Kajakræðarar fundust heilir á húfi eftir umfangsmikla leit

Þriðjudagur 12. júní 2007.

Tveir kajakræðarar sem leitað var að fundust heilir á húfi. Misskilingur varð þess valdandi að óttast var um þá.

Mikil leit var gerð að tveimur kajakræðurum sunnudaginn 10. júní en þeir ætluðu að róa frá Garðskaga að Malarrifi og gerði tengiliður þeirra ráð fyrir að heyra í þeim. Þegar það gerðist ekki fór hann að óttast um þá.

Mikill viðbúnaður var hjá Landhelgisgæslunni vegna leitarinnar. Björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, Gná, fór af stað kl. 20:40 á sunnudaginn og var við leit í fimm klukkustundir. Landhelgisgæslan sendi einnig sjómælingabátinn Baldur til leitar. Ekkert bólaði á kajakræðurunum.

Vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar bað öll skip og báta á svæðinu að svipast um eftir fólkinu og voru margar björgunarsveitir og björgunarskip þeirra einnig við leit. Syn fór af stað til leitar upp úr klukkan tíu í morgun. Hún var rétt lögð af stað þegar í ljós kom að kajakræðararnir voru fundnir heilir á húfi. Það var björgunarsveitarmaður á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem fann fólkið heilt á húfi við Sjöund á Rauðasandi.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.