Hert eftirlit með fiskiskipum á eftirlitssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins við Ísland

Mánudagur 23.júní 2008

Landhelgisgæslan hefur eins og undanfarin ár stundað eftirlit með karfaveiðum á Reykjaneshrygg, bæði innan og utan fiskveiðilögsögu Íslands. Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðið (NEAFC) sem stjórnar veiðum á svæðinu hefur hert reglur um veiðarnar bæði hvað varðar aflamagn, veiðisvæði og tímabil veiðanna á mismunandi svæðum. Litið er á það sem alvarlegt brot ef upplýsingar um veiðar skipa aðildarríkja eru ekki aðgengilegar í gagnagrunni fiskveiðráðsins og er þá veiðileyfi viðkomandi skips ekki í gildi.

Á undanförnum vikum hefur Landhelgisgæslan sent fjölda tilkynninga til aðildarríkja fiskveiðiráðsins þar sem gerðar eru athugasemdir vegna skorts á upplýsingum m.a. tilkynningar um aflamagn þegar komið er inn á veiðisvæði, vikulegar aflaupplýsingar og tilkynningar um umskipun úti á hafi. Nokkrar aðildarþjóðir hafa komið þessum málum í lag í kjölfarið en aðrar ekki.

Veiðar á fiskveiðistjórnunarsvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins, bæði á úthafinu og innan lögsögu, án gilds veiðileyfis eru ólöglegar og samkvæmt íslenskum lögum er bannað að þjónusta skip sem hafa gerst sek um brot á reglum fiskveiðiráðsins. Íslensk stjórnvöld hafa tilkynnt öllum aðildarríkjum ráðsins að skip þeirra sem uppfylla ekki skilyrði veiðanna sé óheimilt að koma í íslenskar hafnir. Landhelgisgæslan hefur því synjað nokkrum skipum aðildarríkjanna um leyfi til hafnarkomu á Íslandi.

Ekkert hefur sést til svokallaðra sjóræningjaskipa á Reykjaneshrygg, en það eru skip ríkja sem ekki eiga aðild að fiskveiðiráði og veiða í leyfisleysi á yfirráðasvæði þess. Ráðstafanir fiskveiðistjórnunarráða gagnvart þeim líta út fyrir að hafa skilað tilætluðum árangri.

Gylfi Geirsson, forstöðumaður Fjarskiptaþróunar og fjareftirlits LHG

Dagmar Sigurðardóttir, lögfræðingur LHG

23.06.2008 SRS