Áhöfn Lífar sótti ísklifurkonur á Grænlandsjökul

  • Ísklifurkonur Líf Grænland 100607

Sunnudagur 10. júní 2007. Björgunarþyrlan Líf flaug til Grænlands í gær til að sækja nokkrar vaskar konur sem höfðu verið þar við ísklifuræfingar. Flugvél þeirra hafði hlekkst á.

Laugardaginn 9. júní, hafði breska strandgæslan í Clyde í Skotlandi samband við vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands. Höfðu menn áhyggjur af hópi kvenna sem hafa dvalið við ísklifuræfingar á Grænlandsjökli. Heimasíða verkefnisins er : http://www.greenland-chicks.co.uk/

Við eftirgrennslan kom í ljós að Twin Otter flugvél sem flytja átti stúlkurnar til Íslands féll skyndilega niður um þunnt yfirborðslag íss á jöklinum með þeim afleiðingum að ekki náðist að rétta hana við. En vélin hafði verið að troða og herða snjóflugsbraut til að fara á loft aftur þegar óhappið varð. Undir þunnri ísskelinni virtist því vera einskonar púðursnjór sem nefskíði vélarinnar sökk í.  Óskað var eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar. 

Um kl. 15 var ákveðið kalla út áhöfn þyrlu til fararinnar. Björgunarþyrlan Líf lagði af stað um kl. 18 eftir talsverðan undirbúning.  Flugið yfir til Grænlands gekk vel og lenti þyrlan á ísnum hjá Twin Otter flugvélinni um kl.  20 eftir að hafa komið stutta stund við á Ísafirði.  Tveir flugvirkjar frá Flugfélagi Íslands ásamt flugstjóra voru skildir eftir við Twin Otter vélina. Var áætlað að einhvern tíma myndi taka að koma vélinni í loftið aftur.  Á meðan fór þyrlan og sótti konurnar að tjaldbúðum þeirra sem var í námunda við Borge Tinde. Eftir nokkra leit fann þyrlan kvennahópinn og var síðan flogið til Constable Point í um 160 mílna fjarlægð til að  taka eldsneyti  á þyrluna. Því var lokið um kl. 22:15 en einnig var vélin yfirfarin af flugvirkja og áhöfn Landhelgisgæslunnar áður en haldið var af stað. Frá Constable Point var haldið um kl. 0:15 í gær,  10. júní. 

Á leiðinni var nokkur mótvindur og sóttist flugið ekki eins vel og vonir stóðu til.  Þyrlan Líf lenti svo heilu og höldnu á Ísafirði kl. 2:58 í gærmorgun. og lauk þar með giftusamlegri aðstoð og aðgerð á Grænlandsjökli. Twin Otter flugvélin komst í loftið um kl. 6:30 í gærmorgun og var væntanleg til Ísafjarðar um níuleytið.

Friðrik Höskuldsson yfirstýrimaður í áhöfn björgunarþyrlunnar Lífar tók meðfylgjandi myndir.

Dagmar Sigurðardóttir lögfr./upplýsingaftr. - Harald Holsvik varðstjóri stjórnstöð LHG

Ísklifurkonur Líf Grænland 100607
Ísklifurkonurnar um borð í Líf.

Ísklifurkonur Líf Grænland 100607
Líf á Grænlandi.