Viðbúnaður vegna eldsvoða um borð í skemmtibáti

  • Gróa Pétursdóttir, björgunarbátur SL, með skemmtibát í togi

Fimmtudagur 10. maí 2007.

Betur fór en á horfðist þegar eldur kom upp í skemmtibát laust fyrir kl. 19 í kvöld. Þyrla Landhelgisgæslunnar og tveir björgunarbátar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar héldu af stað til bjargar en skipverjum á skemmtibátnum tókst að slökkva eldinn áður en björgunarbátarnir og þyrlan komu á vettvang.

Að sögn Ásgríms L. Ásgrímssonar yfirmanns Vaktstöðvar siglinga/stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar höfðu skipverjar á skemmtibátnum samband við Vaktstöðina um kl. 18:45 og tilkynntu að eldur væri laus um borð.  Skemmtibáturinn var þá staddur á Viðeyjarsundi. Líf, björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, og björgunarbátarnir Ásgrímur Björnsson og Gróa Pétursdóttir höfðu nýlokið vel heppnaðri björgunaræfingu vestur af Engey þegar kallið kom og héldu þegar af stað til bjargar.  Varðstjórar í vaktstöðinni gerðu Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins einnig viðvart.

Skömmu síðar tilkynntu bátsverjar að þeir hefðu náð að slökkva eldinn með handslökkvitækjum en báðu um aðstoð til að komast í land þar sem þeir voru orðnir vélarvana. Þyrlan flaug þá af vettvangi en björgunarbátarnir komu að skemmtibátnum austur af Viðey um kl. 19:00.  Var þá afráðið að björgunarbáturinn Gróa Pétursdóttir drægi hann inn í Snarfarahöfn. Fimm fullorðnir voru um borð í bátnum og sakaði þá ekki.

Sigurður Ásgrímsson sprengjusérfræðingur hjá Landhelgisgæslunni tók meðfylgjandi mynd þegar Gróa Pétursdóttir var á leið inn í Snarfarahöfn með skemmtibátinn í togi.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.


Gróa Pétursdóttir, björgunarbátur SL, með skemmtibát í togi