Fréttayfirlit

Varðskýli Landhelgisgæslunnar á Faxagarði tekið í notkun

Föstudagur 29. október 2004. Varðskýli Landhelgisgæslunnar á Faxagarði var formlega tekið í notkun í dag.  Eins og fram kemur í frétt á heimasíðunni var Óðinn færður yfir á Faxagarð á miðvikudaginn og í dag fluttu vaktmenn sig yfir í nýja varðskýlið. Af því tilefni var haldið kaffiboð í varðskýlinu.  Sjá meðfylgjandi myndir sem Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður á varðskipinu Ægi tók við það tilefni. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Hafteinn Hafsteinsson forstjóri afhendir Steinari Clausen bryggjuverði fána með merki og kjörorði Landhelgisgæslunnar. Haraldur Haraldsson smiður og Kristján Þ. Jónsson yfirmaður gæsluframkvæmda máta nýja afgreiðsluborðið. Árni Ólason smyrjari starfar að jafnaði um borð í varðskipunum en bregður sér af og til í hlutverk vaktmannsins.

Áhafnir varðskipanna sækja reykköfunar- og slökkvinámskeið hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins

Miðvikudagur 27. október 2004.   Haustin eru tími æfinga og þjálfunar hjá Landhelgisgæslunni.  Árlega fara áhafnir varðskipa á námskeið í reykköfun og slökkvistörfum hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og eru meðfylgjandi myndir teknar á slíkri æfingu sem áhöfn varðskipsins Ægis sótti.   Byrjað er á bóklegri upprifjun í fræðunum og svo er farið í verklegar æfingar á æfingasvæði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins við Úlfarsfell.  Þar er líkt eftir skipsbruna með því að kveikja eld í gámum.  Landhelgisgæslumenn slökkva svo eldinn og æfa reykköfun.    Áhafnir varðskipanna nota eigin búnað, bæði búninga og fjarskiptatæki.  Ákveðinn hópur um borð í skipunum þjálfar reykköfun en allir um borð tengjast verkefninu með einhverjum hætti.  Mikilvægt er að viðhalda þekkingu á þessu sviði um borð í varðskipunum.  Árlegu námskeiðin eru liður í því auk þess sem áhafnir varðskipanna læra nýja tækni og aðferðir við að slökkva elda.   Námskeiðin hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eru mjög fagleg og hafa reynst vel.   Sjá meðfylgjandi myndir sem Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður á varðskipinu Ægi tók á dögunum þegar varðskipsmenn voru í verklegum æfingum við Úlfarsfell.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.   Menn að gera sig klára í slaginn. Jóhann Örn Sigurjónsson háseti og kafari, Rafn Sigurðsson háseti og Sigurður Óskarsson háseti.   Kveikt er bál í gámunum og þannig líkt eftir skipsbruna. Síðan æfa varðskipsmenn sig í að slökkva eld og reykkafa.   Ásmundur Pétursson háseti sótugur eftir bardaga við eld og reyk.

Ný hafnaraðstaða Landhelgisgæslunnar á Faxagarði tekin í notkun

Miðvikudagur 27. október 2004. Ný hafnaraðstaða Landhelgisgæslunnar á Faxagarði var formlega tekin í notkun í dag er varðskipið Óðinn var fært frá Ingólfsgarði yfir á Faxagarð.  Sjá meðfylgjandi myndir. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Mynd: Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður / Landfestar leystar á Ingólfsgarði. Mynd: Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður / Steinar Clausen bryggjuvörður í dyrum gamla varðskýlisins á Ingólfsgarði. Mynd DS: Haldið af stað frá Ingólfsgarði. Mynd DS: Ingvar Kristjánsson forstöðum. varðskipatæknideildar LHG og Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri voru mættir á Faxagarð þegar Óðinn lagðist að bryggju. Mynd DS: Guðmundur Emil Sigurðsson stýrimaður, Ragnar M. Georgsson fulltrúi í tæknideild, Magnús Örn Einarsson stýrimaður og Jónas Þorvaldsson sprengjusérfræðingur voru kallaðir tímabundið til starfa um borð í Óðni meðan á flutningi stóð. Mynd DS: Óðinn kominn á sinn stað við nýja varðskýlið á Faxagarði.    

Nemendur í Lögregluskólanum æfa sjóbjörgun hjá Landhelgisgæslunni

Miðvikudagur 20. október 2004.   Í vikunni var haldið námskeið í sjóbjörgun fyrir nemendur í Lögregluskólanum.  Landhelgisgæslan hefur undanfarin ár séð um að halda slík námskeið fyrir lögreglunema.  Það var upphaflega Thorben Lund yfirstýrimaður á Tý sem skipulagði námskeiðið og sá um það fyrstu árin en nú hefur Auðunn F. Kristinsson yfirstýrimaður í flugdeild umsjón með því.    Námskeiðið byrjar með hálfs dags bóklegri kennslu.  Byrjað er á kynningu á starfsemi Landhelgisgæslunnar og síðan eru nemendur fræddir um björgunartæki og léttbáta.  Þá er farið í rannsókn sjóslysa og lögbrota um borð í skipum og kennd undirstöðuatriði í móttöku þyrlu. Sjá fræðslu um móttöku þyrlu á heimasíðu Landhelgisgæslunnar á slóðinni: /displayer.asp?cat_id=27   Verklega námið stendur yfir í heilan dag.  Nemendur byrja á því að hittast við Reykjavíkurhöfn.  Þar skoða þeir varðskip og síðan er þeim skipt upp í þrjá hópa sem ganga milli þriggja æfingastöðva.  Einn hópur æfir sig í að bjarga fólki úr sjó og fær einnig þjálfun í að bregðast við þegar léttbátur með nokkra nemendur innanborðs hvolfir, annar hópurinn lærir að stjórna (zodiac) léttbátum og þriðji hópurinn lærir að fara með harðbotna björgunarbáta og björgun manna um borð í þá.   Þar næst er farið í kappsund í sjónum.  Allir þátttakendur eru klæddir björgunarbúningum og það eru talsvert öðruvísi sundtök sem menn þurfa að tileinka sér til að komast áfram í slíkri múnderingu miðað við venjulegt sund í sundlaug.   Að sundinu loknu fá lögregluskólanemar þjálfun í að sigla léttbátunum upp að skipi á ferð.  Námskeiðinu lýkur svo með því að allir lögregluskólanemarnir eru hífðir upp í þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flytur þá út á Reykjavíkurflugvöll en þar fá þeir kynningu um starfsemi flugdeildar.   Sjá meðfylgjandi myndir sem Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður tók í vikunni þegar æfingar stóðu yfir.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.   Lögregluskólanemar búa sig undir að stökkva í sjóinn.   Kappsund.   Thorben og Auðunn leiðbeindu á námskeiðinu.   Meðferð björgunarbáta æfð.   Allur hópurinn um borð í varðskipinu Ægi ásamt Auðunni F. Kristinssyni leiðbeinanda frá Landhelgisgæslunni lengst til hægri.   Allir nemendurnir voru fluttir með þyrlunni TF-LIF frá varðskipinu Ægi út í flugskýli Landhelgisgæslunnar við Reykjavíkurflugvöll þar sem þeir fræddust um starfsemi flugdeildarinnar.

Öryggisnámskeið fyrir sendifulltrúa Rauða krossins

Miðvikudagur 20. október 2004. Þórir Guðmundsson sviðsstjóri hjá Rauða krossinum segir frá öryggisnámskeiði fyrir sendifulltrúa Rauða krossins sem haldið var í Bláfjöllum um helgina á heimasíðu samtakanna með eftirfarandi orðum: Starfsmenn sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar, sérsveitar lögreglunnar og sjálfboðaliðar Rauða krossins lögðu sig alla fram um að gera öryggisnámskeið fyrir sendifulltrúa sem raunverulegast um helgina. Núverandi og tilvonandi sendifulltrúar auk nokkurra fréttamanna tóku þátt í námskeiðinu sem Kristín Ólafsdóttir verkefnisstjóri á landsskrifstofu skipulagði. Á síðustu árum hafa hættur sem hjálparstarfsmönnum eru búnar aukist verulega, eins og tölur um árásir á þá sýna. Byssumenn í Írak og Afganistan hafa beint spjótum sínum að starfsmönnum hjálparfélaga jafnt sem fréttamönnum og öðrum. „Það er mikilvægt að halda slík námskeið til þess að það fólk sem við sendum til verkefna sé eins vel undirbúið og hugsast getur,” sagði Kristín við þátttakendur undir lok námskeiðsins á sunnudag. Meðal fyrirlesara voru Gerald Anderson, öryggissérfræðingur bandaríska Rauða krossins, og Patrick Brugger yfirmaður öryggismála hjá Alþjóða Rauða krossinum. Öryggisnámskeiðið í Bláfjöllum er liður í því að búa sendifulltrúa Rauða kross Íslands undir störf á hættustöðum. Auk þess fara sumir á frekari námskeið hjá Alþjóða Rauða krossinum. Á hverju ári sendir félagið milli 15 og 25 manns til starfa erlendis, suma þeirra á átakasvæði. Nú eru til dæmis fjórir sendifulltrúar Rauða kross Íslands í Súdan, þar sem borgarastyrjöld geisar. Adrian King fór fyrir liði sprengjusérfræðinga frá Landhelgisgæslunni og sýndi þátttakendum í námskeiðinu hvernig varast megi jarðsprengjur. Talið er að rúmlega 100 milljón jarðsprengjur séu í jörð um heim allan auk þess sem ótrúlegur fjöldi sprengja, sem hefur verið varpað úr flugvél en ekki sprungið, bíður þess að börn og aðrir fari sér að voða. Sérsveitarmenn lögreglunnar í Reykjavík settu gíslatöku og skotárás á svið á eftirminnilegan hátt og fóru yfir mikilvæg atriði í samningaviðræðum við byssumenn. Með því að skjóta af byssu í gegnum bíl sýndi lögreglan hversu tilgangslaust er að reyna að fela sig á bak við bíla. Kúlurnar fóru í gegn eins og bíllinn væri úr smjöri. Á námskeiðinu var einnig farið yfir notkun staðsetningartækja, talstöðva, gervitunglasíma og bíla sem notaðir eru við hjálparstörf. Starfsmenn Símans mættu með sín tæki á staðinn og Toyota lánaði stóra jeppa á námskeiðið í því skyni. Sjá heimasíðu Rauða krossins á slóðinni:  http://www.redcross.is Mynd Landhelgisgæslan/Ágúst Magnússon: Adrian King sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar leiðbeinir þátttakendum um hvernig ber að varast jarðsprengjur. Sjá eftirlíkingu af jarðsprengju í jörðinni. Mynd Landhelgisgæslan/Adrian King: Jónas Þorvaldsson sprengjusérfræðingur sýnir þátttakendum bílasprengju og hvernig ber að leita í bílum að slíkum hlutum.

Flugrekstrarstjóraskipti hjá Landhelgisgæslunni

Þriðjudagur 19. október 2004. Björn Brekkan Björnsson þyrluflugmaður hefur tekið að sér að vera flugrekstrarstjóri Landhelgisgæslunnar.  Benóný Ásgrímsson sem sinnt hefur flugrekstrarstjórastarfinu farsællega sl. fjögur ár heldur áfram að vera yfirflugstjóri Landhelgisgæslunnar. Jafnframt hefur Sigurður Ásgeirsson þyrluflugstjóri verið ráðinn öryggisfulltrúi og þjálfunarstjóri og Þórarinn Ingi Ingason þyrluflugmaður hefur tekið að sér að vera umsjónarmaður fagbóka. Allir munu þeir áfram starfa sem þyrluflugmenn hjá Landhelgisgæslunni en taka ofangreind störf að sér aukalega.  Þetta fyrirkomulag hefur verið samþykkt af Flugmálastjórn. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Mynd DS:  Björn Brekkan Björnsson flugrekstrarstjóri, Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri og Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri.

Gönguferð dægradvalarklúbbs flugdeildar á Trölladyngju og Lambafell

Mánudagur 18. október 2004. Dægradvalarklúbbur flugdeildar Landhelgisgæslunnar skipulagði gönguferð á Keili í dag.  Veðrið var frekar slæmt, rok og hiti við frostmark þannig að þáttaka var heldur dræm.  Aðeins mættu þrír starfsmenn Landhelgisgæslunnar.  Það voru þau Dóróthea Lárusdóttir fulltrúi í flugdeild, Sigurður Ásgeirsson þyrluflugstjóri og Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur.  Einnig mætti Guðjón Jóhannesson bakari og útivistarmaður, vinur Sigurðar.  Vegna veðurs og skyggnis var ákveðið að ganga frekar á Trölladyngju en Keili. Gönguferðin heppnaðist vel og tók alls tvo tíma með smá útúrdúr í sprungunni sem gengur í gegnum Lambafell.  Það er von göngugarpanna að samstarfsmenn standi sig betur næst og láti ekki veður og vinda hamla för.  Sjá meðfylgjandi myndir. Mynd SÁ:  Dagmar, Dóróthea og Guðjón í sprungunni á Lambafelli. Áhöfn TF-LIF notar sprunguna stundum til sigæfinga.  Mynd DS:  Sigurður lætur hvorki kulda né myrkur aftra sér.  Göngumenn þurftu að hafa lugtir á enninu til að sjá fram fyrir fæturnar á sér og notast var við gps-staðsetningartæki til að villast ekki í myrkrinu.

Rússarnir farnir

Laugardagur 16. október 2004. Rússnesku herskipin sem hafa haldið sig á Þistilfjarðargrunni undanfarna daga eru nú farin af svæðinu.  Landhelgisgæslan leigði flugvél flugmálastjórnar, TF-FMS, til að fara í eftirlitsflug í morgun og kom þá í ljós að skipin höfðu siglt á brott.  Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Rússneska beitiskipið Pétur mikli og eitt af dráttarskipum rússneska sjóhersins.

Sprengjuleit á Reykjanesi

Þriðjudagur 12. október 2004. Landhelgisgæslan stóð fyrir sprengjuleit á svæðinu norðvestur af Stapafelli á Reykjanesi í samstarfi við Varnarliðið í síðustu viku.  Alls tóku 25 starfsmenn vopnadeildar Varnarliðsins þátt í sprengjuleitinni.  Slíkar leitir eru gerðar reglulega á æfingarsvæðum og sprengjueyðingarsvæðum á Reykjanesi sem Varnarliðið hefur haft til afnota.  Við leitina fannst  mikið af sprengifimum hlutum, sprengjubrotum, skotfærum og púðri.  Svæðið norðvestur af Stapafelli var notað sem sprengjueyðingarsvæði fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli.  Landhelgisgæslan notar svæðið einnig af og til að eyða sprengjum fyrir varnarliðið þar sem Landhelgisgæslan tók alfarið við þeim málaflokki fyrir Varnarliðið árið 2002. Á þessu ári hefur Landhelgisgæslan staðið fyrir leit á svæðinu í kringum Kleifarvatn, Vogaheiði og Stapafell með góðum árangri.  Fundist hafa yfir 100 hlutir sem hefur verið eytt. Svæðið sem leitað var í síðustu viku er mjög vel merkt með skiltum en ekki afgirt.  Það er mikilvægt að fólk sem finnur torkennilega hluti á svæðinu láti vera að snerta þá og láti Landhelgisgæsluna eða lögreglu vita við fyrsta tækifæri. Á meðfylgjandi myndum sem Adrian King sprengjusérfræðingur hjá Landhelgisgæslunni tók má sjá starfsmenn bandaríska sjóhersins sem tóku þátt í leitinni og kveikjubúnað og forsprengju sem fannst við leitina í síðustu viku.  Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Fosfórblys kom upp með veiðarfærum fiskiskipsins Draupnis

Þriðjudagur 12. október 2004. Skipverjar á fiskiskipinu Draupni höfðu samband við sprengjudeild Landhelgisgæslunnar í gær vegna torkennilegs illa lyktandi hlutar sem kom upp með veiðarfærum skipsins er það var að veiðum á Selvogsbanka. Skipið kom um miðnættið til Þorlákshafnar og fóru þá sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar um borð og rannsökuðu hlutinn.  Það reyndist vera fosfórblys af gerðinni Mark 58.  Slík blys eru notuð við leit og björgun og herir innan NATO nota þau einnig til að merkja svæði. Blysin gefa frá sér reyk og birtu sem hægt er að greina í allt að 5 km. fjarlægð.  Blysið sem hér um ræðir er eitt af þeim stærstu sinnar tegundar og inniheldur bæði sprengiefni og fosfór.  Fosfór er rokgjarnt efni sem brennur þegar það kemst í snertingu við andrúmsloft.  Það veldur skærum loga sem getur orðið allt að þrír metrar að lengd og af honum kemur hvítur reykur sem er mjög eitraður.  Slíkum blysum er venjulega kastað í sjóinn úr þyrlum eða flugvélum. Jafnvel þótt slík blys virki eins og ætlast er til verða ávallt eftir leifar af óbrunnum fosfór sem getur kviknað í hvenær sem er, sérstaklega ef hann nær að þorna.  Þess vegna var skipverjum ráðlagt að geyma blysið úti á dekki á einöngruðum og öruggum stað þar til sprengjusérfræðingar kæmu að fjarlægja það.  Sprengjusérfræðingarnir fjarlægðu blysið og eyddu því.  Blysið hafði ekki virkað sem skyldi en í því voru sprungur sem ollu því að fosfórinn lak út.  Af og til finnast slík blys á ströndum landsins.  Mikilvægt er að fólk láti vera að snerta þau og hafi samband við Landhelgisgæsluna eða lögreglu sem fyrst. Á meðfylgjandi myndum, sem Adrian King sprengjusérfræðingur hjá Landhelgisgæslunni tók, má sjá blysið sem kom upp með veiðarfærum Draupnis. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.    

Fjögur skip á vegum rússneska sjóhersins enn á Þistilfjarðargrunni

Mánudagur 11. október 2004. Landhelgisgæslan hefur fylgst með rússneskum herskipum fyrir norðaustan land frá því að áhöfn TF-SYN sá þau fyrst í gæsluflugi 29. september sl.  Varðskip hefur verið á svæðinu að fylgjast með og leigði Landhelgisgæslan flugvél Flugmálastjórnar, TF-FMS, til að halda uppi eftirliti á svæðinu eftir að TF-SYN fór í skoðun 1. október sl. Á sunnudagsmorguninn lét skipherrann á flugmóðurskipinu Admiral Kuznetsov skipherrann á varðskipi Landhelgisgæslunnar vita að skipin færu af svæðinu eftir 24 klst.  Átta tímum síðar hélt flugmóðurskipið á brott.  Tvö önnur skip héldu af svæðinu í morgun.   Eftir varð herskipið Pétur mikli, eitt birgðaskip og tvö dráttarskip.  Er skipherrann á varðskipinu hafði samband við skipherrann á Pétri mikla um kl. 14:30 í dag sagðist hann ætla að halda á brott eftir 36 klst. Um níuleytið í morgun flaug norsk P-3 Orion flugvél yfir svæðið og upp úr hádeginu urðu varðskipsmenn varir við breska Nimrod vél á svæðinu og flaug hún í burtu um kl. 15. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Pétur mikli og einn dráttarbátur.  

Tveir létust í alvarlegu umferðarslysi í Þjórsárdal - TF-LIF flutti tvo slasaða farþega á sjúkrahús

Sunnudagur 10. október 2004.Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 11:10 og tilkynnti um alvarlegt umferðarslys í Þjórsárdal suður af bænum Skriðufelli í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.  Bíll með sjö manns innanborðs hafði oltið. Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út, með bráðaútkalli.TF-LIF fór í loftið kl. 11:36 og var komin á staðinn kl. 12:.07.  Þá var ökumaður bílsins og einn farþegi látinn.  Þrír slasaðir höfðu verið fluttir með sjúkrabíl en tvö voru flutt með þyrlunni á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss í Fossvogi.  Þyrlan lenti þar kl. 12:53.  Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Rússnesk herskip norðaustur af landinu

Laugardagur 9. október 2004. Í gæsluflugi Landhelgisgæslunnar í dag var komið að sjö rússneskum herskipum sem lágu fyrir akkeri 8-15 sjómílur utan við 12 sjómílna landhelgismörkin norðaustur af Raufarhöfn.  Skipin hafa verið á æfingu austur og norðaustur af Íslandi undanfarna daga. Áhöfn TF-SYN, flugvélar Landhelgisgæslunnar, varð fyrst vör við skipin 29. september.  Landhelgisgæslan hefur ekki fengið tilkynningar um heræfingar frá rússneskum yfirvöldum. Um er að ræða eftirtalin skip:  Flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov (síðunúmer 063) en það er 58 þúsund tonn og 304 metra langt, beitiskipið Pyotr Velikiy (síðunúmer 099) en það er 24.300 tonn að stærð og 252 metra langt, Marshal Ustinov (síðunúmer 055) en það er 11.500 tonn að stærð og 186 metra langt, Besstrashny (síðunúmer 434) en það er 7.900 tonn og 156 metra langt og birgðaskipið Segey Osipov en það er 23.400 tonn og 162 metra langt.  Auk framangreindra skipa eru tvö björgunar- og dráttarskip á svæðinu. Annað þeirra heitir Altay og er 4000 tonn og 93 metra langt.  Hitt skipið er merkt einkennisstöfunum SB-406 en það er 300 tonn og 69 metrar að lengd.Flugmóðurskipið og birgðaskipið voru tengd saman með olíuslöngu þegar sást til þeirra og voru þau að öllum líkindum að umskipa olíu.  Á myndum af skipunum sést stór olíuflekkur aftan úr þeim.  Öll skipin tilheyra rússneska  sjóhernum. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Keilukeppni Landhelgisgæslunnar og áhafnar danska varðskipsins Tritons

Föstudagur 8. október 2004. Eftir vel heppnað fótboltamót Landhelgisgæslunnar og dönsku varðskipanna Triton og Vædderen 4. september síðastliðinn var ákveðið að skipuleggja fleiri mót næst þegar varðskipin kæmu til Íslands.  Í síðustu viku var danska varðskipið Triton í Reykjavíkurhöfn og var af því tilefni haldin keilukeppni í Öskjuhlíð.   Það er skemmst frá því að segja að varðskipið Triton sigraði Landhelgisgæsluna með nokkrum  yfirburðum.  Um það bil 10 starfsmenn Landhelgisgæslunnar börðust þó eftir mætti gegn ofureflinu, sem samanstóð af 15 Tritonmönnum, og hafa fregnir borist af því að a.m.k. fjórir þeirra séu í keppnisliðum í íþróttinni heima fyrir.   Sjá meðfylgjandi myndir úr keppninni.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.   Mynd: DS. Ásgrímur Ásgrímsson deildarstjóri sjómælingadeildar átti stjörnuleik og var stigahæstur Landhelgisgæslumanna.   Mynd DS: Ágúst Magnússon stýrimaður í sjómælingadeild ræðir við Lasse og Steffan úr áhöfn Tritons.   Mynd DS: Frank ,,Tritons head of operations" var langstigahæstur og komast greinilega fáir með tærnar þar sem hann hefur hælana í keilu.   Mynd DS: Öflugi bókarinn María Norðdahl stóð sig best í kvennahópnum.   Mynd: DS:  Kristján Þ. Jónsson yfirmaður gæsluframkvæmda og Thorben Lund yfirstýrimaður á varðskipinu Tý áttu góða spretti í keilunni.            

Danski herinn gefur Landhelgisgæslunni sérútbúnar bifreiðar og vélmenni til sprengjueyðingar

Þriðjudagur 5. október 2004.   Dómsmálaráðherra og forstjóri Landhelgisgæslunnar tóku formlega við tveimur sérútbúnum bifreiðum og tveimur vélmennum til sprengjueyðingar ásamt tilheyrandi búnaði að gjöf frá danska hernum við Þjóðmenningarhúsið í dag.   Landhelgisgæslan hefur verið í miklum og góðum samskiptum við danska herinn í áratugi og hafa sprengjusérfræðingar stofnunarinnar m.a. sótt menntun og þjálfun til hans.     Þegar forstjóri og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru í heimsókn hjá danska hernum í febrúar á þessu ári var þeim m.a. boðið að skoða útbúnað sprengjueyðingarsveitar danska landhersins.  Við það tækifæri var upplýst að fyrirhugað væri að endurnýja hann seinna á árinu.  Í framhaldi af því ákvað danski herinn að gefa Landhelgisgæslunni þann búnað sem verið var að skipta út.   Vélmennin, sem eru af gerðinni HOBO, eru smíðuð í Írlandi.  Hægt er að fjarstýra þeim í leit að sprengjum og við eyðingu þeirra og draga þannig úr hættu á að sprengjusérfræðingar slasist eða látist við skyldustörf.  Helstu kostir vélmennanna, umfram það vélmenni sem Landhelgisgæslan á fyrir, eru að hægt er að nota þau til fjölbreytilegri verkefna og með skjótvirkari hætti.  Þau eru einnig talsvert aflmeiri.  Vélmennin eru flutt milli staða með bifreiðum sem eru sérútbúnar í þeim tilgangi.  Í þeim eru margs konar tæki sem sprengjusérfræðingar nota, t.d. myndavélar og vopn til sprengjueyðingar.    Það er mikil framför fyrir Landhelgisgæsluna að fá þennan búnað og er mikilsvert framlag til öryggismála á Íslandi.    Fjórir fulltrúar danska hersins verða hér á landi næstu daga til að kenna sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar á búnaðinn og þjálfa þá í notkun hans.    Sjá meðfylgjandi myndir sem teknar voru við Þjóðmenningarhúsið í dag þegar dómsmálaráðherra og forstjóri Landhelgisgæslunnar tóku formlega við gjöfinni. Ræðismaður Dana og fulltrúar danska hersins afhentu gjöfina.  Viðstaddir voru sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar, yfirmenn frá dómsmálaráðuneytinu og Landhelgisgæslunni og  fulltrúi Eimskipafélagsins en Eimskip tók að sér, endurgjaldslaust, að flytja vélmennin og bifreiðarnar til Íslands frá Danmörku.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.     Mynd DS:  Sigurður Ásgrímsson sprengjusérfræðingur, Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, Þorsteinn Davíðsson aðstoðarmaður ráðherra, Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri og Stefán Eiríksson skrifstofustjóri virða fyrir sér nýja vélmennið.  Inni í sérútbúnu bifreiðinni er Ágúst Magnússon sprengjusérfræðingur að stjórna vélmenninu.      Mynd DS: Dönsku sprengjusérfræðingarnir ásamt Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra, Hafsteini Hafsteinssyni forstjóra, Þorsteini Geirssyni ráðuneytisstjóra og Þorsteini Davíðssyni aðstoðarmanni ráðherra fyrir utan Þjóðmenningarhúsið í dag.     Mynd: Adrian King:  Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Jónas Þorvaldsson sprengjusérfræðingur virða vélmennið fyrir sér. 

TF-SYN kom til landsins í dag eftir bráðabirgðaviðgerð í Færeyjum

Laugardagur 2. október 2004. TF-SYN kom frá Færeyjum á sjöunda tímanum í dag.  Eins og fram kom í gær varð að fá varahlut frá Luxemburg sem flugvél Flugmálastjórnar sótti þangað og kom til Færeyja. Tæknistjóri flugdeildar og flugvirki gerðu bráðabirðgaviðgerð á vélinni með því að koma varahlutnum fyrir og fékkst leyfi frá Flugmálastjórn til að ferja flugvélina til landsins þar sem fullnaðarviðgerð verður framkvæmd.  Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.
Síða 1 af 2