Fréttayfirlit: ágúst 2002

Neyðarflugeldi skotið upp án þess að hætta væri fyrir hendi

Föstudagur 30. ágúst 2002. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk nokkrar tilkynningar um neyðarflugeld á ellefta tímanum í gærkvöldi.  Tilkynningarnar voru nokkuð misvísandi en flugeldurinn var ýmist talinn hafa verið yfir Skerjafirði, vestur af Kársnesi eða í átt að Garðskaga.  Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út.  Í framhaldi af því var haft samband við Tilkynningarskylduna en þangað höfðu borist fjölmargar tilkynningar vegna flugeldsins og voru þær einnig nokkuð misvísandi. Er upplýsingar bárust um það frá lögreglunni, að tveir lögreglumenn, staddir á efstu hæð á Hótel Sögu, hefðu séð  blysið koma upp frá landi, var ákveðið að hætta við að senda þyrluna af stað.  Um kl. 23:34 var stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynnt að lögreglan hefði fundið leifar af neyðarflugeldi á hafnarsvæðinu í Kópavogi en honum hafði augljóslega verið skotið upp stuttu áður. Vegna þessa atviks var ekki eingöngu þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar kölluð út. Menn frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu fóru til leitar á þremur gúmmíbjörgunarbátum og starfsmenn stjórnstöðva Landhelgisgæslunnar og Tilkynningarskyldunnar auk lögreglunnar höfðu af þessu talsverða fyrirhöfn. Ekki þarf að fjölyrða um þá hættu og þann kostnað sem skapast af framferði sem þessu. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands.

Flugvélin reyndist vera norsk af gerðinni Northrop

Fimmtudagur 29. ágúst 2002. Komið hefur í ljós að herflugvélin sem sjómælingamenn Landhelgisgæslunnar fundu í fyrradag á hafsbotni í Skerjafirði er norsk og af gerðinni Northrop.  Kafarar, sjómælingamenn og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fóru eftir hádegið í gær að flakinu á sjómælingabátnum BALDRI og voru í alls sjö tíma að rannsaka það.  Strax kom í ljós að vélin er eins hreyfils og búin vélbyssum. Einnig sást móta fyrir norska fánanum á flakinu.  Er rannsókn lauk á níunda tímanum í gær var talið öruggt að hér væri um norska herflugvél að ræða af gerðinni Northrop en mælingar á vænghafi og hlutföllum flugvélarinnar að öðru leyti renndu stoðum undir þá ályktun. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Sjómælingamenn fundu flugvélarflak á hafsbotni í Skerjafirði

Miðvikudagur 28. ágúst 2002. Starfsmenn Sjómælinga Íslands, sem er deild innan Landhelgisgæslunnar, hafa undanfarnar vikur notað fjölgeislamæli við mælingar á hafsbotni en bandaríski sjóherinn lánaði stofnuninni mælinn til notkunar í sumar. Mælt hefur verið á grunnsævi frá Kjalarnesi og suður fyrir Gróttu og nú er verið að mæla hafsbotn í Skerjafirði. Í gær fundu sjómælingamenn Landhelgisgæslunnar flugvélarflak á hafsbotninum þar. Fundur þessi er til marks um það hversu öflugt tækið er og nýtist vel bæði við rannsóknarstörf og við leit á botninum. Ekki er vitað hvaða flugvélarflak er um að ræða en með fundinum í gær gefst möguleiki á að kanna það betur. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Flugvélarflakið reyndist vera vopnum búin herflugvél úr seinni heimstyrjöldinni

Miðvikudagur 28. ágúst 2002. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar ( þrír kafarar, sprengjusérfræðingur og sjómælingamenn ), fóru í dag á sjómælingabátnum BALDRI inn Skerjafjörð að þeim stað þar sem flugvélarflak fannst í gær. Nú eru kafarar að rannsaka flakið en þegar hefur komið í ljós að hér er um eins hreyfils herflugvél að ræða, úr seinni heimstyrjöldinni, og er hún vopnuð skotfærum og sprengjum. Á meðan verið er að rannsaka flakið er öll köfun á svæðinu bönnuð. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands.

Leit að ítalska ferðamanninum bar engan árangur

Mánudagur 26. ágúst 2002. Á laugardaginn leitaði þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, í Gjögurfjalli, Þorkelsfirði og víðar að ítalska ferðamanninum Davide Paite að beiðni lögreglunnar á Akureyri.  Fjöldi björgunarsveitarmanna, m.a. með hunda, leituðu á svæðinu frá Grenivík út á Látraströnd en leitin bar engan árangur. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Kafarar Landhelgisgæslunnar fundu líkamsleifar í Reykjavíkurhöfn

Mánudagur 26. ágúst 2002. Kafarar Landhelgisgæslunnar fengu það verkefni að leita að sprengjum í Reykjavíkurhöfn vegna komu bandarísku flotadeildarinnar um síðustu helgi.  Var það gert í samstarfi við lögregluna í Reykjavík.  Engar sprengjur voru sjáanlegar eins og við var að búast en hins vegar fundu kafarar Landhelgisgæslunnar líkamspart af manni á sjávarbotni innan hafnarinnar.  Lögreglan rannsakar nú málið. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Beiðni um þyrlu vegna umferðarslyss afturkölluð

Miðvikudagur 21. ágúst 2002. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 17:59 og tilkynnti um umferðarslys við Landsvegamót en þar höfðu rúta og fólksbifreið lent saman.  Óskað var eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar til að sækja alvarlega slasaða konu og fór TF-SIF í loftið kl. 18:19.  Tveimur mínútum síðar lét Neyðarlínan vita að læknir á staðnum hefði úrskurðað hina slösuðu látna og ekki væri þörf á þyrlu.  TF-SIF var því snúið við og lent kl. 18:24 á Reykjavíkurflugvelli. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Tilkynnt um neyðarblys

Fimmtudagur 22. ágúst 2002. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst tilkynning frá Neyðarlínunni um ellefuleytið í gærkvöldi um að fólk sem statt var við Tröllahóla á Selfossi og fólk í Landeyjum hafi séð fjögur rauð blys á lofti í átt að Þjórsárósum.  Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafði þá samband við m/b HRUNGNIR GK sem staddur suður af Þjórsárósum en áhöfnin hafði ekki orðið vör við blysin.  Báturinn hélt áleiðis að árósunum og áhafnir annarra báta á svæðinu voru einnig látnar vita. Auk bátanna, óku lögreglumenn frá Selfossi að árósunum og urðu einskis varir. Skyggni var gott á svæðinu. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

Sleginn í höfuðið með flösku

Laugardagur 17. ágúst Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. fimm um morguninn vegna slasaðs manns í Stykkishólmi.  Hann hafði verið fluttur á spítala eftir að hafa verið sleginn í höfuðið með flösku og óskaði læknir eftir þyrlu til að flytja hann á sjúkrahús í Reykjavík.  TF-SIF fór í loftið um hálftíma síðar og lenti í Stykkishólmi kl. 6. Var maðurinn kominn á Landspítala Háskólasjúkrahús um kl. 6:30. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Rangfærslur um leit að ítölskum ferðamanni leiðréttar

Þriðjudagur 20. ágúst 2002. Undanfarna daga hafa fjölmiðlar fjallað mikið um umfangsmikla leit að ítölskum ferðamanni. Talið er að hann hafi farið út á Látraströnd en það hefur ekki verið hægt að sýna fram á það með óyggjandi hætti.  Ýmis konar rangfærslur um Landhelgisgæsluna hafa komið fram í þeirri umfjöllun sem nauðsynlegt er að leiðrétta.  Rétt er að Landhelgisgæslunni barst beiðni 15. ágúst sl. um að aðstoða við leitina með þyrlu. Ekki reyndist hægt að verða við beiðninni þegar í stað vegna veðurs. TF-SIF var send á leitarsvæðið laugardagsmorguninn 17. ágúst sl. eftir að veður hafði gengið niður og fór yfir allt það leitarsvæði sem henni  var ætlað að kanna.  Að sögn áhafnar þyrlunnar var það svæði eins vel leitað og mögulegt er úr þyrlu.  Er þyrlan var á leið til Akureyrar til að taka eldsneyti eftir að leit var lokið, kom í ljós sprunga á ytra byrði í framrúðu þyrlunnar. Það er því rangt að leit hafi verið hætt vegna bilunar. Sama kvöld var aftur óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar.  Ekki var talið ásættanlegt að senda þyrluna með ærnum tilkostnaði á svæðið á ný þar sem svo margir óvissuþættir voru í málinu en það var skýrt tekið fram af hálfu Landhelgisgæslunnar að ef nýjar vísbendingar kæmu fram í málinu yrði það endurskoðað af hálfu stofnunarinnar. Í fréttum var einnig ranglega haft eftir yfirmanni gæsluframkvæmda að lögregluyfirvöld gætu leigt þyrlu til leitarinnar en það rétta er að hann benti á að hægt væri að leigja flugvél frá Akureyri til leitarinnar og það væri mun kostnaðarminna.  Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Fjármálaráðuneytið úrskurðar að hafna beri beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda af nætursjónaukum

Miðvikudagur 14. ágúst 2002. Landhelgisgæslan sótti í fyrra um niðurfellingu aðflutningsgjalda af nætursjónaukum og hafnaði Tollstjórinn í Reykjavík þeirri beiðni.  Sú ákvörðun var kærð til úrskurðar sama embættis sem úrskurðaði að hafna bæri beiðni Landhelgisgæslunnar.  Úrskurður Tollstjórans í Reykjavík var þá kærður til fjármálaráðuneytisins sem hefur nú staðfest hann. Úrskurðurinn byggir á því að þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslunnar sé ekki björgunarsveit í skilningi laga og reglugerða sem kveða á um niðurfellingu aðflutningsgjalda af björgunarbúnaði.  Í úrskurðinum segir m.a.: ,,Það er kveðið á um það í 11. tl. 6. gr. tollalaga að tollur skuli lækka, falla niður eða endurgreiðast af björgunarbúnaði og björgunartækjum, enda liggi fyrir samþykki landssamtaka björgunarsveita á að búnaðurinn verði einungis nýttur til í starfsemi björgunarsveita.  Nánar er kveðið á um skilyrðið um samþykki landssambands björgunarsveita í 2. mgr. 12. gr. reglugerðar um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum þar sem áskilið er að samstarfsnefnd um endurgreiðslu aðflutningsgjalda hafi yfirfarið og fallist á beiðni um undanþágu aðflutningsgjalda.  Samstarfsnefndin er sett á fót með reglum fjármálaráðuneytisins um framkvæmd endurgreiðslu aðflutningsgjalda og virðisaukaskatts af björgunartækjum, hinn 21. febrúar 1991.  Í 2. gr. reglnanna er kveðið á um að nefndin skuli skipuð fulltrúum landssamtaka björgunarfélaganna þriggja og fulltrúum bíla- og vélanefndar.  Í dag hafa landssamtök björgunarfélaganna sameinast undir merkjum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Það er mat ráðuneytisins að fyrirvarinn um samþykki samstarfsnefndarinnar komi til athugunar þegar hugtakið ,,björgunarsveit" í 11. tl. 6. gr. tollalaga er skýrt.  Ráðuneytið telur að skilyrðið um samþykki nefndarinnar, þar sem landssamtök björgunarsveita eiga fulltrúa, feli í sér afmörkun þeirra björgunarsveita sem geta sótt rétt samkvæmt ákvæðinu, þ.e. átt sé við þær sveitir sem starfa innan vébanda Slysavarnarfélagsins Landsbjargar en félagið gegnir eins og áður sagði hlutverki landssamtaka björgunarsveita.  Samkvæmt 3. gr. reglna fjármálaráðuneytisins er afgreiðsla nefndarinnar bundin því skilyrði að skrifleg umsókn berist frá landssamtökum björgunarsveita.  Sá áskilnaður styður þá túlkun sem ráðuneytið setur fram í úrskurði þessum.  Með vísan í framantalið og að öðru leyti með vísan til hins kærða úrskurðar er hann staðfestur." Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

Fallbyssuskot í heiðursskyni

Miðvikudagur 14. ágúst 2002. Rússneska herskipið Admiral Tchabanenko sigldi út úr Reykjavíkurhöfn kl. 10:30 í morgun.  Samkvæmt alþjóðlegum prótókollreglum ber við slík tækifæri að heiðra þjóðfána heimaríkis herskipsins með 21 fallbyssuskoti. Við brottför var 21 fallbyssuskoti skotið frá rússneska herskipinu til heiðurs íslensku þjóðinni og fána Íslands.  Á móti skutu sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar 21 fallbyssuskoti frá varðskipinu ÆGI til heiðurs rússnesku þjóðinni og fána Rússlands. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Tilkynnti sig út undir röngu bátsnafni og númeri

Þriðjudagur 13. ágúst 2002 Um kl. 14:57 hafði Tilkynningarskyldan samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar en starfsmenn þar höfðu áhyggjur af afdrifum tveggja tonna plastbáts þar sem hann hafði dottið út úr sjálfvirka tilkynningarkerfinu og svaraði ekki kalli frá Reykjavíkurradíói.  TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, var send af stað til leitar og fann bátinn uppi í fjöru í Hvalseyjum út af Mýrum í Borgarfirði um kl. 16:21.  Stýrimaður þyrlunnar seig niður að bátnum og var hann mannlaus og leit ekki út fyrir að hafa verið hreyfður í dag.  Vitað var að eigandi bátsins á annan bát nokkuð stærri en sá bátur var ekki sjáanlegur í eyjunni.  Var þá haldið til leitar að hinum bátnum sem fannst stuttu síðar eða um kl. 16:50. Áhöfn þyrlunnar náði sambandi við bátsverja sem voru tveir og kom í ljós að talstöð bátsins var óvirk.  Engin skýring var gefin á því hvers vegna eigandinn tilkynnti sig út undir röngu bátsnafni og númeri. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

Bandaríski sjóherinn lánar Landhelgisgæslunni fjölgeislamæli

Föstudagur 9. ágúst 2002. Hér á landi eru staddir tveir fulltrúar frá Hafrannsóknarstofnun bandaríska sjóhersins af því tilefni að stofnunin hefur lánað Landhelgisgæslunni fjölgeislamæli til notkunar um borð í sjómælingabátnum Baldri. Þeir komu búnaðinum fyrir um miðjan júlímánuð og eru um þessar mundir að leiðbeina sjómælingamönnum Landhelgisgæslunnar hvernig nota á hann. Hingað til hefur Landhelgisgæslan eingöngu haft eingeislamæli til sjómælinga. Munurinn á slíkum mæli og fjölgeislamæli er sá að eingeislamælirinn mælir einn punkt á hafsbotni í einu en fjölgeislamælirinn sýnir heildstæða botnmynd. Kostir við notkun fjölgeislamælis eru mestir á grunnsævi þar sem hætta er á skipsströndum ef mönnum sést yfir eina mishæð á botninum. Mikið hagræði er í því fyrir Landhelgisgæsluna að fá þennan búnað að láni enda geta sjómælingamenn stofnunarinnar þannig metið kosti og galla hans og borið saman við annars konar mæla af þessari tegund ef ráðist verður í kaup á fjölgeislamæli fyrir Landhelgisgæsluna í framtíðinni. Frá því um miðjan júlí hafa sjómælingamenn Landhelgisgæslunnar ásamt fulltrúum bandaríska sjóhersins verið að mæla svæðið frá Kjalarnesi og suður fyrir Gróttu. Þrátt fyrir að hér sé um þjálfunarverkefni að ræða munu mælingarnar nýtast Landhelgisgæslunni að fullu til kortagerðar og annarra verkefna. Hefur meðal annars verið gerð tilraun til að finna flak Goðafoss út af Garðskaga. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Útköll og fréttir af starfsemi Landhelgisgæslunnar frá 12. júlí - 6. ágúst.

Frá því 11. júlí sl. hefur verið hlé á fréttatilkynningum á heimasíðu Landhelgisgæslunnar.  Skýrist það m.a. af sumarleyfum.  Fréttaþyrstir hafa þó eflaust fengið sinn skerf af fréttum af starfsemi Landhelgisgæslunnar í öðrum fjölmiðlum sem jafnan eru í góðu sambandi við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.  Frá og með deginum í dag verður haldið áfram þar sem frá var horfið og fréttatilkynningar settar á heimasíðuna jafnóðum og tilefni gefast. Í stuttu máli eru atburðir sl. vikna eftirfarandi: 12. júlí 2002.   Rannsókn sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar um borð í bandarískri einkaþotu en þar hafði fundist grunsamleg einnota myndavél sem límband hafði verið vafið utan um. 13. júlí 2002.   Áhöfn TF-SIF kölluð út vegna hörmulegs slyss á tjaldstæði við Varmaland í Borgarfirði er fimm ára stúlka varð fyrir bíl.  Lífgunartilraunir báru ekki árangur.  17. júlí 2002.   Fjörutíu til fimmtíu kíló af dínamíti fundust í fjörunni við Sandgerði.  Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar kallaðir út til að rannsaka efnið og tóku það í sína vörslu. 17. júlí 2002.  Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti slasaðan sjómann um borð í Höfrung III en skipið var statt djúpt vestur af Snæfellsnesi.  Sjómaðurinn var fluttur á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi þar sem hann gekkst undir aðgerð. 20. júlí 2002.   Í Ríkisútvarpinu var haft eftir Guðjóni Ármanni Einarssyni, framkvæmdastjóra skipstjóra- og stýrimannafélagsins Öldunnar, að undarlegt þætti að þyrla Landhelgisgæslunnar væri notuð af ráðamönnum til skoðunarferða þegar ekki væru til nægir peningar til að halda úti eftirliti með Landhelginni.  Tilefni ummælanna var ferð þeirra Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og doktor Janez Drnovsek, kollega hans frá Slóveníu að Geysi í byrjun júlí sl.  Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri Landhelgisgæslunnar sagði að þetta væri orðið algengara en áður, að þyrla væri lánuði til ráðuneyta, vísindamanna eða annarra.  Öryggissjónarmið gengju þó alltaf fyrir og þetta væri gert gegn gjaldi og kæmi því ekki niður á fjárhag stofnunarinnar. 22. júlí 2002.   Í fréttum Ríkissjónvarpsins kom fram að sjómenn væru mjög ósáttir við þá ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, að leggja varðskipinu Óðni en með því ættu að sparast um 32 milljónir króna í rekstri Landhelgisgæslunnar og þar með yrðu aðeins tvö varðskip sem annast ættu gæslu í 200 sjómílna lögsögunni. 28. júlí 2002.   Fréttaflutningur vegna greinar Guðbrands Jónssonar þyrluflugmanns í Morgunblaðinu þar sem hann véfengir rannsókn á því þegar minni þyrla Landhelgisgæslunnar skemmdist í eftirlitsflugi við Snæfellsnes 25. maí í fyrra. Guðbrandur hélt því fram, eftir skoðun á gögnum málsins, að þyrluflugmenn Landhelgisgæslunnar hafi verið í lágflugi þegar þetta átti sér stað og skemmdir hafi hlotist með því að eitt blaðið fór í fjallshlíðina.  Menn hafi verið að leika sér og séu að fela strákapörin með þeim skýringum sem gefnar hafa verið. Einnig hélt hann því fram að rannsóknarniðurstöður sýndu fram á samtryggingu ríkisstofnana sem séu fela það sem raunverulega gerðist. Í fréttum Ríkissjónvarpsins var fjallað um þetta mál.  Þar kom m.a. fram: Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri Landhelgisgæslunnar vísaði öllum fullyrðinum Guðbrands á bug og sagði ekkert í grein hans rétt nema hugsanlega dagsetningar.  Þormóður Þormóðsson, formaður rannsóknarnefndar flugslysa hafnaði einnig kenningum Guðbrands.  Hann sagði að öllum gögnum hefði borið saman við vitnisburði þyrluáhafnarinnar, þar á meðal voru hljóðritanir af samtölum áhafnar, samskiptum við flugumferðarstjórn og hljóðum vélarinnar.  GPS-tæki sem sýndi flug vélarinnar, hraða, hæð og flugstefnu.  Einnig ratsjármynd flugsins.  Farið sem Guðbrandur telur vera eftir þyrluspaða segir Þormóður að hafi verið gert við rannsóknina til að merkja stað þar sem brak fannst úr þyrlunni.  Um brotið úr þyrluspaðanum sagði hann ekki óeðlilegt að það hefði bognað og rispast þegar það þeyttist af á ógnarhraða og lenti á jörðinni.  Þá sagði Þormóður að breskir, franskir og norskir aðilar hefðu komið að rannsókninni og því teygði samsærið sig víða ef um einhvers konar yfirhylmingu væri að ræða. 29. júlí 2002.   Sagt frá því í fréttum Stöðvar 2 að varðskipið Óðinn hafi haldið í ferð um morguninn sem gæti reynst síðasta ferð skipsins fyrir Landhelgisgæsluna.  Í fréttinni var haft eftir Hafsteini Hafsteinssyni forstjóra Landhelgisgæslunnar að þetta sé út af fyrir sig hefðbundið því úthald Óðins hafi alla jafna ekki verið meira á ársgrundvelli og hefur skipinu samkvæmt venju verið lagt að hausti.  Hins vegar sé óvíst um framtíð Óðins þar sem ákveðið hafði verið að fækka varðskipunum um eitt á næsta ári og muni eftirlit á Óðni hætta gangi þær áætlanir eftir.  Hafsteinn sagði aðspurður um þessa ákvörðun dómsmálaráðherra að tvö skip til gæslu svo stórs hafsvæðis sé einfaldlega of lítið. 30. júlí 2002.   Neyðarkall barst um að bátur væri að sökkva og voru björgunarsveitir, lögregla, hafnsögubátur frá Reykjavíkurhöfn og þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út til leitar en svo virðist sem um gabb hafi verið að ræða. Talið er að leitin hafi kostað nokkur hundruð þúsund og fellur kostnaðurinn á þá sem tóku þátt í leitinni.  Lögregla rannsakar nú málið. 2. ágúst 2002. Þyrla Landhelgisgæslunnar tók þátt í leit að tvítugum manni sem ók út í Hvíta við Brúarhlöð.  Félaga hans hafði tekist að komast út úr bifreiðinni eftir að hún lenti í ánni og gera viðvart um slysið. Enn hefur ekki tekist að finna manninn og bifreiðina. 6. ágúst 2002.  Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna umferðarslyss við Fiskilæk í Leirár- og Melasveit í Borgarfirði.  Tveir fólksbílar skullu saman með þeim afleiðingum að farþegi annars bílsins lést en þyrla Landhelgisgæslunnar flutti annan ökumanninn mikið slasaðan á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi. Hinn ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahúsið á Akranesi. 6. ágúst 2002.  Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna slasaðs manns sem hafði brotlent svifdreka sínum í Dyrdal við Hengil um kl. 19 um kvöldið.  Þyrlan flutti manninn á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi en hann er ekki talinn í lífshættu.  

Sprengjusérfræðingar kallaðir út tvisvar sömu nóttina

Þriðjudagur 6. ágúst 2002. Sprengusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru tvisvar kallaðir út í nótt vegna grunsamlegra hluta í flugstöð Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli en eins og kunnugt er sér Landhelgisgæslan alfarið um sprengjueyðingu fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli.    Fyrra kallið kom kl. 2 en það var vegna tösku sem fannst í sæti á biðstofu í flugstöðinni.  Svæðið var rýmt og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar notuðu röntgentækni til að kanna innihald töskunnar sem reyndist saklaust.  Í töskunni voru eigur gestkomandi flugmanns.   Rannsókn málsins lauk kl. 4:30. Seinna útkallið átti sér stað kl. 6:55 en þá hafði fundist grunsamleg taska í húsnæði hermanna og fjölskyldna þeirra.  Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar rannsökuðu töskuna og reyndist hún innihalda íþróttafatnað.  Vegna stöðu mála í heiminum í dag er almennt litið svo á að töskur eða aðrir grunsamlegir hlutir sem skildir eru eftir á almannafæri innan varnarsvæðisins séu til þess ætlaðir að skaða hermenn eða fjölskyldur þeirra.  Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands