Slökkvibúnaður til að bregðast við skógareldum keyptur í þyrlur Landhelgisgæslunnar

  • Steinríkur björgunarþyrla

Föstudagur 11. maí 2007.

Landhelgisgæslan hefur fengið búnað til að nota í þyrlum Landhelgisgæslunnar sem er sérstaklega hannaður til að slökkva gróðurelda. Um er að ræða sérhannaða fötu sem notuð er í þessum tilgangi. Hún rúmar alls 2000 lítra af vatni.

Brunamálamálastofnun hafði frumkvæði að því fyrir nokkru að kaupa þennan búnað og óskaði eftir liðsinni Skógræktar ríkisins, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar.  Úr varð að þessar stofnanir skiptu með sér kostnaðinum og hefur búnaðurinn verið afhentur Landhelgisgæslu Íslands.

Að sögn Björns Karlssonar brunamálastjóra hafði Brunamálastofnun forgöngu um að láta þýða kennslubók um viðbrögð við gróðureldum en Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands fjármagnaði útgáfu bókarinnar. Bókin verður notuð verður til að mennta viðbragðsaðila um slökkvistarf þegar gróðureldar eiga sér stað og er ætlunin að gera sérstakt átak í fræðslu hvað þetta varðar.  Í haust mun svo sænskur sérfræðingur koma til landsins og halda námskeið fyrir þyrluáhafnir og stjórnendur slökkviliða á landi um hvernig best sé að nýta búnaðinn til að slökkva gróðurelda.

Björn Karlsson brunamálastjóri segist vera mjög ánægður með samstarfið við stofnanirnar sem aðstoðuðu við kaup á búnaðinum enda er mikilvægt, sérstaklega í ljósi eldanna á Mýrum í fyrra, að slíkur búnaður sé til staðar hjá Landhelgisgæslunni.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.

Steinríkur björgunarþyrla
Úr myndasafni. Björgunarþyrlan Steinríkur á flugi yfir landið.