• Klippur_LHG

Klippurnar

Togvíraklippur voru helsta vopn Landhelgisgæslunnar í þorskastríðunum 1972 og 1975. Þeim var fyrst beitt 5. september 1972 kl. 10:25. Þann dag kom varðskipið Ægir að togara að veiðum norðaustur af Hornbanka. Togarinn var ómerktur, járnplötur soðnar yfir nafn og númer og enginn þjóðfáni sjáanlegur. Einnig var málað yfir einkennisstafina á reykháfi. Guðmundur Kjærnested, sem var skipherra á Ægi, segir svo frá í æviminningum sínum:

...varð mikið uppistand meðal bresku togaranna sem þarna voru á veiðum um 22 sjómílur innan nýju 50 mílna markanna. Allir hífðu upp trollin og komu siglandi á fullri ferð. Við á Ægi fórum hring um óþekkta togarann og komum nærri stjórnborðs skuthorni hans. Áhöfnin stóð á bátaþilfari og skipverjar köstuðu kolamolum og alls kyns rusli yfir varðskipið. Einn skipverja á togaranum kastaði stórri brunaöxi sem fór í sjóinn á milli skipanna.

Klippurnar1

Um mikilvægan atburð var að ræða því með togvíraklippingunni sannaði Gæslan að hún var fullfær um að framfylgja íslenskum lögum, þau væru ekki innantómur bókstafur með ekkert afl að baki sér.

Klippurnar2

Tæknin, sem notuð var við klippingarnar, var hugmynd Péturs Sigðurssonar forstjóra Landhelgisgæslunnar frá því þegar Íslendingar færðu landhelgina út í 12 mílur. Aldrei var þó klippunum beitt á þeim tíma. Tilraunir með togvíraklippurnar voru gerðar á varðskipunum Ægi og Maríu Júlíu seint á árinu 1958 og lauk þeim rétt fyrir áramót. Þá þótti fullreynt að klippurnar dygðu til þess að klippa sundur togvíra á svo miklu dýpi að ekki yrði tjón á skipi eða slys á mönnum. Klippurnar, sem eru í raun fjórir hnífar, voru dregnar þvert yfir togvíra veiðiþjófanna og skáru vírana í sundur.