Stríðstól og aðrir varasamir hlutir
Tundurdufl, djúpsprengjur og aðrir hlutir sem innihalda sprengiefni koma alltaf öðru hvoru í veiðarfæri skipa eða finnast reknir á fjörum. Það er því áríðandi að þeir sem finna slíka hluti geri sér grein fyrir þeirri hættu sem af þeim getur stafað. Í mörgum tilfellum er um að ræða hluti frá stríðsárunum en ekki síður hluti sem framleiddir hafa verið á síðustu árum. Tekið skal sérstaklega fram að útlit og ástand þarf ekki að gefa til kynna að um hættulegan hlut sé að ræða né heldur að hann sé óvirkur.
Varúðar skal ætíð gætt, því að slíkir hlutir:
- Geta innihaldið sprengiefni.
- Geta innihaldið íkveikiefni.
- Geta innihaldið litlar sprengihleðslur til að sökkva þeim.
- Geta haft búnað sem sprengir hlutinn ef hann er opnaður.
- Geta verið fylltir gasi með miklum þrýstingi.
- Geta vegna tæringar eða annarra skemmda sprungið fyrir annan tilverknað en upphaflega var til ætlast.
- Upphaflegur öryggisbúnaður getur verið óvirkur.
- Kveikibúnaður getur staðið á sér af ýmsum orsökum en næsta högg eða hreyfing losað um hann.
- Hlutir sem notaðir eru til ljós og merkjagjafa geta endurkviknað ef þeir ná að þorna.
Áríðandi er að skip sem hefur fengið dufl eða sprengju um borð og vökvi lekur úr hlutnum að skola hann vel, því að slíkur vökvi getur orðið mjög sprengifimur ef hann nær að þorna og sprungið við minnsta hnjask. Slík sprenging getur síðan sprengt aðal sprengihleðslu duflsins. Við meðhöndlun og hífingar á duflum og sprengjum er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir hættunni sem af þeim getur stafað og þeirri staðreynd að þó svo að hlutur hafi verið hreyfður eða orðið fyrir hnjaski án þess að springa, þá gæti næsta hreyfing sprengt hlutinn. Ef sprenging verður við slíkar aðgerðir er alltaf sú hætta fyrir hendi að mannskaði verði og jafnvel að skip farist.
Það skal undirstrikað sérstaklega, að upplýsingar þessar eru á engan hátt til þess fallnar að nota megi þær til að gera hættulega hluti óskaðlega og er öllum eindregið ráðlagt að reyna það alls ekki, enda er það einungis á færi manna með sérþekkingu.
Skip sem fengið hefur óþekkt og/eða hættulega hluti um borð, skal gera eftirfarandi ráðstafanir:
- Helst ekki hreyfa hlutinn ef hjá því verður komist.
- Hafa þegar í stað samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í síma 545 2100.
- Taka staðarákvörðun þar sem hluturinn kom í veiðarfæri eða kom um borð.
- Gefa stjórnstöð eftirfarandi upplýsingar:
- Nafn, númer og kallmerki skipsins.
- Staðarákvörðun.
- Upplýsingar um hlutinn, eins nákvæmar og kostur er.
- Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar um borð.
Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar munu síðan leiðbeina um meðferð og frágang hlutarins eða koma til aðstoðar sé þess þörf.
Fólk sem finnur óþekkta og/eða hættulega hluti skal gera eftirfarandi ráðstafanir:
- Alls ekki hreyfa hlutinn.
- Merkja staðinn þannig að auðvelt sé að finna hann aftur eftir leiðbeiningum.
- Tilkynna til Landhelgisgæslu í síma 545 2100 eða til lögreglu í síma 112 .
Eftirfarandi myndir eru allar teknar á Íslandi á s.l. 5 árum.
Tundurdufl (Sea Mine)
Tundurdufl eru sprengjur sem komið er fyrir neðansjá var til að granda skipum og kafbátbátum. Tundurduflum má skipta í tvo megin flokka, dufl sem liggja við akkeri (flotdufl) og dufl sem liggja á botninum (botndufl). Kveikibúnaður tundurdufla getur verið margskonar, svo sem; snerti-, hljóð- og segulkveikja. Í sama dufli getur verið fleiri en ein tegund kveikibúnaðar. Sprengihleðsla tundurdufla getur verið frá 150 - 500 kg. Á stríðsárunum síðari var miklu magni tundurdufla lagt í sjó milli Íslands og Skotlands. Einnig voru tundurduflabelti út af Vestfjörðum, í Faxaflóa, Hvalfirði, Eyjafirði og Seyðisfirði. Allt voru þetta dufl sem lagt var við akkeri. Ekki er vitað til að botnduflum hafi verið lagt við Ísland, en botndufl eru einkum notuð á grynnri siglingaleiðum. Í flestum tundurduflum er öryggisbúnaður, t.d. rofi við akkerisfesti, sem á að gera duflin óvirk þegar þau slitna upp en aldrei er hægt að treysta slíkum búnaði og þar að auki eru til dufl án nokkurs öryggisbúnaðar. Þá er og algengt að tundurdufl séu með búnaði sem sprengir þau ef þau eru opnuð. Tundurdufl geta verið fullvirk áratugum saman. Á síðustu áratugum og fram þennan dag hefur mikinn fjölda tundurdufla rekið land hér eða komið í veiðarfæri íslenskra skipa, sem valdið hafa slysum og jafnvel sökkt skipum.Sprengjuhleðsla úr bresku tundurdufli.
Breskt tundurdufl.
Sprengjuhleðsla þar sem hlífin utan um hefur ryðgað í burtu.
Djúpsprengjur (Depth Charge)
Djúpsprengjum er ætlað að granda kafbátum. Þeim er beitt bæði frá skipum og flugvélum. Áður en djúpsprengjunni er varpað í sjóinn er kveikibúnaðurinn stilltur á það dýpi sem sprengjan á að springa á. Kveikjan er venjulega þannig, að þegar ákveðið vatnsmagn hefur flætt inn í hana losnar um slagbolta sem lemur á hvellhettu sem sprengir forsprengju og síðan aðal sprengihleðsluna. Einnig er til kveikibúnaður með púðurgangi.Ef skip fær djúpsprengju í veiðarfæri má alls ekki henda henni aftur í sjóinn því við það getur hún sprungið!!
Djúpsprengjur eru einnig mjög viðkvæmar fyrir höggi og verða að teljast eitt það hættulegasta sem hægt er að fá í veiðarfæri. Sprengihleðsla djúpsprengju er yfirleitt um 150 kíló. Talsvert magn af djúpsprengjum hefur fundist hér við land.
Bresk djúpsprengja með íkveikjubúnaði í og forsprengju á.
Bandarísk djúpsprengja sem hefur verið varpað í sjó úr flugvél.
Bresk flugvéladjúpsprengja með 97 kg af TNT.
Flugvélasprengjur (Aircraft Bomb)
Flugvélasprengjur eru eins og nafnið gefur til kynna sprengjur sem varpað er úr flugvélum. Þær geta verið í ýmsum stærðum, allt frá nokkrum kílóum og í nokkur tonn. Algeng stærð er þó 250 og 500 kíló. Kveikibúnaður getur verið margskonar eftir því til hvers sprengjan er notuð. Kveikibúnaðurinn getur verið staðsettur í nefi, í enda eða á hlið. Þannig eru sprengjur sem ætlað er að brjóta sér leið inn í skotmarkið og springa þar venjulega með kveikibúnað í endanum og þá með seinkun og hlutfall milli þunga sprengiefnis og umgjarðar allt að 10/90 þannig að eins 10 % af heildarþunganum er sprengiefni. Kveikjur geta verið bæði vélvirkar, úrverk eða rafmagns. Algengt er að slíkar sprengju hafi svokallaðan móthreyfibúnað (anti handling) sem er virkur eftir að sprengjan lendir án þess að springa. Þá er og algengt að slíkur búnaður sé tengdur kveikjum, þannig að ekki er hægt að fjarlægja þær á einfaldan hátt.Flugvélasprengjur verða ávallt að skoðast sem full virkar sprengjur sem geta sprungið við minnsta hnjask.
Bandarísk flugvélasprengja, fannst á Reykjavíkurflugvelli.
Fallbyssukúlur (Artillery Projectile)
Fallbyssukúlur eru til í mörgum stærðum og gerðum. Þær geta eins og flugvélasprengjurnar verið með kveikju í nefi eða enda. Kveikjurnar geta einnig verið þannig að kúlan springi við að lenda á skotmarkinu, eða eftir ákveðinn tíma. Þær geta verið vélvirkar, úrverk, púðurgangur eða rafrænar. Í mörgum tilfellum eru kveikjurnar þannig að þær virkjast annað hvort við hraðaaukninguna þegar þeim er skotið eða við snúninginn þegar þær koma út úr hlaupinu. Það verður ávallt að reikna með að kveikibúnaður kúlu sem hefur verið skotið, án þess að springa, sé læstur í virkri stöðu.
Sprengikúla með 57 mm hlaupvídd.
Sprengikúla með 75 mm hlaupvídd, fannst í íbúð í Reykjavík.
Sprengikúla með 90 mm hlaupvídd.
Sprengikúla með 105 mm hlaupvídd. Hleðsla 2 kg af TNT.
Sprengjuvörpusprengjur (Mortar)
Sprengjuvörpusprengjur (mortar) eru í raun sprengjur með eigin drifhleðslu. Þegar þær falla niður í hlaupið springur hvellhetta í botninum sem kveikir í drifefninu sem er í kringum stélhlutann og sprengjan flýgur út úr hlaupinu. Kveikjurnar eru í nefi og svipaðrar gerðar og í fallbyssukúlum. Sömu varúðarráðstafanir gilda og fyrir fallbyssukúlur. Það verður ávallt að reikna með að kveikibúnaður sprengju sem hefur verið skotið, án þess að springa, sé læstur í virkri stöðu.
Bandarísk 81 mm sprengjuvörðusprengja
Bresk 2 tommu sprengjuvörpusprengja
Bandarísk 60 mm sprengjuvörpusprengja.
Hand- og rifflasprengjur (Hand and Rifle Grenades)
Handsprengjur eru litlar sprengjur með púðurkveikju sem fer af stað við það að handfang sprengjunnar flýgur af um leið og henni er hent. Gamlar handsprengjur finnast af og til ósprungnar og oft þannig að öryggispinni sem heldur handfanginu föstu er ryðgaður í sundur og einungis tæring í sjálfum pinnanum sem stendur út úr botni sprengjunnar heldur honum föstum. Slíkar sprengjur eru því afar hættulegar og má undir engum kringumstæðum hreyfa.
Bandarísk handsprengja.
Bandarísk riffilsprengja.
Bresk handsprengja.
Hlustunardufl (Acoustic Bouy)
Hlustunardufl eru einkum notuð til að fylgjast með ferðum kafbáta. Til eru margar gerðir hlustunardufla en þeim má skipta í tvo megin flokka; dufl sem komið er fyrir neðansjávar og dufl sem fljóta á sjónum. Þau fyrrnefndu eru ýmist tengd með kapli við land eða eru búin radíóbauju í eða rétt undir yfirborðinu. Hinum síðarnefndu er venjulega varpað úr flugvél og geta bæði verið búin virkum sónar eða einungis hljóðnemum. Allar þessar gerðir dufla eiga það sameiginlegt að í þeim geta verið litlar sprengihleðslur!!! sem eiga að sökkva þeim, þegar þau hafa þjónað tilgangi sínum. Í duflunum sem komið er fyrir neðansjávar geta einnig verið sprengihleðslur, jafnvel margar í sama duflinu. Þau dufl geta einnig verið með stórar rafhlöður sem með tímanum mynda gas og getur því orðið mikill þrýstingur í þeim. Það er því hættulegt að reyna að opna slík dufl, þar sem lok og tappar geta flogið af með miklu afli.Rússneskt hlustunardufl.
Rússneskt hlustunardufl með sprengjuhleðslu.
Reyk- og ljósdufl (Marine Signals and Markers)
Miklu magni reyk- og ljósdufla er varpað í sjó á hverju ári við björgunar-aðgerðir en mest þó við æfingar í slíku. Merkjadufl þessi eru í sjálfu sér ekki hættuleg, en geta orðið það við vissar aðstæður. Við brunann myndast í mörgum tilfellum hvítur fosfór, sem tendrast sjálfkrafa við að komast í snertingu við súrefni andrúmsloftsins. Því er hættulegt að taka slík dufl og geyma!!! Ef duflin eru geymd þar sem þau ná að þorna, kemur að því fyrr eða síðar að það kviknar í þeim aftur og geta þá valdið eldsvoða og að auki er reykurinn við þær aðstæður eitraður. Talsvert magn þessara dufla finnst hér við land á hverju ári. Tilkynna skal um slíkt til Landhelgisgæslu eða næstu lögreglustöðvar.Breskt merkjablys.
Bandarískt merkjablys.
Bandarískt merkjablys.
Bandarískt merkjablys.
Flugeldar og blys (Pyrotechnics and Fireworks)
Flugeldar (og blys) eru notaðir í neyð eða til að marka stað ásamt því að vera notaðir til skemmtunar. Þeir innihalda efni sem við íkveikju brenna hratt til að ná tilætluðum áhrifum. Þessi efni eru skammlíf og verður að meðhöndla og geyma á viðundani hátt. Hafið samband við Landhelgisgæsluna til að fá upplýsingar um meðhöndlun á gömlum eða skemmdum flugeldum (blysum)."Man Overboard" reykblys.
Gamalt neyðarblys.
Neyðarblys í notkun í dag.
Blautir og skemmdir flugeldar. Afar hættulegt.
Skotfæri (Small Arms Ammunition)
Beinið fyrirspurnum varðandi gömul og skemmd skotfæri til Landhelgisgæslunnar.Ýmis skotfæri.
Skot frá Seinni heimsstyrjöldinni.