Áhöfn björgunarskipsins Einars Sigurjónssonar þakkað fyrir björgun áhafnar landhelgisgæsluþyrlunnar Sifjar

  • Sif_naudlending_grillveisla

Föstudagur 20. júlí 2007.

Eins og fram kom á blaðamannafundi Landhelgisgæslunnar sl. miðvikudag, hafði æfing landhelgisgæsluþyrlunnar Sifjar með Einari Sigurjónssyni, björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, staðið í 10 mínútur þegar þyrlan missti skyndilega afl. Þetta kemur fram í lýsingu Sigurðar Heiðars Wiium flugstjóra af atburðinum. Áhöfnin greindi ástandið á nokkrum sekúndum og ákvað að nauðlenda vélinni á sjónum.

Stýrimaðurinn og sigmaðurinn Thorben Jósef Lund var staddur um borð í björgunarskipinu þegar þetta gerðist og tengdur við þyrluna með línu. Hann sagðist fljótt hafa gert sér grein fyrir því að eitthvað var að, tengdi sig þá strax úr línunni og henti króknum fyrir borð.

Eftir nauðlendinguna drap áhöfnin á mótorum vélarinnar, tók helstu pappíra og gögn með sér og fór út um aftari hægri hurð vélarinnar. Síðan syntu þeir að björgunarbáti björgunarsveitar Hafnarfjarðar. Sigurður Heiðar Wiium sagði að skammur tími hafi liðið þar til einn loftbelgur af fjórum sem hélt þyrlunni á floti sprakk með þeim afleiðingum að henni hvolfdi. Þorkell Ágústsson hjá Rannsóknarnefnd flugslysa segir að rannsóknin beinist nú helst að hreyflum vélarinnar og hljóðritinn hefur verið sendur út til Bretlands til rannsóknar. Áhöfnin á Sif getur ekki sagt til um hvað orsakaði það að vélin missti afl.

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar sjá eftir þyrlunni Sif sem hefur frá árinu 2000 farið í 365 útköll, flutt og bjargað 225 manns og flogið samtals 440 klst. við leitar, björgunar og sjúkraflug.  Stórt skarð er hoggið í björgunartækjaflota landsmanna.

Landhelgisgæslan bauð björgunarmönnunum á Einari Sigurjónssyni, björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, til grillveislu í gærkvöldi í þakklætisskyni fyrir björgun áhafnar TF-SIF og gott samstarf í gegnum tíðina. Við það tilefni þakkaði Halldór Benóný Nellett framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs, fyrir hönd Landhelgisgæslunnar, áhöfninni á Einari Sigurjónssyni fyrir björgunina og einnig fyrir fagleg og fumlaus vinnubrögð við björgun þyrlunnar.

Allir í áhöfn Einars Sigurjónssonar fengu fána Landhelgisgæslunnar í þakklætisskyni og þá gaf Ingólfur Haraldsson skipstjóri Landhelgisgæslunni myndir sem áhöfn Einars SIgurjónssonar tók eftir nauðlendinguna. Að því loknu snæddu áhafnirnar kvöldverð. Samkoman endaði svo með því að Landsbjargarmönnum var sýndur þyrlukostur Landhelgisgæslunnar og áhafnirnar ásamt framkvæmdastjóranum áttu saman skemmtilegt spjall um björgunarmál.
 
Meðfylgjandi myndir voru teknar eftir grillveisluna í flugdeild.  Þar á eftir eru myndirnar sem áhöfn björgunarskipsins Einars Sigurjónssonar gaf Landhelgisgæslunni.

Dagmar Sigurðardóttir lögfr. / Thorben Jósef Lund yfirstýrimaður flugdeild.

 
 
Sif_naudlending_grillveisla
Allur hópurinn fyrir framan þyrluna Líf.
Aftari röð frá vinstri : Thorben Jósef Lund yfirstýrimaður flugdeildar, Halldór B. Nellett framkvæmdastjóri aðgerðasviðs, Karl Sigurjónsson, Guðmundur Sigurðsson, Andri Már Jónsson og  Ásgeir R. Guðjónsson Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Ingólfur Haraldsson skipstjóri björgunarskipsins Einars Sigurjónssonar, Sigurður Heiðar Wiium yfirflugstjóri flugdeildar, Jens Þór Sigurðsson flugmaður, Daníel Hjaltason flugvirki.
Fremri röð frá vinstri : Oddur Halldórsson, Birgir Snær Guðmundsson, Arna Friðriksdóttir, Ingvar Þór Guðjónsson, Hrund Ýr Óladóttir og Harpa Karlsdóttir Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.

Sif_-_naudlending_-_grillveisla_190707 II
Landsbjargarmenn ásamt Halldóri framkvæmdastjóra aðgerðasviðs og Sigurði Heiðari Wiium flugstjóra í flugskýli LHG að skoða þyrluna Líf.


Sif - nauðlending - grillveisla 190707
Daníel flugvirki að kynna spilbúnaðinn um borð í þyrlunni Gná.

1851_FYRSTA_MANNI_BJARGAD_UM_BORD

Þyrlan nauðlent og áhöfn Fiskakletts ásamt Thorbeni sigmanni að bjarga fyrsta áhafnarmeðlimi Sifjar um borð í Fiskaklett.

Sif - nauðlending - 160707
Seinasta áhafnarmeðlimi Sifjar bjargað um borð í Fiskaklett.

Sif - nauðlending - 160707
Hluti fremra flotholts hægra megin sprunginn og vélin hallast.

Sif - nauðlending - 160707
Thorben sigmaður Sifjar syndir að þyrlunni til að festa línu með flotbelg í hana en það er gert til að merkja staðsetningu ef vélin skyldi sökkva.

Sif - nauðlending - 160707 - vélin farin að velta
Sif byrjar að velta.

1911_orlogin_radinn
Örlögin ráðin.