Fréttayfirlit

Sjávarfallaalmanak og sjávarfallatöflur 2004 komnar út

Föstudagur 31. október 2003.   Út eru komnar Sjávarfallatöflur 2004 ásamt Sjávarfallaalmanaki 2004. Sjómælingar Íslands, sem eru deild innan Landhelgisgæslunnar, hafa gefið út töflur yfir sjávarföll í yfir 50 ár. Töflur yfir sjávarföll í Reykjavík og flóðbið annarra staða við Ísland gáfu Sjómælingar Íslands fyrst út árið 1954. Útreikningur taflanna byggðist á athugun, sem gerð var af starfsmönnum Sjómælinganna á sjávarföllum í Reykjavíkurhöfn allt árið 1951.Áður höfðu birst í almanaki Þjóðvinafélagsins og í Sjómannaalmanakinu töflur yfir sjávarföll sem byggðust á athugunum er náðu yfir skemmra tímabil og gátu því ekki orðið eins nákvæmar.   Fylgst hefur verið með sjávarföllum í Reykjavík nær óslitið síðan 1951 og grundvallast útreikningur töflunnar fyrir Reykjavík nú á greiningu sjávarfalla frá árunum 1956 til 1989.  Auk töflunnar fyrir Reykjavík eru töflur fyrir Ísafjörð, Siglufjörð og Djúpavog. Athuganir voru gerðar á árunum 1972-1973 fyrir Ísafjörð, 1976 fyrir Siglufjörð og 1977-1980 fyrir Djúpavog.   Sjávarfallaalmanakið sýnir útreiknaða hækkun og lækkun sjávar í Reykjavík fyrir hvern dag ársins. Breyting sjávarfallabylgjunnar frá degi til dags og hlutfallsleg stærð hennar við stórstraum og smástraum kemur greinilega fram á línuritinu.Hverjum sólarhring er deilt niður í tveggja klukkustundar bil og er sjávarhæðin sýnd í metrum miðað við núll-flöt sjókorta. Með hjálp línuritsins má því áætla sjávarstöðuna áhverjum tíma. Sé þörf á meiri nákvæmni er vísað til töflu yfir sjávarföll við Ísland, en í þeirri töflu er tími og hæð flóðs og fjöru gefinn upp nákvæmlega.   Stórstreymt er einum til tveim dögum eftir að tungl er nýtt eða fullt en smástreymt einum til tveim dögum eftir fyrsta og síðasta kvartil. Í almanakinu er sýnt hvenær kvartilaskipti tungls verða.   Upplýsingar um sjókort og aðrar útgáfur ásamt upplýsingum. um hvar hægt er að nálgast þessar vörur hjá umboðsmönnum er að finna í kortaskrá Sjómælinga Íslands, en finna má tengil inn á hana á heimasíðu Landhelgisgæslunnar.  Á meðfylgjandi myndum má sjá tíma og hæð flóðs og fjöru í janúar - mars í Reykjavík 2004 og sjávarföll í Reykjavík í janúar 2004.        

Björgun Þorsteins EA

Föstudagur 31. október 2003. Reykjavíkurradíó hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 14:41 og tilkynnti að mikill leki væri kominn að vélarrúmi fjölveiðiskipsins Þorsteins EA en þá var skipið statt 25 sjómílur norðaustur af Glettinganesi.  Tuttugu og fjórir menn voru í áhöfn skipsins.  Skipverjar réðu ekki við lekann og óskuðu eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar.  Veður var norðan eða norðvestan 12-13 m. á sekúndu og talsverður sjór.  Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sáu strax í fjareftirlitskerfi stofnunarinnar að tvö skip voru stödd í námunda við Þorstein EA.  Starfsmenn Reykjavíkurradíós voru beðnir um að kalla þau strax upp og óska eftir að þau héldu í átt til Þorsteins EA. Einnig var óskað eftir að björgunarsveitir á Austfjörðum yrðu kallaðar út. TF-SIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, var þá á flugi fyrir vestan land og var hún þegar kölluð inn til Reykjavíkur.  Þar fór þyrluáhöfnin um borð í TF-LIF með sex dælur og fór hún á loft frá Reykjavíkurflugvelli kl. 15:41.  Haft var samband við skipið stuttu síðar og þá var verið að koma taug úr fjölveiðiskipinu Vilhelmi Þorsteinssyni EA yfir í Þorstein EA.  Kl. 16:54 var Þorsteinn EA kominn í tog en þá var lekinn orðinn það mikill að skipið var farið að ,,síga á verri hliðina" að sögn skipstjóra.  Vilhelm Þorsteinsson var kominn með Þorstein EA í tog kl. 16:54 og sigldi með skipið í átt til Neskaupstaðar á 6,5-7,5 sjómílna hraða og minnkaði lekinn fljótlega eftir að skipin voru komin á ferð. TF-LIF var komin að skipunum um sexleytið og fóru tveir sigmenn/stýrimenn úr þyrlunni með sex dælur um borð í Þorstein EA.  Fljótlega fóru dælurnar að hafa undan lekanum og sjór að lækka í vélarrúmi.  Um kl. 19:30 hélt TF-LIF til Egilsstaða til að taka eldsneyti.  Þá hafði sjór í vélarrúmi lækkað um 70 cm. á einni klukkustund.  Annar stýrimannanna úr þyrluáhöfn varð eftir um borð í Þorsteini EA til að sjá um dælurnar. Skipin eru væntanleg til Neskaupsstaðar kl. 22 í kvöld. Þorsteinn EA-810 er samkvæmt sjómannaalmanaki Skerplu stálskip, smíðað í Noregi árið 1988 og gert út af Samherja á Akureyri. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi    

Útkall þyrlu vegna bifreiðarslyss

Fimmtudagur 30. október 2003. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 16:39 og óskaði eftir þyrlu vegna alvarlegs bílsslyss við Viðvíkurfjall í Hjaltadal.  Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út, útkalli Alfa, og fór þyrlan í loftið kl. 17:04.  Aðstoð þyrlu var afturkölluð kl. 17:26 og lenti þyrlan við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli kl. 17:47.  Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi.

Sjúkraflug með veikt barn

Miðvikudagur 29. október 2003. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í nótt vegna beiðni læknis á Ólafsvík um flutning veiks barns með þyrlu.   TF-LIF fór í loftið kl. 3:41 og lenti á Rifi kl. 4:21.  Átta mínútum síðar var þyrlan komin aftur í loftið með barnið og móður þess og lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli kl. 5:10.  Þar beið sjúkrabíll eftir barninu og flutti það á Landspítala Háskólasjúkrahús. Dagmar Sigurðardóttirupplýsingafulltrúi  

Varðskip dró Síldey NS-25 til hafnar

Þriðjudagur 28. október 2003. Skipstjóri Síldeyjar NS-25 hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í gærmorgun og óskaði eftir aðstoð þar sem skipið var vélarvana eftir að hafa fengið veiðarfæri  í skrúfuna.  Það var þá statt 60 sjómílur norðaustur af Dalatanga. Varðskip hélt þá í átt til skipsins og var komið að því um tvöleytið í gærdag.  Skipin komu til hafnar á þriðja tímanum í nótt.  Nokkuð hvasst var á leiðinni en vel gekk að draga skipið til hafnar. Síldey er 250 tonna línuskip með heimahöfn á Seyðisfirði. Sjá meðfylgjandi mynd sem Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður á varðskipinu tók í gær. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Björgunaræfingar þyrluáhafna í Aberdeen

Fimmtudagur 16. október 2003. Haustin eru tími margvíslegra æfinga hjá Landhelgisgæslunni enda nauðsynlegt fyrir áhafnir varðskipa og loftfara Landhelgisgæslunnar að vera við öllu búnar fyrir veturinn og reyndar allt árið.  Hámarks flugdrægi stærri þyrlu Landhelgisgæslunnar,TF-LIF, er 625 sjómílur (1125 km) en hámarks flugdrægi minni þyrlunnar, TF-SIF, er 400 sjóm (720 km). Í björgunarflugum, jafnvel út fyrir efnahagslögsögu Íslands, er nauðsynlegt fyrir áhafnir þyrla Landhelgisgæslunnar að vera við öllu búnar í neyðartilfellum.   Bæði þurfa þær að vera reiðubúnar bjarga farþegum, jafnvel sjúkum eða slösuðum, og sjálfum sér ef eitthvað bregður út af.  Vegna þessa hafa þyrluáhafnir Landhelgisgæslunnar sótt námskeið hjá fyrirtækinu Rgit Montrose í Aberdeen á tveggja ára fresti en námskeiðin kallast ,,helicopter underwater escape training".  Í áhöfnum þyrla Landhelgisgæslunnar eru flugstjórar, flugmenn, skipstjórnarmenn, flugvirkjar og læknar. Æfingarnar fara fram í þyrlulíkani sem er látið sökkva niður í sundlaug og felast í því að læra hvað á að gera ef þyrlan er að hrapa í sjó eða vatn.  Tryggja að beltin séu vel spennt, hjálmurinn sitji rétt og vera í réttri stöðu til að verða fyrir sem minnstu hnjaski þegar þyrlan lendir á haf- eða vatnsfletinum.  Síðan þarf að hafa aðra höndina á öryggisbeltinu til að vera sem fljótastur að ná sér úr því þegar á þarf að halda og hafa hina höndina við næstu útgönguleið eða í áttina að henni því hætt er við að menn ruglist í ríminu þegar þyrlan sekkur og veltur í sjónum.  Þyrlulíkanið sekkur niður í vatnið og þegar það er komið á bólakaf byrjar það að snúast. Fyrir byrjendur getur þetta verið nokkuð skelfileg reynsla en í lauginni eru kafarar sem eru reiðubúnir að bjarga fólki út úr líkaninu ef því tekst það ekki af sjálfsdáðum.  Á námskeiðinu, sem stendur í tvo daga, er einnig farið í björgunarbátaæfingar og menn þjálfaðir í að bregðast við ýmsum uppákomum á sjó.  Þyrluáhafnir Landhelgisgæslunnar fóru í tveimur hópum til Aberdeen.  Sverrir Erlingsson flugvirki tók myndir í fyrri ferðinni en í seinni ferðinni var Árni Sæberg ljósmyndari með í för og tók myndir bæði fyrir ofan og neðan vatnsborð.  Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 12. október sl. birtist skemmtileg frásögn hans af ferðinni.  Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Mynd: Árni Sæberg Mynd: Árni Sæberg: Leiðbeinandinn, Ian, leggur línurnar.     Mynd: Árni Sæberg: Inni í þyrlulíkaninu.  Björn Brekkan flugmaður, J. Tómas Vilhjálmsson flugvirki, Hafsteinn Heiðarsson flugstjóri og Sigurður Heiðar Wiium flugmaður tilbúnir í slaginn. Mynd: LHG/Sverrir Erlingsson flugvirki: Þyrlulíkanið sekkur með nokkra áhafnarmeðlimi innanborðs. Mynd: LHG/Sverrir Erlingsson flugvirki: Þarna sést hvernig þyrlulíkanið byrjar að snúast.  Það fer alveg á hvolf og snýst svo aftur í rétta stöðu.  Mikilvægt er að vera búinn að átta sig vel á hvar næsti útgangur er þegar maður þarf að bjarga sér út úr líkaninu á bólakafi. Mynd: Árni Sæberg: Kafarar frá Rgit Montrose eru tilbúnir að bjarga þeim sem ekki komast út af sjálfsdáðum. Öllum í þyrluáhöfninni tókst það. Mynd: Árni Sæberg: Hópurinn úr seinni ferðinni stillti sér upp fyrir blaðamann og ljósmyndara frá fréttablaði í Aberdeen sem sagði frá komu hópsins og tók viðtal við Hafstein Heiðarsson flugstjóra. Mynd: LHG/Sverrir Erlingsson flugvirki:  Friðrik Höskuldsson skipstjórnarmaður í þyrluáhöfn æfir notkun björgunarbáta.  Báturinn var á hvolfi og þurfti að snúa honum við og koma sér um borð. Ekki vandamál fyrir vana menn. Mynd: Árni Sæberg: Hafsteinn Heiðarsson flugstjóri syndir baksund í átt að bakkanum.  

Djúpsprengju eytt við Álftanes

Mánudagur 13. október 2003. Eins og fram hefur komið í fréttum fundu sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar tvær djúpsprengjur úr seinni heimstyrjöldinni út af Hliðsnesi á Álftanesi í byrjun október.   Önnur þeirra var sprengd 3. október síðastliðinn eftir að sprengjusérfræðingar og kafarar Landhelgisgæslunnar höfðu flutt hana fjær byggð.  Í dag kl. 16:05 var seinni sprengjunni eytt.  Sprengjan var fest við pramma og flutt eina sjómílu fjær byggð.  Síðan var sprengiefni komið fyrir á prammanum og sprengingu komið af stað með því að tendra í því.  Sprengjan mældist 0.7 á Richtersmælikvarða samkvæmt skjálftavef Veðurstofunnar.  Að sögn sjónarvotta var hún tilkomuminni en sú fyrri sem mældist 1.6  á Richtersmælikvarða. Sprengjusérfræðingar frá bandaríska flughernum voru um borð í varðskipinu Tý og fylgdust með starfsbræðrum sínum hjá Landhelgisgæslunni eyða sprengjunni. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Mynd: LHG/Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður: Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar að störfum við prammann. Mynd: LHG/Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður: Sprengjunni eytt. Mynd: LHG/Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður: Adrian King sprengjusérfræðingur heldur á forsprengjunni. Mynd:  LHG/Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður: Kafarar og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar ásamt sprengjusérfræðingum bandaríska sjóhersins um borð í varðskipinu Tý.  

Sjúkraflug vegna slasaðs manns á Snæfellsnesi

Laugardagur 11. október 2003. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 13:35 og lét vita að maður hefði slasast skammt austur af Vegamótum á Snæfellsnesi. Hugsanlega yrði kallað eftir þyrlu. Maðurinn hafði lent undir stálbita við vinnu á bænum Miðhrauni. Verið var að færa bitann með krana þegar slysið átti sér stað. Læknir var á leið á staðinn. Óskað var eftir þyrlu kl. 13:56 en þá hafði læknir skoðað manninn og talið það nauðsynlegt.  Áhöfn TF-SIF var þegar kölluð út, bráðaútkalli og fór þyrlan í loftið kl. 14:27 og lenti við slysstað kl. 14:49.  Þaðan var haldið kl. 15:04 og lent við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 15:32. Á meðan á sjúkrafluginu stóð óskaði lögreglan á Selfossi aðstoðar þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna manns sem talið var að fallið hefði í Hvítá. Er þyrlan lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús var aðstoð afþökkuð þar sem sést hafði til mannsins á þurru landi. Rúmri klukkustund síðar var leit að honum hætt. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi      

Viðbúnaður vegna skelveiðibátsins Fossár frá Þórshöfn

Miðvikudagur 8. október 2003. Um kl. 19:35 í gærkvöldi fékk stjórnstöð Landhelgisgæslunnar upplýsingar frá Tilkynningarskyldunni um að skelveiðibáturinn Fossá frá Þórshöfn hefði fengið í skrúfuna og lægi við akkeri í Eiðisvík. Fjórir menn voru í áhöfn bátsins. Á þeirri stundu taldi skipstjóri Fossár að ekki væri hætta á ferðum.  Stuttu síðar lét Tilkynningarskyldan vita að fjölveiðiskipið Björg Jónsdóttir væri á leið til Fossár og var gert ráð fyrir að það tæki tvo og hálfan tíma að komast á staðinn.  Varðskip var þá statt í 80-90 sjómílna fjarlægð frá Eiðisvík og hélt þegar í áttina þangað. Tilkynningarskyldan lét vita að Fossá væri búin að slíta annað akkerið kl. 20:19.  Á svæðinu voru 10 – 15 metrar á sekúndu. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar upplýsti varðskip og var það sett á fulla ferð.  Lögregla og björgunarsveitir voru þá einnig á leið til Eiðisvíkur.  Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafði samband við skipstjóra Fossár um kl. 20:32 og taldi hann þá ekki ástæðu til að senda út þyrlu.  Skipið var þá eina sjómílu frá landi og sagðist skipstjórinn vera tilbúinn að setja út plóginn ef hitt akkerið slitnaði.  Lögreglan á Húsavík og á Þórshöfn hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar stuttu síðar og var upplýst um þá ákvörðun Landhelgisgæslunnar að senda ekki þyrlu og að sú ákvörðun hefði verið tekin í samráði við skipstjóra Fossár.  Um kl. 23:15 upplýsti skipstjóri Fossár að báturinn væri komið í tog hjá fjölveiðiskipinu Björgu Jónsdóttur og þá var varðskip afturkallað. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Fallbyssuæfingar á haustdögum

Miðvikudagur 8. október 2003.   Sem betur fer þurfa áhafnir varðskipa Landhelgisgæslunnar sjaldan að grípa til vopna og því eru fallbyssur skipanna ekki mikið notaðar.  Nú til dags gerist það helst þegar erlend herskip koma í heimsókn en þá er samkvæmt alþjóðlegum prótókollreglum tilhlýðilegt að skjóta fallbyssuskotum í heiðursskyni.  Síðast gerðist það þegar rússneska herskipið Admiral Tchabanenko kom hingað í opinbera heimsókn til Landhelgisgæslunnar í ágúst 2002.  Við brottför herskipsins var skotið 21 fallbyssuskoti til heiðurs íslensku þjóðinni og fána Íslands.  Á móti skutu sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar 21 fallbyssuskoti til heiðurs rússnesku þjóðinni og fána Rússlands.   Á árum áður voru fallbyssur m.a. notaðar til að skjóta púðurskotum að fiskiskipum sem svöruðu ekki kalli og ef menn létu sér ekki segjast gátu þeir átt von á að fá fallbyssukúlu í skipið.  Fallbyssur voru lítið notaðar í þorskastríðunum en þó kom það fyrir.     Fallbyssurnar sem nú eru á varðskipunum eru af gerðinni Bofors L60 með 40 mm. hlaupvídd og geta þær skotið 120-160 skotum á mínútu eða tveimur til þremur skotum á sekúndu á skotmörk í allt að þriggja kílómetra fjarlægð.  Til að skjóta af byssunni þarf þriggja manna byssuáhöfn auk yfirmanns í brú sem veitir upplýsingar um fjarlægð og stefnu á skotmarkið og gefur fyrirmæli um hvenær hleypa á af.   Þótt að fátítt sé að fallbyssurnar séu notaðar þykir nauðsynlegt að Landhelgisgæslumenn viðhaldi kunnáttu í notkun þeirra.  Æfingar eru að jafnaði haldnar tvisvar á ári og hafa sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar umsjón með þeim.  Nýlega lauk fallbyssuæfingum á varðskipunum Ægi og Tý.  Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var stór dunkur notaður sem skotmark og tókst mönnum allvel að hitta í mark.  Myndirnar tók Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á Ægi.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi              

Sjúkraflug með slasaðan bifhjólamann

Laugardagur 4. október 2003. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 15:51 og tilkynnti að maður hefði lent í bifhjólaslysi milli Búrfells og Heklu.  Gefin var upp nákvæm staðsetning og látið vita að læknir væri á leiðinni.  TF-SIF hafði verið send í verkefni til Vestmannaeyja og var henni þegar snúið við.  Læknir var kominn á slysstað kl. 16:42 og óskaði eftir þyrlu þar sem ekki tókst að koma sjúkrabifreið á slysstað.  Maðurinn var sagður illa slasaður á fæti.  TF-SIF hafði viðkomu í Reykjavík til að sækja lækni úr áhöfn þyrlunnar og var komin til baka með hinn slasaða kl. 18:28.  Hann var fluttur á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Stefnt að því að eyða djúpsprengjum við Álftanes í dag

Föstudagur 3. október 2003.   Sprengjuleitarkafarar Landhelgisgæslunnar hafa fundið tvær 300 kílóa djúpsjávarsprengjur út af Hliðsnesi á Álftanesi.  Sprengjurnar eiga sennilega rætur að rekja til sprengjuflugvélar af gerðinni Lockheed Hudson sem hrapaði í sjóinn á þessu svæði á stríðsárunum með þeim afleiðingum að allir um borð fórust.  Sprengjurnar verða gerðar óvirkar í dag ef veður leyfir og má búast við að hávær hvellur heyrist í nágrenninu þegar það gerist.  Almenningi er engin hætta búin.   Kafarar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins fundu torkennilegan hlut á svæðinu þegar þeir voru þar við æfingar 30. september sl.  Þeir höfðu samband við sprengjudeild Landhelgisgæslunnar sem gat borið kennsl á hlutinn en um var að ræða kveikibúnað úr bandarískri neðansjávarsprengju sem hefur þann eiginleika að springa þegar þrýstingur myndast neðansjávar.  Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins lagði einnig fram tölvumyndir af svæðinu þar sem kveikibúnaðurinn fannst.  Sprengjusérfræðingarnir töldu strax mögulegt þegar þeir skoðuðu myndirnar að um stóra sprengju og hluta úr kveikibúnaði væri að ræða.   Daginn eftir, þann 1. október, fóru sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar vandlega yfir svæðið og fundu tvær sprengjur.  Um er að ræða bandarískar MK 49 djúpsjávarsprengjur úr seinni heimstyrjöldinni sem notaðar voru til að ráðast á kafbáta óvinaþjóða.  Þær eru hannaðar þannig að þær geta jafnt sprungið neðansjávar og á þurru landi.  Báðar sprengjurnar hafa þrískiptan kveikibúnað og því er afskaplega flókið fyrir sprengjusérfræðingana að gera þær óvirkar.  Venjulega ættu sprengjur sem þessar að springa þegar þær hafa náð niður á ákveðið dýpi en þær eru á grunnsævi og hafa þess vegna ekki orðið virkar.  Öryggisbúnaður, sem venjulega er á slíkum sprengjum, hefur verið fjarlægður og því eru þær tilbúnar að springa þegar réttar aðstæður eru fyrir hendi, þ.e. við nægan þrýsting neðansjávar.  Í hvorri sprengjunni eru 215 kg. af efninu torpex en það er mun kraftmeira en sprengiefnið TNT og jafnast allt þetta sprengiefni á við 1 tonn af dýnamíti.    Vandinn sem sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar standa frammi fyrir er nálægð við íbúabyggð, staðsetning sprengjanna á grunnsævi og hversu viðkvæmur kveikibúnaðurinn er.  Ef sprengjurnar væru ekki svo nálægt íbúabyggð væri hægt að eyða þeim þar sem þær eru nú staðsettar.  Hugmyndin er hins vegar að færa þær lengra í burtu frá byggð áður en þær verða sprengdar.  Það verður gert með því að festa þær í pramma eða flottunnur og draga þær fjær Álftanesi með léttbát varðskips Landhelgisgæslunnar.   Sprengjusérfræðingar og kafarar Landhelgisgæslunnar munu í sameiningu vinna að því að gera sprengjurnar óvirkar í samstarfi við áhöfn varðskips Landhelgisgæslunnar, lögreglu, hafnaryfirvöld og Flugmálastjórn.  Reikna má með því að hávær hvellur heyrist í nágrenninu þegar sprengjurnar springa.  Það skal ítrekað að almenningi er engin hætta búin.     Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi    Adrian King sprengjusérfræðingur       Mynd:  Teikning af bandarískri MK 49 djúpsjávarsprengju.

Sprengingin kom fram á jarðskjálftamælum

Föstudagur 3. október 2003.   Annarri djúpsjávarsprengjunni, sem kafarar og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fundu út af Hliðsnesi á Álftanesi, var eytt kl. 17:45 í dag.  Sprengingin var svo öflug að hún kom fram á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar og mældist 1.6 á Ricther.   Starfsmenn Landhelgisgæslunnar hófu snemma í morgun að undirbúa eyðingu djúpsjávarsprengjanna tveggja sem fundust út af Hliðsnesi á Álftanesi. Sprengjusérfræðingar og kafarar Landhelgisgæslunnar fóru um borð í varðskip í Hafnarfjarðarhöfn og fór varðskipið frá bryggju fimm mínútur fyrir átta.  Þá var gert ráð fyrir að hægt yrði að eyða sprengjunum um hádegisbilið.   Farið var á slöngubát að staðnum kl. 9:41 og rétt fyrir kl. 10 hófu kafarar að athafna sig.  Þann 1. október sl., er þeir voru að rannsaka svæðið, höfðu þeir sett bauju á staðinn þar sem önnur sprengjan fannst svo auðvelt var að finna hana aftur.  Sú sprengja var síðan fest við flotpramma.    Fram eftir degi reyndu kafararnir árangurslaust að finna hina sprengjuna en allt kom fyrir ekki.  Um kl. 14:16 var ákveðið að hefjast handa við að lyfta þeirri sprengju sem komið hafði í leitirnar innan einnar klukkustundar og var lögregla látin vita um það.   Kl. 15:09 var verið að lyfta sprengjunni og 40 mínútum síðar var byrjað að draga hana fjær landi.  Eins og gefur að skilja varð að draga hana hægt og rólega og var hún færð alls 1 sjómílu frá strönd.    Eftir það var ákveðið að halda áfram að leita að hinni sprengjunni en það gekk ekki vel sökum lélegs skyggnis neðansjávar og mikils þara og var að lokum ákveðið að hætta leit vegna öryggis kafaranna.   Um kl. 15:48 sigldi skúta fyrir Valhúsagrunnsbauju og svaraði ekki kalli þannig að stýrimaður á léttabát varðskipsins hélt á eftir henni til að koma í veg fyrir að hún færi inn á hættusvæðið.   Tæpum hálftíma síðar eða um kl. 16:30 byrjuðu sprengjusérfræðingar að koma sprengiefni fyrir á flotprammanum og kl. 17:45 sprakk sprengjan og kom há súla uppúr sjónum með tilheyrandi drunum og höggbylgju.   Sprengjusérfræðingar og kafarar Landhelgisgæslunnar ráðgera að leita að hinni djúpsjávarsprengjunni eftir helgina og eyða henni.  Sú sprengja er ekki eins hættuleg og sú sem var eytt í dag því að kveikibúnaðinn vantar á hana.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands       Mynd: (C) MOTIV-MYND, Jón Svavarsson.jonmotiv@emax.is Frétta og ljósmyndaþjónusta.