Flugdeild LHG

Flugdeild LHG hefur það meginhlutverk að sinna þeim verkefnum sem getið er um í lögum um Landhelgisgæslu Íslands. Í þeim felst meðal annars að sinna öllu almennu eftirliti á hafinu umhverfis Ísland, fiskveiðieftirliti, mengunareftirliti, ískönnun og rannsóknarvinnu. Leit og björgun, sjúkraflugi af ýmsum toga, flugi með hjálparsveitir og sérsveit ríkislögreglustjóra o.fl. Einnig sinnir flugdeildin ýmsum sérverkefnum.

SIF_Midbaer
Eftirlitsflugvélin TF-SIF flýgur reglulega til landhelgisgæslu og á veturna einnig til hafískönnunar. Þá eru 4-5 menn í áhöfn vélarinnar; flugstjóri, flugmaður og 2-3 stýrimenn/siglingafræðingar. TF–SIF sinnir einnig leitar og björgunarstörfum sem og fylgd með þyrlum í lengri sjúkra- og björgunarflugum á haf út. Hægt er að varpa björgunarbátum úr henni og öðru því sem gæti orðið til aðstoðar, áður en eiginlegri björgun yrði við komið. Flugvélar Landhelgisgæslunnar hafa einnig verið nýttar í ýmis sérverkefni svo sem flóttamannahjálp á vegum Rauða krossins, flug með hjálparsveitir á hamfarasvæði og önnur álíka verkefni.

Þyrlur Landhelgisgæslunnar sinna hinum ýmsu verkefnum auk landhelgisgæslu. Þær eru mikilvæg tæki til sjúkraflutninga til sjós og lands og hafa á undanförnum árum margsannað notagildi sitt við björgun mannslífa. Meðal annarra verkefna þyrlanna er t.d. krókvinna fyrir ýmsa aðila, farþegaflug á vegum hins opinbera o.fl. Í áhöfn á þyrlum LHG eru að jafnaði 5 menn, þ.e. flugstjóri, flugmaður, sigmaður, spilmaður og læknir. Landspítalinn í Fossvogi, hefur með höndum umsjón og stjórn þyrluvaktar lækna og tryggir sólarhringsvakt sérþjálfaðra lækna fyrir sjúkra- og björgunarflug með þyrlum LHG

Útköll hafa í seinni tíð verið á bilinu 110 – 160 á ári.  Flest eru útköllin í tengslum við leitar björgunar og sjúkraflutninga bæði á hafi úti og inni á landi en þó má segja að verkefnin geti verið mjög fjölbreytt. Miklum tíma varið í æfingar með það að leiðarljósi að vera ávallt sem best í stakk búnir til þeirra starfa sem vænta má. Leitast er við að hafa æfingarnar og umgjörð þeirra sem raunverulegastar. Varðskip LHG og áhafnir þeirra eru ómissandi og mjög mikilvægur þáttur í æfingaferlinu. Æfingar með skipunum á hafi úti koma áhöfn þyrlunnar í góða snertingu við þær aðstæður sem síðar geta komið upp við björgunarstörf. Æfingarnar fara fram bæði yfir sjó, þar sem æfðar eru hífingar úr sjó, úr gúmmíbátum og af skipum, og yfir landi, þar sem æfðar eru hífingar í fjalllendi og af sléttlendi. Talsvert er um æfingar tengdar notkun nætursjónauka sem teknir voru í notkun árið 2002, en þeir hafa gjörbreytt starfsumhverfi og möguleikum þyrluáhafna til að sinna starfi sínu að nóttu til.

Starfsmenn

Hjá flugdeild LHG starfa flugrekstrarstjóri, tæknistjóri, 13 flugmenn, 8 stýrimenn, 14 flugvirkjar, 3 aðstoðarmenn og að auki 6 starfsmenn sem sinna skipulagningu og öðrum störfum. Unnið er frá kl. 0800-1600 virka daga og allan sólarhringinn eru 6 menn tilbúnir á þyrluvakt. Vinnutími þeirra fer eftir fjölda útkalla og æfinga. Þyrla getur verið tilbúin til flugtaks frá flugvelli 10-60 mínútum eftir útkall, og ræðst viðbragðstími helst af veðri og aðstæðum til flugs. Unnið hefur verið að stækkun flugdeildar Landhelgisgæslunnar og má því búast við enn fleiri starfsmönnum á næstu misserum.

Umfjöllun um loftför LHG má sjá hér.

Starfsáætlun flugdeildar 2012

Gjaldskrá flugdeildar Landhelgisgæslu Íslands 2013.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica