Landhelgisgæsla Íslands gerir samstarfssamning við skipaumferðarmiðstöðina í Vardö í Noregi

  • risaoliuskipid_dundee_feb_2003

Föstudagur 14.desember 2007

Landhelgisgæsla Íslands gerði í vikunni samstarfssamning við Vardö VTS (e.vessel traffic service), sem er skipaumferðarmiðstöð í norður-Noregi, sem vaktar meðal annars, alla skipaumferð á hafsvæðinu undan norður og norðvestur Noregi.

Starfssemi stöðvarinnar hófst 1.janúar á þessu ári. Megin hlutverk Vardö VTS að fylgjast með allri skipaumferð á stóru svæði undan NV-strönd Noregs og einnig að bregðast við ef hættuástand skapast, t.d. ef skip verða fyrir vélarbilun, þá bregst stöðin við því með dráttarskipum sem tiltæk eru hverju sinni.

Norðmenn settu, á síðastliðnu ári, reglur um siglingar skipa í sinni lögsögu sem samþykktar voru af Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) . Samkvæmt þeim verða skip yfir ákveðinni stærð, öll tankskip og skip með hættulegan farm að halda sig fjarri landi, um 30 sjómílur frá ströndinni. Vardö stöðin fylgist með að þessu sé framfylgt. Skip verða að tilkynna sig til stöðvarinnar með góðum fyrirvara. Stöðin aflar upplýsinga um skipin með ýmsum hætti s.s. með AIS – kerfi (sjálfvirkt auðkenningarkerfi skipa), með ratsjám, með talstöðvasamskiftum, gervitunglamyndum. Auk þessa eru önnur eftirlitskerfi í þróun. Stöðin hefur því góða yfirsýn yfir alla umferð á svæðinu og möguleika á að bregðast við hættu sem upp kann að koma. Þá má einnig geta þess að á umræddu svæði, sem skipt er í þrennt, eru ávallt 3 dráttarskip til reiðu yfir vetrartímann.

Með ört vaxandi olíuvinnslu Rússa má gera ráð fyrir mjög aukinni umferð stórra olíu- og gasflutningaskipa með stóra farma frá Rússlandi og norður Noregi, m.a. á leið til Bandaríkjanna. Spáð er að allt að 500 stór tankskip fari árlega með farma allt að 100 þús. tonn um lögsögu Ísland á leið sinni vestur um haf árið 2015 eða eftir einungis 7 ár.

risaoliuskipid_dundee_feb_2003
Risaolíuskipið Dundee (mynd: Flugdeild LHG)

Það er því gríðarlega mikilvægt að íslensk stjórnvöld geri ráðstafanir vegna þessarar ört vaxandi umferðar sem fyrst og að settar verði reglur um að þessi skip sigli ekki með stóra farma af olíu hér uppí landsteinum undan suðaustur og suðurströndinni, með viðeigandi hættu fyrir lífríkið.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hversu alvarlegt það væri ef slíkum skipum hlekktist á og mengunarslys yrði. Alþjóða siglingastofnunin (IMO) hefur nú nýverið samþykkt ákveðnar reglur um siglingaleiðir skipa yfir 5000 tonnum að stærð og skipa með hættulega farma við SV-land, undan Reykjanesi og í Faxaflóa og taka þær gildi 1.júlí á næsta ári.

oliuskip_i_sjogangi
Risaolíuskip (mynd: Flugdeild LHG)

Það er m.a. af þessum ástæðum að Landhelgisgæslan gerði umræddan samning við Vardö VTS en hann felst í því að stöðin sendir Landhelgisgæslunni, með góðum fyrirvara, allar upplýsingar um skip sem eru á leið til Íslands eða suð-vestur um haf, til Bandaríkjanna eða Kanda. Í tilkynningunum eru skráð stærð skipanna, farmur þeirra, djúprista, fjöldi í áhöfn, hvar og hvenær viðkomandi skip kemur inn í efnahagslögsögu Íslands og fyrirhuguð leið skipanna um lögsöguna og hvar þau sigla út úr henni. Með þessar upplýsingar getur Landhelgisgsæsla Íslands, með góðum fyrirvara séð fyrirhugaða leið viðkomandi skipa um lögsöguna og ef þörf krefur eða ástæða þykir til, brugðist við ástandinu með viðeigandi hætti.

Með samningnum skuldbindur Landhelgisgæsla Íslands sig til að upplýsa Vardö VTS á sama hátt um þá skipaumferð sem Landhelgisgæslunni er kunnugt um að stefni til norður Noregs eða Rússlands, bæði skip sem láta úr höfn á Íslandi og einnig þau skip sem varðskip og eftirlitsflugvél LHG verða vör við í efnahagslögsögunni. Í framtíðinni verður mögulegt að skiptast á skipaumferðarupplýsingum sem þessum í gegnum sjálfvirk tölvukerfi sem Siglingaöryggistofnun Evrópubandalagsins í samvinnu við siglingastofnanir Evrópuríkja stendur fyrir. Fyrrnefndur samningur þjónar þessum tilgangi fyrir skipaumferð milli Íslands og Noregs þar til kerfið verður komið í gagnið.

Halldór B. Nellet, framkvæmdastjóri Aðgerðasviðs LHG

Sigríður Ragna Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi LHG

SRS 14.12.2007