög bagalegt að þetta skyldi koma fyrir enda var ekki hægt að ná sambandi við skrifstofur Landhelgisgæslunnar.Við boðun þyrluáhafnar er notað tvöfalt útkallskerfi, annars vegar fjarskiptakerfi neyðar- og viðbragðsaðila (TETRA-kerfið sem einnig er notað af lögreglu, slökkviliði og fl.) sem nýverið var tekið í notkun og hins vegar boðun í farsíma. Áður en TETRA-kerfið var tekið í notkun var Landhelgisgæslan með eigið útkallskerfi á höfuðborgarsvæðinu en ákveðið var að taka upp þetta nýja kerfi til samræmingar við aðra viðbragðsaðila. Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Líf flutti slasaðan mann frá Blönduósi til Reykjavíkur eftir bílslys við Húnaver

Þriðjudagur 17. janúar 2006.Vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk beiðni um aðstoð þyrlu vegna bílslyss við Húnaver í Langadal kl. 23:18 í gærkvöldi.  Neyðarlínan gaf samband við lækni sem var á staðnum og óskaði hann eftir þyrlunni. Áhöfn Lífar, stóru björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, var þegar kölluð út. Fór þyrlan í loftið kl. 23:57 og var komin til Blönduóss kl. rúmlega 1 en þangað hafði hinn slasaði verið fluttur.   Þyrlan hélt af stað til Reykjavíkur kl. 1:20 og lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 2:18.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Símasambandslaust við skrifstofur LHG - upplýsingar um símanúmer stjórnstöðvar

Mánudagur 16. janúar 2006 kl. 15:45.Við vegaframkvæmdir í Holtsgötu gerðist það óhapp að símastrengur inn á Seljaveg 32 slitnaði og eru símar Landhelgisgæslunnar flestir sambandslausir.  Viðgerð stendur yfir og er vonast til að hún gangi fljótt fyrir sig.  Hægt er að ná í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í símum: 511 3333, 569 4164 og GSM 897 6383 Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Neyðarskeyti frá flutningaskipinu Wilson Tyne

Sunnudagur 15. janúar 2006.Í morgun urðu varðstjórar í vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar varir við neyðarskeyti á stuttbylgju en það reyndist koma frá flutningaskipinu Wilson Tyne sem var á leið til Grundartanga.  Skipið hafði orðið vélarvanta 200 sjómílur norðaustur af Langanesi.  Varðstjórar höfðu þá samband við umboðsmann skipsins á Íslandi og ákvað hann í samráði við eigendur skipsins í Noregi að láta norskan dráttarbát sækja skipið.  Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Tveir slasaðir sóttir í sjúkraflugi björgunarþyrlunnar Lífar í Landmannalaugar og Bláfjöll

Sunnudagur 15. janúar 2006.Vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk hringingu frá Neyðarlínunni kl. 14:33 en tilkynnt var um að karlmaður hefði orðið fyrir slysi á vélsleða skammt frá Landmannalaugum. Ekki var símasamband við slysstað en samband haft með talstöð.  Þyrluáhöfn var upplýst um þetta en ekki var strax óskað eftir aðstoð þyrlu. Rúmum 10 mínútum síðar hafði lögreglan í Vík samband og óskaði eftir þyrlu til að sækja slasaða vélsleðamanninn. Að sögn lögreglunnar var blíðuveður á svæðinu.  Áhöfn Lífar, stóru björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, var þegar kölluð útLíf fór í loftið kl. 15:12 og var komin á slysstað um kl. 15:50.  Talið var að hinn slasaði væri með brjóst- og bakáverka en líðan hans var stöðug á meðan á fluginu stóð. Skömmu eftir að Líf var komin í Landmannalaugar fékk Vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hringingu frá Landspítala Háskólasjúkrahúsi en óskað var eftir þyrlu til að sækja stúlku sem hafði slasast í Bláfjöllum. Áhöfn Lífar var þegar tilkynnt um það og lenti þyrlan í Bláfjöllum kl. 16:43.  Þar voru sjúkraflutningamenn frá SHS búnir að setja hina slösuðu á bakbretti og undirbúa hana fyrir flutning.  Líf fór síðan í loftið frá Bláfjöllum þremur mínútum síðar og flutti bæði hin slösuðu á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi en þar lenti þyrlan kl. 16:51.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.Páll Ástþór Jónsson lögreglumaður í Kópavogi tók þessa mynd af björgunarþyrlunni Líf er hún var að lenda í Bláfjöllum til að sækja slasaða stúlku.  Þyrlan var að koma úr Landmannalaugum þar sem hún hafði sótt slasaðan vélsleðamann.  Rauði bjarminn er frá blysi sem notað var til að leiðbeina þyrlunni að slysstaðnum.

Opnun umsókna um þátttöku í lokuðu útboði um smíði á nýju varðskipi fyrir Landhelgisgæsluna

Fimmtudagur 12. janúar 2005.Í dag fór fram hjá Ríkiskaupum opnun á umsóknum um þátttöku í lokuðu útboði um smíði á nýju varðskipi fyrir Landhelgisgæsluna og dómsmálaráðuneytið.  Eftirtaldir sendu inn umsóknir:1. Astilleros Armon  S,A. Spain2. China Ship Building Trading Company, China3. Bergen Yards AS, Norway4. Navantia S.A., Spain5. Simek A/S, Norway6. Damen Shipyards  Goringchem, The Netherlands7. Devenport Royal Dockyard Limited, United Kingdom8. Gdansk Stocznia Remontowa im, Poland9. Chantiers De' Atlantique (Alstom Naval), France10. Thyssen Krupp Marine Systems (TKMS), Germany11. Fincantieri Cantieri Navali, Italy12. Peene-Werft GmbH, Germany13. Karstensens Skibsværft A/S, Danmark14. Asmar, Chile15. Aker Brattvaag Skibsverft A.S., NorwayStefnt er að því að umsækjendur fái útboðsgögn í febrúar og undirritaður samningur liggi fyrir í byrjun sumars.Á heimasíðu Ríkiskaupa kemur fram að verkið felst í hönnun og smíði á nýju fjölnota varðskipi fyrir Landhelgisgæslu Íslands. Gert er ráð fyrir að helsta hlutverk skipsins verði m.a. löggæsla á hafi, fiskveiðieftirlit innan efnahagslögsögu Íslands, leit og björgun á hafi og flutningur björgunarsveita við leit og björgun. Þá kemur fram í auglýsingu að hlutverk skipsins verði líka að þjóna sem stjórnstöð á hamfarasvæðum við Ísland sem og við leit og björgun. Skal skipið vera útbúið til að geta fengist við mengunarslys á hafi og geta gefið þyrlum á flugi eldsneyti. Miðað er við að skipið geti dregið allt að 150 þúsund tonna skip. Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Áhöfn Sýnar stóð færeyskan togara að meintum ólöglegum veiðum

Miðvikudagur 11. janúar 2006.   Í lok síðustu viku stóð áhöfn Sýnar, flugvélar Landhelgisgæslunnar, færeyskan togara að meintum ólöglegum veiðum í íslensku efnahagslögsögunni rétt innan við miðlínuna milli Íslands og Færeyja.  Deilur hafa staðið um legu miðlínunnar og var færeyski togarinn 1.9 sjómílur fyrir innan íslensku lögsögumörkin samkvæmt færeyskri túlkun en 8.4 sjómílur fyrir innan mörkin samkvæmt íslenskri túlkun.  Landhelgisgæslan var ekki með varðskip í nágrenninu og þar af leiðandi var ekki hægt að færa togarann til hafnar.  Áhöfn Sýnar reyndi ítrekað að ná sambandi við togarann með fjarskiptum og ljósmerkjum en fékk ekkert svar. Færeyski togarinn hefur ekki leyfi til veiða í íslenskri lögsögu og vanrækti auk þess tilkynningarskyldu og braut með því gegn lögum nr. 22/1998 um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.   Eftir að yfirstýrimaður í áhöfn Sýnar hafði skilað skýrslu um málið að kvöldi 5. janúar sl. var ákveðið að óska eftir aðstoð lögregluyfirvalda í Færeyjum við rannsókn málsins með milligöngu Ríkislögreglustjórans.  Óskað var eftir því að lögreglan færi um borð í togarann við komu til Færeyja og yfirheyrði skipstjórann og aðra hlutaðeigandi, afli yrði rannsakaður sem og skipsbækur og fl.  Málið var sent til Færeyja aðfararnótt 6. janúar sl. fyrir milligöngu alþjóðadeildar Ríkislögreglustjórans og er til rannsóknar hjá lögreglunni í Þórshöfn. Óvíst er hvert framhald málsins verður á þessari stundu en til greina kemur að gefa út ákæru hérlendis og freista þess að rétta yfir skipstjóranum eða forráðamönnum útgerðarinnar ef þeir láta sjá sig innan íslenskrar lögsögu.   Til fróðleiks má nefna að Íslendingar og Færeyingar hafa ekki verið á eitt sáttir um legu miðlínunnar.  Vegna þessa gerðu utanríkisráðherra Íslands og lögmaður Færeyja samkomulag um afmörkun umdeilda hafsvæðisins 25. september 2002.  Sjá fréttatilkynningu á heimasíðu utanríkisráðuneytisins um þetta á slóðinni:http://utanrikisraduneyti.is/frettaefni/frettatilkynningar/nr/159   Forsenda fyrir því að hægt væri að ganga frá formlegum afmörkunarsamningi milli Íslands og Færeyja, sem næði til lögsögunnar allrar, var að ljúka tæknilegri endurskoðun grunnlínupunkta hvors lands um sig.  Landhelgisgæslan og Loftmyndir luku endurskoðun grunnlínupunktanna seinni partinn í júní 2005 en úrvinnsla gagnanna stendur enn yfir og að því loknu verður gengið frá formlega frá samkomulaginu.   Dagmar Sigurðardóttir lögfr./fjölmiðlaftr. Úr myndasafni. Sýn á flugi yfir varðskipinu Óðni. Mynd: Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á varðskipinu Ægi.

Landhelgisgæslan og 112 dagurinn

Fimmtudagur 5. janúar 2006   Landhelgisgæslan tekur þátt í 112 deginum sem haldinn verður 11. febrúar næstkomandi en tvö varðskip verða til sýnis, í Reykjavík og úti á landi, og björgunarþyrlan Sif tekur þátt í sýningu í Skógarhlíð. Einnig verða myndir úr starfi LHG sýndar á ljósmyndasýningu í tilefni dagsins.   Hér fyrir neðan er fréttatilkynning frá verkefnisstjóra 112 dagsins en skipuleggjandi af hálfu Landhelgisgæslunnar er Auðunn F. Kristinsson yfirstýrimaður í flugdeild. Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur/upplýsingafulltrúi     112 dagurinn 2006 – samvinna og samhæfing viðbragðsaðila   112 dagurinn var haldinn á Íslandi í fyrsta sinn 11. febrúar 2005 og ákveðið hefur verið að halda hann að nýju 11. febrúar næstkomandi. Að þessu sinni verður áhersla lögð á að viðbragðsaðilar um land allt standi sameiginlega að því að kynna starfsemi sína en dagskráin tekur einnig mið af því að Neyðarlínan fagnar tíu ára starfsafmæli um þessar mundir.   Markmiðið með 112 deginum er að kynna neyðarnúmerið og starfsemi aðilanna sem tengjast því, efla vitund fólks um mikilvægi þessarar starfsemi og hvernig hún nýtist almenningi. Markmið dagsins er enn fremur að efla samstöðu og samkennd þeirra sem starfa að forvörnum, björgun og almannavörnum og undirstrika mikilvægi samstarfs þeirra og samhæfingar.   Efnt verður til viðburða um allt land dagana 10. og 11. febrúar. Fyrri daginn verður haldin ráðstefna um björgun og almannavarnir í tilefni af tíu ára afmæli Neyðarlínunnar og verður hún auglýst nánar síðar. Einnig verður ljósmyndasýningin Útkall 2005 opnuð í Reykjavík og á Akureyri. Loks er gert ráð fyrir að Rauði kross Íslands tilkynni um val á skyndihjálparmanni ársins og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna afhendi verðlaun í Eldvarnagetrauninni þennan dag.   Laugardaginn 11. febrúar, á 112 daginn, er hins vegar stefnt að því að viðbragðsaðilar um allt land standi sameiginlega að því að kynna starfsemi sína fyrir almenningi. Þegar hefur verið ákveðið að viðbragðsaðilar á höfuðborgarsvæðinu myndi lest bíla og tækja og fari um svæðið til að sýna sameiginlegan styrk sinn og samstöðu og til að vekja athygli á opnu húsi sem verður í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð kl. 13-16.   Garðar H. Guðjónsson kynningarráðgjafi mun annast stjórn verkefnisins eins og í fyrra og er unnt að leita nánari upplýsinga um 112 daginn með því að senda tölvupóst á gaji@mmedia.is.   Björgunaþyrla Landhelgisgæslunnar lent á planinu við Smáralind í Kópavogi eftir að hafa sýnt björgunaræfingar í tilefni 112 dagsins.

Starfsmaður Landhelgisgæslunnar heldur til starfa á vegum Íslensku friðargæslunnar á Sri Lanka

Þriðjudagur 3. janúar 2006 Starfsmaður Landhelgisgæslunnar, Marvin Ingólfsson, mun á næstu dögum halda til Sri Lanka þar sem hann mun starfa fyrir Íslensku friðargæsluna við vopnahléseftirlit á vegum Sri Lanka Monitoring Mission - SLMM.  Marvin hefur skipstjórnarmenntun og mun starfa við vopnahléseftirlit á sjó (á ensku Naval Monitor). Marvin hefur einnig hlotið þjálfun hjá sprengjusveit Landhelgisgæslunnar.  Gert er ráð fyrir að Marvin muni dvelja u.þ.b. hálft ár á Sri Lanka.SLMM var komið á fót samhliða vopnahléssamningum sem stjórnarherinn á Sri Lanka og uppreisnarmenn Tamíla (Tígrarnir) gerðu með sér þann 22. febrúar 2002. Verkefnið er samnorrænt en undir norskri stjórn og snýst um eftirlit með því hverning stríðandi fylkingar á Sri Lanka halda vopnahléð. Báðir deiluaðilar hafa talið gagn af starfsemi SLMM og má nokkuð víst telja að ástandið í landinu væri mun verra ef starfseminni hefði ekki verið komið á fót á sínum tíma. Spennustig í landinu hefur að vísu hækkað nokkuð eftir nýafstaðnar forsetakosningar en starfsmenn SLMM telja sig ekki vera í hættu. Um það bil 60 starfsmenn frá öllum Norðurlöndunum vinna að þessu verkefni en þar af eru 5 Íslendingar og er það nokkuð hátt hlutfall miðað við fólksfjölda.  Nánari upplýsingar um starfsemi SLMM má fá á slóðinni:  http://www.slmm.lk/Sjá meðfylgandi mynd sem tekin var af Marvin sl. sumar er hann var að störfum hjá sprengjusveit Landhelgisgæslunnar. Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.