Nýtt sjókort af Austfjörðum
Fimmtudagur 6. desember 2007
Nýtt sjókort af Austfjörðum er komið út. Kortið sem heitir Glettinganes – Hlaða og er nr. 73 nær frá Glettinganesi, sunnan Borgarfjarðar eystri að Hlöðu í Breiðdalsvík og er í mælikvarðanum 1:100 000. Það leysir af hólmi eldra kort með sama nafni og númeri . Gamla kortið var gefið út af „det kongelige Søkort-Arkiv“ í Kaupmannahöfn í október 1944. Dýptarmælingarnar sem sú útgáfa kortsins byggir að stærstum hluta á voru gerðar árið 1898 eða fyrir 109 árum.
Útkoma hins nýja sjókorts er mikilsverður viðburður bæði fyrir sjómælingasvið Landhelgisgæslunnar og ekki síður sjófarendur við Ísland sem fá nú í hendur kort sem byggir á nýjustu upplýsingum um svæðið. Fyrir starfsmenn sjómælingasviðs er stórum áfanga náð.
Nýja kortið byggir á dýptarmælingum sem gerðar voru á mælingabátnum Baldri á árunum 2003 og 2004. Mælingar nærri landi og inn á fjörðum voru gerðar með fjölgeisladýptarmæli. Önnur svæði voru mæld með venjulegum bergmálsdýptarmæli.
Nýja útgáfan af korti nr. 73, Glettinganes - Hlaða
Úr eldri útgáfu af korti nr. 73
Sama svæði í nýrri útgáfu af korti nr. 73
Frá vinstri: Árni Þór Vésteinsson deildarstjóri kortadeildar sjómælingasviðs, Sjöfn Axelsdóttir sjókortagerðarmaður, Þórður Gíslason sjókortagerðarmaður Snjólaug Gudjohnsen sjókortagerðarmaður, Ásgrímur L. Ásgrímsson fyrrverandi deildarstjóri mælingadeildar, núverandi yfirmaður Vaktstöðvar siglinga , Björn Haukur Pálsson deildarstjóri mælingadeildar sjómælingasviðs og Níels Bjarki Finsen verkefnisstjóri rafrænna sjókorta.
SRS 06.12.2007