Gamlir neyðarsendar um borð í skipum. Leit að neyðarsendi - hafði verið gangsettur og hengdur utan á sorpgám.

  • Neydarsendar

Fimmtudagur 17.apríl 2008

Töluvert er er enn af gömlum neyðarsendum um borð í skipum og bátum á Íslandi.
Um er að ræða senda sem senda út á tíðnum 121,5 og 243 MHz í alþjóðlega COSPAS-SARSAT gervihnattakerfinu. Eins eru dæmi þess að sendar af þessu tagi liggi í reiðileysi þar sem óviðkomandi aðilar eða jafnvel börn og unglingar geta komist að þeim og sett neyðarsendinn af stað í gáleysi eða misskildum leik.

Þegar skeyti berst frá sendi af þessu tagi þá koma tvö möguleg svæði til greina sem geta verið með miklu millibili til leitar auk þess sem staðsetningarnákvæmni boðanna er ekki mikil, getur skeikað um tugi sjómílna. Stærð þess svæðis sem leita þarf á, getur því verið tugir sjómílna í ummál, fyrir hvern stað.

Þegar boð berast frá neyðarsendi á svæðinu á og umhverfis Ísland, eru viðbragðsaðilar ræstir á öllu Norður- Atlantshafssvæðinu. Vaktstöðvar siglinga, strandgæslur, lögregla og björgunarsveitir auk þess sem skipum og flugvélum á viðkomandi svæði er gert að svipast um. Úrvinnslu staðsetningarboða á þessum tíðnum verður hætt þann 1. febrúar 2009.

Nýir sendar hafa verið teknir í notkun sem senda út á 406 MHz og eru jafnvel með GPS staðsetningarbúnað og geta því sent út nákvæma staðsetningu auk þess sem þeir senda út auðkenni skipa. Eftir 1. febrúar 2009 verður einungis unnið úr boðum á 406 MHz tíðni.

Í gær, miðvikudaginn 16.apríl, bárust Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar boð frá neyðarsendi við Snæfellsnes. Reynt var að staðsetja boðin eins nákvæmlega og kostur var, en illa gekk að staðsetja sendinn. Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á staðinn, lögregla var í viðbragðsstöðu, Björgunarsveitin Lífsbjörg í Snæfellsbæ fór til leitar og skip og flugvélar á svæðinu svipuðust um. Stöðvar á Norður-Atlantshafssvæðinu, sem námu boðin voru einnig í viðbragðsstöðu. Neyðarsendirinn fannst svo eftir um 2 klukkustunda leit, bundinn utan á sorpgám, á sorphaugum á Rifi á Snæfellsnesi. Ljóst er að sendirinn hefur verið gangsettur af ásettu ráði, í leik eða óvitaskap.

Mál af þessu tagi eru grafalvarleg enda er með þessu verið að sóa verðmætum tíma viðbragðsaðila og misnota búnað til leitar og björgunar.

Neydarsendar
Neyðarsendar af ýmsu tagi

17.02.2008 SRS