• Tyr-1976-thorskastrid-f

Útfærsla landhelgi og lögsögu

Forsagan

Vegna þess hversu hafið umhverfis Ísland þykir gjöfult á fisk hafa erlendir sjómenn stundað veiðar á Íslandsmiðum í að minnsta kosti allt frá byrjun 15. aldar, en frá þeim tíma eru til frásagnir um enskar skútur sem stunduðu veiðar hér við land. Síðan bættust m.a. við Þjóðverjar og Frakkar. Lengst af tóku Íslendingar sjálfir lítinn þátt í kapphlaupinu um fiskinn - stunduðu aðeins veiðar á litlum árabátum sem héldu ekki langt frá landi meðan erlendar þjóðir stunduðu miðin á stórum skútum.

Undir lok 19. aldar og í upphafi 20. aldar fór þetta þó að breytast. Þá fóru Íslendingar að stunda sjóinn á stærri skipum en áður hafði tíðkast. Þetta kallaði á aukna sókn hér við land auk þess sem erlend skip urðu stærri og öflugri. Þannig er t.d. talið að árið 1904 hafi 180 erlendir togarar (skip sem veiða með botnvörpu) og þar af 150 bresk verið á Íslandsmiðum. Árið 1905 eignuðust Íslendingar sinn fyrsta togara og níu árum seinna voru þeir orðnir 20 talsins.

Fyrir kom að siglingum erlendra sjómanna hingað til lands fylgdu árekstrar við landsmenn og er farið var að nota botnvörpur á Íslandsmiðum undir lok 19. aldar óttuðust margir að þessi stórvirku veiðafæri hreinsuðu upp fiskinn í sjónum og eyðilegðu hrygningarstöðvar.

Íslendingar gátu þó lítið gert í þessum málum sjálfir, enda landið hluti af danska ríkinu til ársins 1918.

Árið 1901 gerðu Danir og Englendingar samkomulag um þriggja mílna landhelgi og fiskveiðilögsögu við Ísland. Þessi samningur féll ekki úr gildi fyrr en eftir heimsstyrjöldina síðari og fyrst þá gátu Íslendingar farið að hreyfa við útfærslu fiskveiðilögsögunnar.

3milur-sm

Kortið sýnir 3. mílna landhelgina og fiskveiðilögsöguna við Ísland eins og hún var frá 1901 til 1952.

4 mílna útfærslan árið 1952

Á árunum upp úr 1930 fengu menn vaxandi áhuga fyrir því að koma á alþjóðlegu samkomulagi um friðun mikilvægustu hrygningar- og uppeldisstöðva nytjafiska. Ekki lögðust slíkar hugmyndir vel í alla og t.d. féllust bresk stjórnvöld aldrei á annað en að allt hafsvæði þremur sjómílum frá ströndu væri úthaf og öllum opið til nýtingar.

Rétt eins og gerst hafði á árum heimsstyrjaldarinnar fyrri (1914 – 1918) voru íslensk fiskimið að mestu laus við erlendan ágang á árum heimsstyrjaldarinnar síðari frá 1939 – 1945. Stuttu eftir að friður komst á fóru fiskveiðiþjóðir Evrópu að senda fleiri og öflugri veiðiskip á Íslandsmið en áður hafði þekkst samhliða því sem Íslendingar efldu fiskveiðiflota sinn.

Í kjölfar þessa varð sóknin í fiskinn á Íslandsmiðum að á árunum 1949 – 1952 svo mikil að ýsuaflinn dróst t.d. saman um 32% og skarkolaflinn um 47%.

Viðbrögð Íslendinga við tölum sem þessum sem margir töldu boða dauðadóm yfir sjávarútvegnum ef ekki yrði brugðist við var að setja lög árið 1948 um vísindalega vernd fiskveiðistofna á landgrunninum. Í framhaldi að lagasetningunni sögðu Íslendingar upp samningnum frá 1901 árið 1949 með tveggja ára fyrirvara eins og sá samningur gerði ráð fyrir að hægt væri að gera.

Á grundvelli þessara laga var gefin út reglugerð fjórum árum seinna um fjögra mílna fiskveiðilandhelgi frá grunnlínum sem dregnar voru fyrir minni fjarða og flóa. Viðbrögð ríkisstjórna Belgíu, Bretlands, Frakklands og Vestur-Þýskalands var að mótmæla reglugerðinni, en allar virtu þær þó hina nýju fiskveiðilögsögu fyrir utan Breta sem gripu til þeirra aðgerða að setja löndunarbann á íslenskan fisk og átti það bann eftir að standa til ársins 1956.

Íslendingar brugðust við löndunarbanninu með því að stórauka útflutning til bæði Bandaríkjanna og Sovétríkjanna auk þess sem verkun á fiski í frystihúsum jókst á kostnað ísfisk, þ.e. ferskum fiski sem m.a. hafði verið fluttur út til Bretlands.

Íslendingar höfðu unnið að útfærslunni í takt við þróun alþjóðamála. Þannig biðu þeir eftir úrskurði Alþjóðadómstólsins í Haag í Hollandi um heimild Norðmanna til að marka sér fiskveiðilögsögu á sömu forsendum og lögin um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá árinu 1948 gerðu ráð fyrir. Og það var ekki fyrr en að útskurðinn féll Norðmönnum í vel sem ráðist var í fjögra mílna útfærsluna. Einnig horfðu Íslendingar til Bandaríkjamanna sem á árum heimsstyrjaldarinnar síðari höfðu sett lög sem fólu í sér rétt á nýtingu auðæfa innan síns landgrunns.

4milur-sm

1952 - Útfærsla úr 3 í 4 sjómílur.

12 mílna útfærslan árið 1958

Árið 1958 var fyrsta hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna haldin í Genf í Sviss. Sú ráðstefna breytti ekki miklu og ekki voru neinar stórvægilegar samþykktir gerðar. Í kjölfar hennar ákváðu Íslendingar þó að færa fiskveiðilögsöguna út í 12 sjómílur frá grunnlínupunktum.

Viðbrögð Breta við 12 mílna útfærslunni árið 1958 létu ekki á sér standa. Bæði mótmæltu þeir ákaft og sendu herskip til þess að verja togara sína gegn íslensku varðskipunum svo þeir gætu stundað veiðar upp að fjögra mílna mörkunum.  Hófst nú fyrsta eiginlega þorskastríðið þó ekki skærist verulega í odda á miðinum milli íslensku varðskipanna og bresku herskipanna.

Þessi deila stóð til ársins 1961 er samkomulag náðist.  Samkomulagið fól í sér að Bretar fengu áfram að veiða innan íslensku fiskveiðilögsögunnar í þrjú ár frá 6 mílum upp í 12 mílur.  Auk þess féllust Íslendingar á að vísa mætti deilum um frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar til Alþjóðadómstólsins í Haag.

12milur-sm

1958 - Útfærsla í 12 sjómílur.

Árin eftir 12 mílna þorskastríðið dró enn ískyggilega úr aflabrögðum við Ísland.  Því ákváðu íslensk stjórnvöld árið 1971 að segja upp samningnum við Breta og Alþingi samþykkti að færa fiskveiðilögsöguna út í 50 sjómílur.  Sú útfærsla tók gildi í september árið 1972. 

Viðbrögð Breta voru eins og vænta mátti – hörð mótmæli og skip voru send á vettvang til að vernda bresku togarana gegn íslensku varðskipunum.        

En nú voru Íslendingar komnir með nýtt vopn gegn landhelgisbrjótum, svokallaðar togvíraklippur sem skorið gátu botnvörpur aftan úr breskum togurum með tilheyrandi tilkostnaði fyrir útgerðina.  Frá september 1972 til nóvember 1973 tókst íslensku varðskipunum að beita þeim með árangursríkum hætti í 82 skipti gegn breskum togurum sem voru að veiðum innan 50 mílna markanna.                

Undir lok árs 1973 var samið við Breta til bráðabirgða.  Samkvæmt þeim samningu máttu erlend skip stunda veiðar á tilteknum svæðum milli 12 mílna og hinnar nýju 50 mílna fiskveiðilögsögu.  Þessi undanþága náði þó ekki til frysti- og verksmiðjutogara. 

Vestur-Þjóðverjar gátu ekki sætt sig við það og héldu því áfram að veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu, auk þess sem löndunarbann var sett á íslensk skip í þarlendum höfnum árið 1974.

Vestur-Þjóðverjar sendu þó ekki herskip eða önnur skip á miðin til að vernda togara sína gegn íslensku varðskipunum.  Samkomulag náðist ekki við Vestur-Þjóðverja fyrr en undir lok árs 1975. 

50milur-sm

1972 - Útfærsla í 50 sjómílur.

Í október 1975 færðu íslendingar fiskveiðilögsöguna út í 200 mílur. Byrjaði nú harðasta þorskastríðið með ásiglingum breskra verndarskipa og botnvörpuklippingum íslensku varðskipanna.

Svo alvarleg varð nú deilan að íslensk stjórnvöld ákváðu að slíta stjórnmálasambandi við Breta og kölluðu sendiherra sinn í London heim og vísuðu breska sendiherranum í Reykjavík úr landi. Eins og áður hótuðu Íslendingar einnig því að segja sig úr Norður-Atlantshafsbandalaginu (NATO). Sögðu menn það til lítils að vera í varnarbandalagi sem kæmi ekki til aðstoðar þegar landið væri undir erlendri árás.

Eins var hótunin sem slík sterkt vopn þar sem lega Íslands gerði landið hernaðarlega mikilvægt á dögum kaldastríðsins og því mikilvægt fyrir önnur aðildarríki að hafa landið innan sinna vébanda. Þetta vissu Íslendingar og reyndu því að fá Bandaríkjamenn til þess að stöðva aðgerðir Breta.

Sumarið 1976 náðust þó sáttir í deilunni og var samið um að 24 breskir togarar mættu veiða innan 200 mílna markanna til 1. desember sama ár og síðan ekki meir. Lauk nú deilunum og átöktunum sem fylgt höfðu útfærslu efnahagslögsögunnar undanfarna áratugi.

Útfærsla efnahagslögsögunnar frá 4 upp í 200 sjómílur hafði mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir þá bresku fiskveiðibæi þar sem margir höfðu átt allt sitt undir fiskveiðum á Íslandsmiðum. Í bæjum eins og Grimsby og Hull varð atvinnuleysi varanlegt þar sem margir sjómenn og verkafólk í landi sem starfað hafði í fiskvinnslu missti vinnuna.


200milur-sm

1975 - Útfærsla í 200 sjómílur.

Hvers vegna vannst sigur?

Það voru einkum fjórar ástæður sem réðu því að Íslendingar höfðu betur en Bretar þegar tekist var á um útfærslu efnahagslögsögunnar. 

  • Í fyrsta lagi höfðu aðgerðir íslensku varðskipana á miðinum, t.d. að beita klippunum, þær afleiðingar í för með sér að bresku togararnir urðu að veiða undir herskipavernd og það var ávallt ljóst að slíkar veiðar væri ekki hægt að stunda til lengdar.
  • Í öðru lagi var þróunin á alþjóðavettvangi Íslendingum í hag þar sem fleiri og fleiri ríki töluðu fyrir stærri efnahagslögsögu.
  • Í þriðja lagi var hótun Íslendinga að segja sig úr Norður-Atlantshafsbandalaginu (NATO) og þar með reka bandarískaherinn úr landi sterkt vopn á dögum kalda stríðsins. 
  • Í fjórða lagi voru margir sem höfðu samúð með litla Íslandi í baráttunni gegn hinu gamla breska heimsveldi.

Togvíraklippurnar 

Klippurnar1

Togvíraklippurnar sem minna hvað mest á ankeri eru í raun fjórir hnífar sem geta skorið í sundur togvíra á botnvörpum þegar þær eru dregnar þvert yfir þá.

Klippurnar voru helsta vopn Landhelgisgæslunnar gegn enskum togurum sem stunduðu veiðar innan nýrrar efnahagslögsögu í þorskastríðunum 1972 og 1975.  

Klippurnar komu fyrst fram árið 1958 (var þó ekki beitt í þorskastríðinu sem þá stóð yfir) og eru hugmynd Péturs Sigurðssonar þáverandi forstjóra Landhelgisgæslunnar.

Þegar klippurnar voru notaðar var klippt á togvíra ensku landhelgisbrjótanna á miklu dýpi svo ekki yrðu slys á mönnum eða tjón á skipum. Botnvörpur togaranna voru hins vegar úr sögunni með ærnum tilkostnaði fyrir útgerðina.

(Sjá einnig texta um klippurnar hér.)

Klippurnar2

 

Texti: Halldór B. Ívarsson http://frontpage.simnet.is/samfelagsfr/kennsluefni/thorskastridin/kennsluefni/thorskastridin.html
Kort: Sjómælingar Íslands