TF-SYN í ískönnunarflugi - ís 30 sjómílur norður af Horni

  • Iskonnunarflug_18022008

Þriðjudagur 19. febrúar 2008

Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, fór í reglubundið ískönnunarflug úti fyrir Vestfjörðum og Norðurlandi í gær. Ísröndin, á hafinu milli Íslands og Grænlands reyndist vera næst landinu um 30 sjómílur norður af Horni, um 62 sjómílur vestnorðvestur af Straumnesi og um 50 sjómílur vestur af Kolbeinsey. Skyggni var nokkuð gott, vindur SSV 20 hnútar og lofthiti 8°- 9°C. Ísinn virtist vera bráðnandi og ísbreiðan þunn.

Iskonnunarflug_18022008
Ísbreiðan fyrir norðan land 18.febrúar 2008

Iskort_lhg180208fin
Ískort Landhelgisgæslunnar 18.febrúar 2008

Skýrslu úr ískönnunnarfluginu má nálgast hér

Með í för var Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í Landfræði við Háskóla Íslands. Ingibjörg gerði samanburð á ískorti Landhelgisgæslunnar og ratsjármynd úr gervitungli:

Iskort_radarm_samanb180208a
Samanburður á ískorti LHG og ratsjármynd frá 18. febrúar 2008
(Kort: Ingibjörg Jónsdóttir)      (tvísmellið á myndina til að stækka)

Á ratsjármyndinni, sem er tekin úr ENVISAT gervitunglinu kl. 12:00 á hádegi 18.02.2008, má sjá misþéttan hafís úti fyrir Vestfjörðum. Til samanburðar er ískort Landhelgisgæslunnar teiknað ofan á myndina. Um tveir tímar liðu á milli þess að gervitunglið fór yfir og þar til flugvél Landhelgisgæslunnar flaug yfir ísinn. Á meðan færðist ísinn til norðausturs, enda var sunnanátt þennan dag.

Ratsjármyndir úr gervitunglum henta vel til hafíseftirlits því þær eru óháðar birtuskilyrðum og skýjahulu. Það er sem sagt hægt að sjá hafísinn á þeim yfir myrkustu vetrarmánuðina og á nóttunni og eins í alskýjuðu veðri.
(Ingibjörg Jónsdóttir)

Frekari fróðleik um hafís má finna á heimasíðu Ingibjargar http://www.hi.is/~ij/hafis/index.php
og á heimasíðu Veðurstofu Íslands
http://www.vedur.is/hafis/hafistilkynningar/2008

19.02.2008 SRS