Mælingadeild

Með tilkomu mælingabátsins Baldurs 1991 varð bylting í sjómælingum hvað afköst varðar. Frá upphafi hafa mælingarnar um borð verið tölvuvæddar, þ.e. gögnum frá mælitækjum er safnað í tölvu sem bæði hefur reynst mun fljótvirkara og sparað vinnustundir. Mæling    ar eru að jafnaði ekki stundaðar nema frá vori fram á haust ár hvert og ræður veðurfar og sjólag þar um. Mælingamenn starfa að úrvinnslu mælingagagnanna að vetri til.

Frá því mælingar hófust á Baldri hafa verið lagðar að baki 1600-3900 mældar sjómílur ár hvert en afköst fara mjög eftir verkefni og aðstæðum. Eitt varðskipanna hefur einnig verið útbúið til mælinga og hefur það verið notað nokkur sumur í 2-4 vikur. Afköst þess hafa verið frá 2200-3700 mældar sjómílur hvert sumar. Á þessu tímabili (1991 – 1998) hafa um 20 þús. km2 hafsvæðis verið mældir samkvæmt stöðlum Alþjóða Sjómælingastofnunarinnar. Fyrir þann tíma höfðu um 12 þús. km2 verið mældir til samræmis við þá. Þess má geta að efnahagslögsagan er rífleg 750 þús. km2.

Staðlar Alþjóða Sjómælingastofnunarinnar eru sífellt endurskoðaðir og tengjast framtíðaráform varðandi sjómælingar þeim.