Landhelgisgæslan á flugi

Söguágrip flugrekstrar Landhelgisgæslunnar

 Landhelgisgæslan hefur um áratuga skeið notast við flugvélar og þyrlur við löggæslu, eftirlit, leit og björgun auk annarra verkefna. Á árunum eftir síðari heimstyrjöld leigði Landhelgisgæslan stundum flugvélar til að fylgjast með skipaumferð og veiðum í landhelginni, fyrst árið 1948 þegar Grumman Goose-flugbátur var tekinn á leigu. Þetta flug var þó ekki með reglubundnum hætti. 

Áhöfn flugbátsins TF-RAN: Garðar Jónsson loftskm- Guðjón Jónsson flugstjóri - Bragi Nordahl flugstj  - Agnar Ólafur Jónasson flugvélstjóri -  Björn Jónsson flugm. - Grímur Jónsson loftskm - Guðmundur Kjærnested skipherra og Jónas Guðmundsson stýrim. Mynd: Valdimar Jónsson. 

10. desember 1955 eignaðist Landhelgisgæslan sína fyrstu flugvél og er almennt miðað við þá dagsetningu sem upphaf flugrekstrar stofnunarinnar. Þetta var flugbátur af gerðinni PBY-6A Catalina með einkennisstafina TF-RAN. Allar götur síðan hafa loftför Landhelgisgæslunnar borið nöfn ásynja, rétt eins og skipin eru nefnd eftir norrænu goðunum. Catalina-flugbáturinn hafði áður verið í eigu Flugmálastjórnar sem keypti hann skemmdan af varnarliðinu. TF-RAN fór í fyrsta gæsluflugið 29. desember 1955. Nokkrum vikum síðar var sett í hana ratsjá og mun hún vera fyrsta íslenska flugvélin sem búin var slíku tæki.

TF-SIF, Skymaster-flugvél Landhelgisgæslunnar. 

Árið 1962 eignaðist svo Landhelgisgæslan Douglas DC-4 Skymaster flugvél sem hlaut einkennisstafina TF-SIF. Hún var í eigu Gæslunnar til ársins 1971.

Þremur árum síðar urðu svo merkileg þáttaskil í flugrekstrinum. 30. apríl 1965 tók Landhelgisgæslan sína fyrstu þyrlu í notkun. Hún var af gerðinni Bell 47j og var keypt til landsins í samvinnu við Slysavarnafélag Íslands. Þyrlan, sem fékk einkennisstafina TF-EIR, var í notkun þar til í október 1971 en þá brotlenti hún í rannsóknarflugi í Rjúpnafelli. Til allrar hamingju varð ekki manntjón.


TF-EIR um borð í varðskipinu Þór. Að ofan: TF-SIF á flugi nærri Þór. Myndir: Valdimar Jónsson. 

Vaxandi umsvif á áttunda áratugnum

Fyrri hluti áttunda áratugarins einkenndist af miklum umsvifum í flugrekstri Landhelgisgæslunnar enda stóðu þorskastríðin þá sem hæst. Í ársbyrjun 1972 keypti Landhelgisgæslan Fokker F-27 200 flugvél af japanska flugfélaginu All-Nippon og var hún skráð TF-SYR í maí sama ár. Vélin var mikið notuð í öðru og þriðja þorskastríðinu enda nýttist ratsjáin vel til að finna erlenda togara á Íslandsmiðum.

Fokkerinn var fljótur að sanna gildi sitt og því var ákveðið að kaupa aðra samskonar vél. Hún kom til landsins 14. janúar 1977 og skráð TF-SYN. Þessi vinnuhestur átti eftir að vera í þjónustu Landhelgisgæslunnar í rúma þrjá áratugi eða allt þar til Dash 8 Q-300 flugvélin TF-SIF kom til landsins árið 2009.

Árið 1972 eignaðist Landhelgisgæslan svo sína fyrstu eiginlegu björgunarþyrlu, TF-GNA. Hún var af tegundinni Sikorsky S-62, sérstaklega hönnuð til gæslu yfir sjó og gat borið tíu farþega eða sex menn í sjúkrakörfum. Þá var þyrlan búin björgunarspili sem gat híft tvo menn í senn og auk þess með flotholt til að lenda á sjó eða í djúpum snjó. Þyrlunni hlekktist á eftir aðeins þrjú ár í þjónustu Landhelgisgæslunnar því í október 1975 brotlenti hún í Skálafelli eftir að öxull í stélskrúfunni hafði brotnað. Engan sakaði.


Árið 1973 keypti Gæslan tvær litlar þyrlur af gerðinni Bell, TF-HUG og TF-MUN. Stærðar sinnar vegna voru bundnar vonir við að þær gætu reynst vel til að lenda á palli varðskipanna. Þyrlurnar ollu hins vegar miklum vonbrigðum, eftir röð óhappa var hætt að nota þær í desember 1974.

Í stað þyrlunnar sem brotlenti í Skálafelli var ný þyrla keypt árið 1976. Hún var af gerðinni Sikorsky S-76 og skráð TF-RAN. Þyrlan var sérhönnuð til landhelgisgæslu og með öflugan lyftibúnað til björgunarstarfa. 8. nóvember 1983 varð hins vegar sá hörmulegi atburður að TF-RAN fórst í æfingaflugi í Jökulfjörðum og með henni fjórir starfsmenn Landhelgisgæslunnar. Þetta er mannskæðasta slys sem orðið hefur í sögu Gæslunnar.

Á tímamótum

Um miðjan níunda áratuginn stóð Landhelgisgæslan á erfiðum tímamótum. Eftir slysið í Jökulfjörðum var alvarlega rætt um að hætta alfarið þyrlurekstri og láta í staðinn varnarliðið alfarið um leit og björgun með þyrlum. Sem betur fer var horfið frá þeim áformum og í staðinn ákveðið að setja enn meiri kraft í þennan þátt starfseminnar. Það var ekki síst fyrirstilli sjálfra starfsmanna stofnunarinnar að ákveðið var að halda þyrlurekstrinum áfram. 

1985 kom hingað til lands Dauphin II-þyrla sem fékk einkennisstafina TF-SIF. Þessi þyrla var í þjónustu stofnunarinnar í rúma tvo áratugi uns hún lenti í sjónum við Straumsvík sumarið 2007. Áhöfn TF-SIF vann mörg frækin björgunarafrek, má þar til dæmis nefna þegar áhöfn Barðans GK, alls níu manns var bjargað við mjög erfiðar aðstæður undan Hólahólum á Snæfellsnesi í mars 1987. TF-SIF er nú í Flugsafni Íslands á Akureyri, eins og raunar Fokker-flugvélin TF-SYN.

Árið 1995 urðu svo enn ein þáttaskilin í flugrekstrarins þegar Landhelgisgæslan keypti öfluga björgunarþyrlu af gerðinni Aerospatiale Super Puma AS-332L1. Þessi þyrla, sem fékk einkennisstafina TF-LIF, var bæði stærri og öflugri en þær þyrlur sem Gæslan hafði áður haft yfir að ráða og búinn tækjum til leitar og björgunar við erfiðari aðstæður en hinar þyrlurnar réðu við. Óhætt er að segja að þessi þyrla hafi strax sannað gildi sitt, til dæmis í mars 1997 þegar áhöfn TF-LIF bjargaði alls 39 manns í þremur sjósköðum á á sex dögum.

Það var svo skarð fyrir skildi þegar varnarliðið hætti starfsemi sinni á Íslandi haustið 2006 því þá hurfu héðan öflugar þyrlur sem í áranna rás höfðu bjargað ótal mannslífum. Ljóst varð að styrkja þyrfti þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og árið 2007 var því leigð hingað til lands önnur Super Puma þyrla, TF-GNA. Þriðja Super Puma þyrlan bættist svo við 2012, TF-SYN. Rétt eins og TF-GNA er hún líka leiguþyrla.

Á árunum 2019-2021 var björgunarþyrlufloti Landhelgisgæslunnar endurnýjaður og leiguþyrlunum þremur skipt út fyrir fullkomnari leiguþyrlur af gerðinni Airbus Super Puma H225 sem fengu einkennisstafina TF-EIR, TF-GRO og TF-GNA. Hin sögufræga TF-LIF var tekin úr rekstri gert er ráð fyrir að hún verði seld fyrir árslok 2022.

Þessar þrjár þyrlur eru nú í rekstri hjá Landhelgisgæslunni og er útlit fyrir að svo verði fram á fyrri hluta næsta áratugar. Þá er gert ráð fyrir að Landhelgisgæslan fái þrjár nýjar leitar- og björgunarþyrlur sem eiga að tryggja öryggi sjófarenda og fólks á landi hér eftir sem hingað til. 

Heimild: Landhelgisgæsla Íslands: Svipmyndir úr 70 ára sögu.