• _O0A8129

Saga varnarmála

Áfangar í íslenskum varnarmálum

Ísland er herlaust ríki sem hervæðist ekki en tryggir öryggi sitt og varnir með samstarfi við önnur ríki.  

 Fyrsti alþjóðasamningur íslenskra stjórnvalda um varnarmál  var gerður árið 1941 þegar samið var við Bandaríkjamenn um að taka við vörnum landsins af Bretum.  Bretar höfðu hernumið Ísland 1940 um líkt  leyti og Þjóðverjar herná Sagan_undirskriftmu Danmörku. Fram að því fóru Danir með utanríkis- og varnarmál Íslendinga.  Þegar heimsstyrjöldin var um garð gengin gerðu íslensk og bandarísk stjórnvöld svonefndan Keflavíkursamning frá 1946.

Stofnaðili Atlantshafsbandalagsins

4. apríl 1949 gerðust Íslendingar stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og voru meðal tólf vestrænna þjóða sem undirrituðu stofnsáttmála bandalagsins í Washington.  Enn í dag eru markmið NATO þau sömu og í upphafi, að tryggja öryggi og frið í Evrópu.  Bandalagið hefur lagað sig að breyttum aðstæðum í Evrópu með inngöngu nýrra aðildarríkja og auknu samráði og samvinnu við önnur ríki. Ísland á ríka samleið með öðrum aðildarríkjum NATO í bandalagi sem byggist á meginreglum lýðræðis.

Tvíhliða varnarsamningur við Bandaríkin

5. maí 1951 undirrituðu Íslendingar tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin, sem kom í stað Keflavíkursamningsins. Með varnarsamningnum tóku Bandaríkjamenn að sér umsjón með hervörnum Íslands en Íslendingar létu varnarliði Bandaríkjamanna í té Keflavíkurflugvöll og annað nauðsynlegt landsvæði í þágu varna landsins.

Fjórar ratsjárstöðvar reknar frá 1953 til 1958 Gunnolfsvikurfjall-ad-vetri

 Á árunum 1953 til 1958 hóf bandaríska herliðið rekstur fjögurra ratsjárstöðva til eftirlits með flugumferð í grennd við Íslands. Ratsjárstöðvarnar voru staðsettar á Miðnesheiði á Reykjanesi, á Heiðarfjalli á Langanesi, á  Stokksnesi við Hornafjörð og á Straumnesfjalli norðan Aðalvíkur.

Ratsjárstöðvunum á Heiðarfjalli og á Straumnesfjalli var lokað á árunum 1960 til 1961 en á árunum 1976 til 1983 tvöfaldaðist fjöldi útkalla sem orrustuflugvélar bandaríska herliðsins Ratsjárstöðin Miðnesheiði sinntu vegna umferðar óþekktra flugvéla í grennd við Ísland.  Ljóst varð að vegna þessa þyrfti að auðvelda  varnarliðinu að rækja eftirlitshlutverk sitt og tryggja jafnframt betur öryggi almenns farþegaflugs. Vænlegast var talið að leysa vandann með því að byggja nýjar ratsjárstöðvar á norðvestur- og norðausturlandi.

Í nóvember 1983 hófst ítarleg athugun á því með hvaða hætti og hversu fljótt væri hægt að reisa nýjar ratsjárstöðvar á Vestfjörðum og Norðausturlandi auk þess að endurnýja aðrar ratsjárstöðvar.  Í maí 1985 var Ratsjárnefnd stofnuð til að hafa eftirlit með endurnýjun ratsjárkerfisins fyrir hönd íslenskra stjórnvalda.

Ratsjárstofnun verður til

 Ratsjárstofnun hóf starfsemi í maí 1987 eftir að íslensk og bandarísk stjórnvöld gerðu samning um að Íslendingar yfirtækju rekstur ratsjárstöðva bandaríska varnarliðsins á Íslandi.

Uppbygging kerfisins var gerð á kostnað Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins (NATO) en íslenska loftvarnakerfið er hluti af samhæfðu loftvarnakerfi Atlantshafsbandalagsins og rekstur þess byggist meðal annars á þeirri skuldbindingu sem fylgir aðild Íslendinga að Atlantshafsbandalaginu.

Eftir fall Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins dró smám saman úr umsvifum varnarliðs Bandaríkjamanna hér á landi.  Viðræður ríkjanna um breytt fyrirkomulag landvarna á grundvelli samningsins frá 1951 hófust um miðja tíunda áratug síðustu aldar en leiddu aldrei til endanlegrar niðurstöðu.

Dvöl bandaríkjahers lýkur

 Árið 2006 tilkynntu Bandaríkjamenn Íslendingum með skömmum fyrirvara um þá ákvörðun sína að flytja orrustuþotur sínar og björgunarþyrlur burt frá Íslandi ásamt öllum liðsafla og leggja niður starfsemi á Keflavíkurflugvelli.   Eftir brottför Bandaríkjamanna 30. september 2006 náðu ríkin tvö samkomulagi um sérstaka varnaráætlun á grundvelli samningsins frá 1951, sem nær yfir varnir gegn hefðbundinni hernaðarógn á ófriðartímum. Með varnaráætluninni afsöluðu Bandaríkjamenn sér ábyrgð á loftvörnum Íslands á  friðartímum.

Eftir brottför bandaríkjahers var samþykkt á vettvangi NATO að Íslendingar héldu áfram starfrækslu íslenska lotfvarnakerfisins og að það yrði samþætt loftvarnakerfi Atlantshafsbandalagsins. Ennfremur var ákveðið að flugsveitir frá herjum bandalagsríkjanna sinntu loftrýmisgæslu við landið fjórum sinnum á ári. Utan þess tíma yrði brugðist við aðsteðjandi hættu  með sérstökum ráðstöfunum af hálfu NATO. 

Í apríl 2008 samþykkti Alþingi Íslendinga svo í fyrsta skipti heildstæð varnarmálalög og staðfesti þá stefnu sem mótuð hafði verið eftir brottför bandaríkjahers.  Meginforsenda laganna er sú að Íslendingar eru og verða herlaus þjóð. Utanríkisráðherra er ráðherra öryggis- og varnarmála.

Varnarmálastofnun sett á fót

 Með varnarmálalögum tók Varnarmálastofnun til starfa 1. júní 2008 á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
„Með því að reka íslenska loftvarnarkerfið og sjá um önnur þau eftirlits- og varnartengdu verkefni, sem nýstofnsett Varnarmálastofnun á að sinna, erum við Íslendingar í senn að axla ábyrgð á eigin vörnum og um leið að leggja til sameiginlegs öryggis grannríkja okkar á Norður-Atlantshafi og bandalagsríkja í NATO. Þannig rækjum við skyldur

NC2011_IMG_3612

okkar sem sjálfstætt, fullvalda ríki," sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, í ávarpi þegar Varnarmálastofnun tók til starfa.

Í desember 2009 var að tillögu utanríkisráðherra skipaður starfshópur fimm ráðuneyta til að gera tillögur um hvernig mætti framfylgja ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja niður Varnarmálastofnun á árinu 2010 og samþætta verkefni hennar hlutverki annarra opinberra stofnana. Skýrt var tekið fram að Ísland stæði áfram við allar varnar- og öryggistengdar skuldbindingar sínar og að forræði á utanríkispólitískum þáttum yrði áfram hjá utanríkisráðherra.

Þann 30. mars 2010 samþykkti ríkisstjórn Íslands að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á varnarmálalögum nr. 34/2008 í samræmi við niðurstöður í skýrslu starfshópsins. Í skýrslunni var bent á leiðir til að starfsþættir Varna

rmálastofnunar yrðu hluti af nýrri borgaralegri stofnun, sem sæi um öryggis- og varnarmál á grundvelli borgaralegra gilda innan innanríkisráðuneytisins. 

Þann 16. júní 2010 var frumvarp til laga nr. 98/2010 samþykkt á Alþingi um breytingu á varnarmálalögum nr. 34/2008 í samræmi við niðurstöður í skýrslu starfshópsins. Í samræmi við framangreind lög var Varnarmálastofnun lögð niður frá og með 1. janúar 2011.

Landhelgisgæslu Íslands og embætti Ríkislögreglustjóra taka við rekstri íslenska loftvarnarkerfisins og öðrum eftirlits- og varnartengdum verkefnum

Frá og með 1. janúar 2011 tóku gildi samningar um ráðstöfun þeirra verkefna sem Varnarmálastofnun fór með og falla undir varnarmál samkvæmt Varnarmálalögum. Fóru verkefnin til embættis Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslu Íslands. Landhelgisgæsla Íslands starfrækir starfsstöð á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.