Sprengjusérfræðingar við störf í Líbanon

  • Sprengjud_Libanon_2008_malmleitart2

Mánudagur 16.júní 2008

Nú nýverið lauk dvöl meðlima sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar í Líbanon, þar sem þeir unnu að sprengjueyðingu. Þetta er verkefni á vegum íslensku friðargæslunnar (ICRU), í samstarfi Landhelgisgæslunnar, Utanríkisráðuneytis og Dómsmálaráðuneytis. Tveir hópar skiptu með sér tímabilinu og voru Jónas K. Þorvaldsson sprengjusérfræðingur og Alexander Reuter Runarsson aðstoðarmaður sprengjusérfræðings í verkefninu frá 19.mars til 18.apríl sl. þá tóku sprengjusérfræðingarnir Marvin Ingólfsson og Martin Sövang Ditlevsen við og voru til 6.júní sl. Allt tímabilið starfaði Eggert Snorri Guðmundsson neyðarbílsmaður (e.Medic) frá Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins með sprengjusérfræðingunum.

Sprengjusérfræðingarnir voru við störf í hafnarborginni Tyrus í SV-Líbanon, þar sem þeir störfuðu undir stjórn Sameinuðu þjóðanna. Þaðan var verkefnum úthlutað og voru þeir við sprengjueyðingu víðsvegar um sunnanvert landið. Hóparnir ferðuðust alltaf um á tveimur bifreiðum, önnur er sérútbúin sem sjúkrabíll og til taks ef eitthvað færi úrskeiðis en hin bifreiðin var búin sérútbúnaði til sprengjuleitar og -eyðingar. Auk sérfræðinganna hafði liðið á að skipa bílstjórum og túlkum hverju sinni.

Liðið var svokallað bráðalið (e. Rapid Response Team) og sinnti verkefnum þar sem almenningi stóð bein hætta af sprengjunum eða þær voru við erfiðar aðstæður. Sinntu þeir fjölbreyttum verkefnum og fengust við ýmsar tegundir sprengja svo sem; klasaprengjur, jarðsprengjur, sprengjukúlur, sprengjuvörpukúlur, handsprengjur og stórar flugvélasprengjur.

Meðfylgjandi myndir tók Marvin Ingólfsson.

Sprengjud_Libanon_2008_klasaspr
Klasasprengja á víðavangi

Sprengjud_Libanon_2008_klasaspr2
Klasasprengja

Sprengjum af þessu tagi er eytt á þann hátt að fyrst er sprengjan gerð óvirk með því að fjarlægja kveikibúnaðinn með sérstökum búnaði og aðferðum áður en sprengjan er flutt á öruggan stað til eyðingar. Við vissar aðstæður er ekki gerlegt að flytja sprengjurnar og þá er þeim eytt með því að sprengja þær á staðnum. Auk þess þarf þó að grípa til umfangsmikilla öryggis- og varúðarráðstafana. Um þær gilda staðlar NATO og eru svæði rýmd og fólk flutt á brott eftir því sem þörf krefur.

Sprengjud_Libanon_2008_malmleitart2
Marvin gerir sig kláran með málmleitartæki til sprengjuleitar

Aðstæður í Líbanon voru, á meðan liðin voru í landinu mjög erfiðar, landið á barmi borgarastyrjaldar og miklar óeirðir geysuðu í landinu með miklu mannfalli. Þurfti liðið að leggja tímabundið niður störf vegna þessa og bjó sig undir að yfirgefa landið í snarhasti, ef til kæmi. Liðið bjó þó inná öruggu svæði undir vernd Sameinuðu þjóðanna. Borgarastríðinu í Líbanon lauk, þegar íbúar landsins kusu sér forseta.

Á meðan á dvölinni stóð, tóku okkar menn þátt í friðarhlaupi (Run for Peace) í Líbanon og hlupu hálfmaraþon í 35°C hita og steikjandi sól með glæstum árangri. Vakti það töluverða athygli fjölmiðla og almennings að þarna væru komnir íslendingar, út að hlaupa í sólinni sem þar að auki störfuðu við sprengjueyðingu í landinu.

Sprengjud_Libanon_2008_hlaup
Hlaupaliðið, Eggert, Martin, Marvin og Höskuldur (fulltrúi SRSA)

Reynsla af þessu tagi er gríðarlega mikilvæg fyrir sprengjudeild Landhelgisgæslunnar, þar sem ekkert verkefni er eins og sú þekking og reynsla sem liðið flytur með sér heim ómetanleg. Þátttaka sprengjudeildarinnar og samstarf við fulltrúa Slökkviliðs Höfuðborgarsvæðisins, þótti takast mjög vel og voru þátttakendur ánægðir með erfiða en reynslumikla dvöl. Þess ber að geta að sprengjudeildin tók þátt í sams konar verkefni í Líbanon á síðastliðnu ári, einnig með mjög góðum árangri.

16.06.2008 SRS og Marvin Ingólfsson sprengjusérfræðingur