Áhöfnin á Landhelgisgæsluþyrlunni Sif heil á húfi eftir nauðlendingu í sjónum við Straumsvík - unnið að björgun þyrlunnar
Mánudagur 16. júlí 2007.
Engan sakaði er þyrla Landhelgisgæslunnar, Sif, nauðlenti í sjónum við Straumsvík um kl. 18:50.
Er áhöfnin á Sif var við æfingar með áhöfninni á Einari Sigurjónssyni, björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, varð flugstjórinn á Sif að lenda þyrlunni á sjónum. Ekki er vitað hvað orsakaði þetta. (Staðsetning þyrlunnar er hún lenti á sjónum - 64°03,900n 022°03,900v).
Áhöfnin á björgunarskipinu Einari Sigurjónssyni sendi út neyðarkall og tilkynnti um þetta kl. 18:50. Þá kom fram að þetta liti vel út og að áhöfn Sifjar væri að fara út úr þyrlunni. Skömmu síðar, eða kl. 18:54, var tilkynnt að áhöfnin væri heil á húfi, komin um borð í björgunarskipið Einar Sigurjónsson.
Önnur þyrluvakt Landhelgisgæslunnar, áhöfnin á þyrlunni Gná, var þegar kölluð út með bráðaútkalli. Þar sem fljótt kom í ljós að áhöfnin á Sif var heil á húfi fóru aðgerðir eftir það að snúast um að bjarga þyrlunni úr sjónum.
Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.